Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 14:14:27 (3628)

1999-12-21 14:14:27# 125. lþ. 51.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[14:14]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir og mér þykir vænt um að þessum misskilningi var eytt. Hv. þm. var sem sagt ekki að eigna neinum þingmönnum þær skoðanir sem ég komst eiginlega ekki hjá að ætla af fyrri ræðu hans. En nú er vísað til hins almenna samhengis málsins og þetta tekið upp sem í orðastað Austfirðinga væri og þá snýr málið að sjálfsögðu öðruvísi við.

Ég held hins vegar alveg gagnstætt við það sem lá í svari hv. þm. að verði þetta mál knúið fram með þeim hætti sem nú stendur til verði það miklu frekar til þess að torvelda samkomulag um frekari framkvæmdir og framhald mála á þessu sviði en hið gagnstæða. Enginn vafi er í mínum huga að með þessari framgöngu ríkisstjórnarinnar er verið að segja svoleiðis í sundur friðinn í landinu um þessa hluti að menn eru ekki búnir að bíta úr nálinni með það þó svo að þetta mál kunni kannski að komast á áfangastað. Öfugt held ég að ef menn hefðu séð að sér og breytt um vinnubrögð og aðferðafræði hefðu verið miklu meiri líkur til þess að á komandi árum hefði verið hægt að ná einhverjum þokkalegum friði um tiltekna orkunýtingu á forsendum sem væru umhverfinu boðlegar og í takt við nútímaviðhorf í þeim efnum.

Þessi aðferð segir í sundur friðinn. Þessi þvingunargerð ríkisstjórnarinnar mun miklu frekar að mínu mati slá því á langan frest að menn leggi upp með aðrar slíkar eða sambærilegar framkvæmdir og jafnvel þó minni væru vegna þess að með þessu er verið að sá þvílíkum fræjum tortryggni og úlfúðar með þjóðinni um þessi mál að menn eru fjarri því að vera búnir að bíta úr nálinni með það.