Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 14:39:11 (3631)

1999-12-21 14:39:11# 125. lþ. 51.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[14:39]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þá ágætu umræðu sem hér hefur farið fram við síðari umræðu þessarar þáltill. Nokkrar spurningar hafa verið bornar upp og ætla ég í þessari ræðu að reyna að svara þeim allflestum. Kannski kann svo að fara að einhverjum þeirra verði ósvarað. En þá gefst mér tækifæri síðar við umræðuna að smala þeim betur saman og veita svör ef hv. þm. verða ekki alls kostar ánægðir með svörin nú.

Í fyrsta lagi hefur komið fram hjá nokkrum ræðumönnum að menn hafa spurt hver sé tilgangurinn með þessum tillöguflutningi. Í öðru orðinu er þessi spurning sett fram og í hinu orðinu segja menn að það sé alveg nauðsynlegt að Alþingi fjalli um málið. Það verður ekki dregið í efa að allar lagalegar heimildir voru til staðar fyrir Landsvirkjun til að fara af stað með þessar framkvæmdir. Það er ekki dregið í efa nema af sárafáum hv. þm. sem hér hafa talað við þessa umræðu. En meginmálið er það að árið 1981 samþykkti Alþingi þessi réttindi með lögum um raforkuver til handa Landsvirkjun. Samningur ríkisstjórnarinnar við Landsvirkjun er síðan 1982. Virkjunarleyfi var gefið út 1991 og síðan er virkjunin undanþegin mati á umhverfisáhrifum með lögunum um mat á umhverfisáhrifum þegar þau á sínum tíma voru sett.

Það hefur orðið mikil breyting á Alþingi frá 1981 þegar þessi upphaflegu réttindi voru veitt. Þess vegna var mjög eðlilegt að menn spyrðu hvort það væri alveg víst að jafngóður meiri hluti væri fyrir þessum framkvæmdum og þegar réttindin á sínum tíma voru afhent Landsvirkjun. Það er eðlilegt að sú spurning hafi komið fram og hún kom fram mjög ítrekað sl. sumar og í haust, þ.e. að það væri vafasamt, ekki síst í ljósi þess að einstakir þingmenn í stjórnarliðinu gáfu mjög skýrar vísbendingar um að þeir styddu ekki þessar framkvæmdir. Þess vegna var nauðsynlegt að leggja þessa þáltill. fram til að ganga úr skugga um það hvort ekki væri skýr meiri hluti á Alþingi fyrir því að halda þessum framkvæmdum áfram. (Gripið fram í: Er þetta allt út af Kristjáni Pálssyni?) Það er ekkert nauðsynlegt að velta fyrir sér afstöðu hv. þm. Kristjáns Pálssonar vegna þess að hún hefur komið einna skýrast fram við þessa umræðu. (ÓÖH: Og í fyrra.) Já, og í fyrra líka þannig að það þarf ekkert að vera að draga afstöðu hans í þessu máli í nokkurn efa. (SJS: Hann er á móti því á sléttum tölum en með því á oddatölum.)

Í öðru lagi leikur ekki nokkur vafi á því að þegar þessi þáltill. verður samþykkt, eins og ég vonast til, þá hefur samningsaðstaða íslenskra stjórnvalda verið treyst í málinu. Á því er ekki nokkur einasti vafi.

Í þriðja lagi er með þessari þáltill. verið á Alþingi að opna fyrir lýðræðislega umræðu um málið. Það er auðvitað eðlilegt að löggjafarsamkoma þjóðarinnar fái slíkt stórmál til umfjöllunar á fyrstu stigum þess eins og hér er um að ræða. En ég kem inn á það á eftir að auðvitað þegar við komum að samningum öllum, þá munu þeir líka koma hér til umfjöllunar. (Gripið fram í: En vinnubrögðin í þinginu verða að vera lýðræðisleg.) Já, þau þurfa að vera lýðræðisleg, hv. þm., herra forseti. Og það hafa verið viðhöfð lýðræðisleg vinnubrögð við framkvæmd málsins á Alþingi. (Gripið fram í.)

Þegar ljóst var að áhugi allra aðila sem að málinu komu í upphaflegum viðræðum, þ.e. Norsk Hydro, íslenskra stjórnvalda og Landsvirkjunar stæði til þess að reyna að ná samningum um byggingu álvers á Reyðarfirði og að þar af leiðandi þyrfti Landsvirkjun að sjá um að útvega raforku á samkeppnisfæru verði til þeirrar virkjunar, þá þegar vilji allra þessara aðila lá fyrir töldum við nauðsynlegt að breyta um takt í þeim samningaviðræðum sem menn höfðu reynslu af, og menn þekkja reynsluna af slíkum viðræðum. Hver tilraunin af annarri hefur verið gerð í þá veru að reyna að ná samningum um orkufrekan iðnað í landinu. En það hefur mistekist. Þess vegna settust aðilar niður og gengu frá samstarfsyfirlýsingu sem undirrituð var á Hallormsstað 29. júní og gengur út á það að tímasetja einstaka þætti málsins með það í huga að lokaákvörðun um málið yrði tilbúin fyrir 1. júní á næsta ári.

Þessi samstarfsyfirlýsing er raunverulega grundvöllur þess samstarfs sem verið hefur í gangi síðan þar sem allir aðilar hafa lýst því yfir að nauðsynlegt sé að standa við þessi tímamörk og keppa að því að taka þessa ákvörðun fyrir 1. júní, þ.e. heildarákvörðunina.

[14:45]

Þessi samstarfsyfirlýsing gengur út á að binda samninga um tiltekna þætti málsins og tilteknir samningar og tiltekin atriði við undirbúning heildarsamnings eiga að vera tilbúin á tilsettum og ákveðnum tímum eins og yfirlýsingin gengur út á. Það kann vel að vera, og ég ætla ekki að neita því, að einstakir þættir við einstaka samninga geti eitthvað hreyfst til í tíma og hv. þingmenn hafa bent á það í umræðunni að tiltölulega skammur tími sé nú til þess að ljúka einstökum samningum. Það þýðir ekki að ekki sé hægt að ljúka heildarsamningum, lokasamningum um verkefnin í heild sinni fyrir 1. júní. Ekkert hefur komið fram á þessari stundu sem ætti að koma í veg fyrir að þeir samningar muni nást hvað tímaskort snertir. Hins vegar er alveg ljóst að eftir er að semja um marga mjög mikilvæga þætti málsins eins og orkuverðið sem ég tel nú að sé langstærsti þáttur málsins og geti haft úrslitaáhrif á það hvort samningar nást eða ekki. En aðalatriðið er að fyrir 1. júní tel ég að okkur eigi að takast að ganga frá lokasamningi.

Eitt af því sem mér finnst hafa staðið upp úr við síðari umræðuna eru þeir arðsemisútreikningar og hagkvæmni sem af þessu hlýst. Þar hafa menn vitnað í hvern hagfræðinginn á fætur öðrum og þær forsendur sem þeir hafa verið að gefa sér við útreikningana hafa verið mjög mismunandi og þær hafa verið misgóðar. Menn hafa gefið sér mismunandi forsendur varðandi stofnkostnað. Menn hafa gefið sér mismunandi forsendur varðandi orkugetuna, það sem snýr að stofnkostnaðinum. Það er alveg rétt sem fram kom hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni í gær við umræðuna að menn töluðu um að heildarfjárfestingin í orkumannvirkinu gæti verið í kringum 30 milljarðar kr. Á þá tölu reynir ekki fyrr en menn sjá hvað út úr tilboðunum kemur. (KolH: Plús fórnarkostnaðurinn, umhverfiskostnaðurinn.) Það er alveg sératriði í þessu en ekki beinn hluti af stofnkostnaði við byggingu þessarar virkjunar. (KolH: En ætti að vera það.) Nei, það eru auðvitað aðrir þættir sem koma inn í þessa útreikninga líka og ég kem kannski að þeim örlítið síðar.

Það reynir fyrst á hvort þessi tala í fjárfestingunni við virkjunina í heild sinni muni standast eða ekki þegar tilboðin í virkjunina verða opnuð. Reynslan er hins vegar sú að tilboð sem gerð hafa verið í þessi mannvirki eru yfirleitt alltaf undir kostnaðaráætlun, ekki bara þarna heldur almennt út af þeirri samkeppni sem er á markaðnum.

Varðandi orkugetuna voru menn á villigötum í upphafi, reiknuðu með 1.200 gwst. afkastagetu á ári. Það var leiðrétt. Þau mistök má rekja til margra þátta og er engin ástæða til að rifja það sérstaklega upp. Hins vegar hafa menn komist að þeirri niðurstöðu að afkastagetan sé 1.390 gwst. á ári.

Orkuverðið hafa menn líka verið að gefa sér og byggt það á orkuverði eins og menn lesa það út úr ársskýrslu Landsvirkjunar á síðasta ári (KolH: Og skýrslu Orkustofnunar.) og skýrslu Orkustofnunar sem byggir bara á skýrslu Landsvirkjunar. Þá kemur í ljós að menn eru þar með ótrúlega lágt orkuverð og á því eru skýringar.

Í fyrsta lagi hafa tiltölulega nýir samningar verið gerðir og það liggur fyrir og var kynnt á Alþingi á sínum tíma að á fyrri hluta samningstímans greiða menn lægra orkuverð en á síðari hlutanum sem þýðir ekki, eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson var að ýja að áðan, að þegar menn væru komnir að því að fara að greiða háa orkuverðið mundu þeir hlaupa út undan sér og snúa sér eitthvað annað. (ÖJ: Menn gera það í Ástralíu.) (Gripið fram í.) Þannig höfum við Íslendingar ekki samið og þannig munum við ekki semja. Inn á það kem ég örlítið síðar.

Aðalatriðið er að menn munu semja um meðalverð á öllum samningstímanum sem er 25 ár og það orkuverð mun skila sér verðtryggt í heild sinni til fyrirtækisins þegar upp er staðið. Inni í þessum tölum er líka orkuverð sem menn sömdu um fyrir löngu eins og tiltölulega mjög lágt orkuverð til járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga sem var í tíð þessarar ríkisstjórnar hækkað allverulega. Tiltölulega lágt orkuverð var líka til Ísals (KolH: Hversu lágt?) og þegar gengið var til þess verks að ná samningum um stækkun álversins í Straumsvík voru gerðir nýir samningar sem hækkuðu raforkuverðið stórlega og eru ekki nema að litlu leyti enn þá farnir að skila sér inn í tekjur Landsvirkjunar.

Í þriðja lagi verða menn líka að hafa það í huga að þessi raforka og það orkuverð sem menn eru þarna að bera saman er að koma frá virkjunum sem eru orðnar mjög gamlar, afskrifaðar ef menn geta talað um afskriftir í þeim efnum. Ég kem aðeins inn á það hér á eftir að menn eiga ekki að tala um afskriftir og afskriftatíma í þeim efnum heldur hver sé raunverulegur rekstrarkostnaður viðkomandi virkjunar á ári. Hins vegar liggur fyrir að lán hvíla ekki lengur á þessum virkjunum nema að litlum hluta til þannig að orkukostnaður á einingu frá þessum virkjunum er tiltölulega lágur orðinn í samanburði við nýja virkjun. Þetta eru ástæðurnar fyrir því þegar á þetta er horft. Reyndar er eitt atriði enn sem ég má ekki gleyma, þ.e. af því að við erum farnir að tengja raforkuverið mjög verulega álverði á heimsmarkaði eða markaði í London, þá hefur það líka áhrif á orkuverðið eins og það er skráð í ársreikningi fyrirtækisins á hverjum tíma fyrir sig þegar það er lágt en það skilar sér síðar þegar verðið er hærra og hvort sem það verður hærra eða ekki vegna þess að þá munu menn greiða það upp á síðari hluta samningstímans.

Menn þurfa ekki að deila um rekstrarkostnaðinn. Hann er tiltölulega skýr og ekki bara hér á landi heldur almennt í vatnsaflsvirkjunum og er mjög þekktur. Það er föst tala á ári sem ég tel að eigi að nota í útreikningum, fasta tölu á ári í rekstrarkostnaði hvort sem sá rekstrarkostnaður fellur til á því ári eða ekki. (ÖJ: Hver er hann?) Hann er vitaður fyrir. Það má lesa það út úr reikningum Landsvirkjunar. (ÖJ: Eitt og hálft prósent?) Ég er ekki með þá tölu nákvæmlega fyrir framan mig, hv. þm. (ÖJ: Eitt og hálft prósent.) En það má lesa og ég efast ekkert um það. Hv. þm. þarf ekki að spyrja mig að því (ÖJ: Nei.) í ræðustóli ef hann veit töluna. (ÖJ: Já, hún lægri sem við notuðum í okkar ...) Aðalatriðið er að sá kostnaður á að falla til á hverju ári og reiknað er með því um ótakmarkaðan tíma á meðan slík virkjun er í gangi. Endingartíma eða afskriftatíma er ekki hægt að tala um. Ég skal taka dæmi.

Er það ekki svo að hús Landsbankans í Austurstræti, sem er yfir 100 ára gamalt, er ekkert að skila Landsbankanum síðri tekjum í dag, kannski miklu meiri en það skilaði Landsbankanum fyrir 105 árum? Hefðu menn þá átt að segja: ,,Eftir 20, 30, 40 eða 50 ár er þetta húsnæði sem Landsbankinn er í og skapar tekjur fyrir Landsbankann afskrifað og við reiknum ekki með því lengur``? Það er ekki hægt vegna þess að Landsbankinn --- ég tek hann sem dæmi --- hefur árlegan rekstrarkostnað af því fyrirtæki, af þessu húsi og það er þannig, með tekjustreyminu, sem menn eiga að reikna út arðsemina en binda sig ekki við endingartíma í þessu tilfelli. Ég gæti tekið mörg önnur dæmi af slíku.

Ávöxtunarkrafan er líka eitt sem menn hafa deilt um í þessu, þ.e. hversu hátt hlutfall á eigið fé að vera? Þar hafa hagfræðingarnir nefnt 30% af því að Landsvirkjun er með 30% eigið fé. En eigið fé í öllum vatnsaflsvirkjunum í heiminum, hvar sem menn horfa á það, er miklu lægra og þar af leiðandi þegar þetta dæmi er reiknað skekkir það myndina alveg stórkostlega. Menn gera lægri kröfur. (ÖJ: En arðsemishlutfallið er hið sama þegar ...) Nú vonast ég til, herra forseti, að hv. þm. fái annað tækifæri. Nei, hv. þm. er því miður búinn að nota allan sinn ræðutíma og á bara eftir andsvör þannig að ég skil að hv. þm. vilji koma mörgu að við umræðuna þegar sígur á seinni hlutann.

Aðalatriðið er þetta: Menn hafa notað lægra eiginfjárhlutfall í þeim samningum sem þeir hafa gert og þar höfum við reynslu. Í fyrsta lagi höfum við reynslu af samningum hér við stækkun járnblendifélagsins. Við vorum með lægra eiginfjárhlutfall. Við vorum líka með lægra eiginfjárhlutfall í þeim samningum sem við gerðum við Norðurál. Því er ekki rétt að miða við þessi 30%. Þannig má auðvitað lengi halda áfram.

En það merkilega í þessu öllu saman er að fjöldinn allur af hagfræðingum, eins og komið hefur fram í umræðunni, hefur verið að leggja mat á þessa hluti með því að gefa sér mismunandi forsendur en sá sem ég tel að hafi komist næst í þessum útreikningum öllum saman er einmitt ekki hagfræðingur. Það er hv. þm. Ögmundur Jónasson þannig að með sanni má segja að hann sé ekkert lakari hagfræðingur en þeir mætu menn sem hér hafa verið dregnir til vitnis, m.a. af hv. þm. Ögmundi Jónassyni og fleirum sem hafa farið í þessa umræðu. (Gripið fram í: Er þetta þá ekki vonlaust?) Alls ekki. Ég er ekki að segja að útreikningar hv. þm. Ögmundar Jónassonar séu alveg hárréttir, síður en svo. Það eru meginvillur í þeim. En hv. þm. er þó nær sannleikanum en nokkur af þeim hagfræðingum sem hefur verið vitnað í við umræðuna. Ég held að við getum orðið sammála um að kannski sé bara meira mark takandi á hv. þm. Ögmundi Jónassyni í þessari umræðu hér en öllum þessum útreikningum sem byggðir eru á einhverjum tölum sem menn gefa sér algerlega út í loftið og að hann gæti verið reiknimeistari fyrir þetta reikniverk allt saman og að meira mark sé takandi á honum en þeim hagfræðingum sem hafa gefið sig fram við umræðuna. (ÖJ: En hann segir að þetta sé glapræði.) Hv. þm. Ögmundur Jónasson? (ÖJ: Já.) Það er ekki hægt að búast við öðru en hann segði það því það er allt saman glapræði sem ríkisstjórnin er með hversu gott sem málið er.

Meginatriðið er þetta: Samningar verða ekki gerðir --- það hef ég og fleiri ráðherrar undirstrikað margoft úr þessum ræðustól og það hefur margoft verið undirstrikað af Landsvirkjun --- samningar verða ekki gerðir nema þeir skili Landsvirkjun 5--6% arði. Af hverju ekki? Jú, eigendur fyrirtækisins hafa mótað Landsvirkjun þá stefnu að enginn slíkur samningur skuli gerður nema hann skili 5--6% arði til þess að hægt sé að tryggja að lækka megi orkuverð til landsmanna að raunvirði um 2--3% á hverju einasta ári, eða um 20--30% á fyrsta áratug næstu aldar. Þetta er markmiðið. Nú vonast ég til að hv. þm. geti orðið sæmilega sáttur og treysti því að þetta verði ekki gert nema það markmið náist.

En það sem mestu ræður um þetta er hvaða orkuverð menn munu semja um. Meðan ekki er ákveðið hvert orkuverðið verður getur hvorki hv. þm. Ögmundur Jónasson, sem er mikill reiknimeistari, né aðrir hagfræðingar gefið sér neinar tekjur í þessu og reiknað síðan út dæmi þar sem menn eru með allar breyturnar kolvitlausar. Markmiðið er þetta og því ætla menn að ná.

Í fjórða lagi hafa margir hverjir komið mjög inn á stærð álversins og tengsl þess við þær virkjanir sem menn ætla að ráðast í. En áður en ég kem inn á það ætla ég að svara einni beinni spurningu hv. þm. Ögmundar Jónassonar frá síðustu ræðu hans þar sem hv. þm. spyr: ,,Verður ráðist í framkvæmdir, byggingu Fljótsdalsvirkjunar, án þess að búið sé að ganga frá samningum?`` Ég segi nei. Menn hafa slæma reynslu af því að ráðast í slíkar framkvæmdir ef samningar hafa ekki verið frágengnir. En til eru núna samningar þar sem hægt er að tryggja algjört skaðleysi og þá gerðum við þegar við fórum af stað með stækkunina eða fimmta áfanga Kvíslárveitna, stækkun Blöndulóns. Þá voru samningar ekki undirritaðir en algjörlega tilbúnir og aðilar búnir að ganga frá samkomulagi um að þetta mundi ganga eftir. Allir meginþættir málsins voru frágengnir. Þá réðst Landsvirkjun í framkvæmdir. Það gerðist með þeim hætti að aðilinn sem var að byggja álverið setti tryggingar fyrir hverri einustu krónu sem Landsvirkjun lagði í kostnað við við orkuframkvæmdirnar. Með öðrum orðum, hefði viðkomandi aðili farið út úr samningunum hefði það þýtt að Landsvirkjun hefði engan skaða borið vegna þess að allar þær framkvæmdir og allt sem Landsvirkjun hafði lagt í kostnað við að undirbúa það að fara af stað með virkjunarframkvæmdirnar var að fullu greitt af framkvæmdaraðila álversins. Þannig tel ég að við eigum líka að ganga fram í þessu máli. Ég tel óhætt að það sé gert.

[15:00]

Þetta jafngildir því að menn fari ekki af stað með framkvæmdirnar fyrr en samningar eru frágengnir eða trygging er fyrir því að Landsvirkjun verði ekki fyrir neinum skaða eins og Landsvirkjun varð fyrir varðandi Blönduvirkjun.

Hér tala menn annars vegar um 120 þús. tonnin og hins vegar um 480 þús. tonnin. Það er alveg skýrt í Hallormsstaðaryfirlýsingunni að menn stefna í framtíðinni að byggingu 480 þús. tonna álvers, taka það í áföngum. Áfangaskiptingingin er ekkert ákveðin. Menn ætla þó að taka einn áfanga sem er 120 þús. tonnin og til þess þurfa menn Fljótsdalsvirkjun og aðra virkjunarkosti sem gætu verið Bjarnarflag eða stækkun Kröfluvirkjunar. Það eru hlutir sem verða líka skoðaðir þannig að menn hafa ekki tekið ákvörðun um það. En það er tiltölulega miklu styttri byggingartími á gufuaflsvirkjun heldur en vatnsaflsvirkjun þannig að menn þurfa í sjálfu sér ekki að taka ákvörðun um það strax.

Aðrir virkjunarkostir hafa ekki verið ákveðnir. Af hverju ekki? Jú, vegna þess að nú stendur yfir vinna sú sem ríkisstjórnin setti af stað við rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma til langs tíma. Um þetta er öllum samningsaðilum fullkunnugt. Sú vinna byggir á því að meta alla virkjunarkosti, þar á meðal Kárahnúka og aðra virkjunarkosti sem uppi eru. Sem betur fer erum við mjög snemma á ferðinni í þessum efnum. Við þessa umræðu hafa menn margoft sagt hversu Norðmenn eru góð fyrirmynd í þeim efnum að hafa farið af stað með slíka rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma til langs tíma. Hvenær fóru Norðmenn af stað? Þeir fóru af stað þegar þeir voru búnir að nýta 67% af öllum sínum orkukostum. Við erum miklu framsýnni. Við erum að fara af stað þegar við erum búin að nýta á bilinu 12--15%. Við erum, að við höfum talið, með 50 teravattstundir í nýtanlegu vatnsafli og jarðvarma á Íslandi. Vel kann að vera að umhverfissjónarmið og umhverfismál setji okkur einhverjar skorður í þeim efnum. Ég ætla ekkert að gefa mér í því. Það á að koma út úr þeirri vinnu sem við erum nú að setja af stað. Þetta eru 30 teravattstundir í vatnsafli og 20 í jarðvarma.

Þeir aðilar, og þeir eru til í þessum sal, þeir hv. þm. sem ætla sér að koma í veg fyrir að öll vatnsorkan norðan Vatnajökuls verði nýtt, ætla að slá af a.m.k. 30% af öllu nýtanlegu vatnsafli í landinu. Eru menn tilbúnir til að bera ábyrgð á því? Ég er ekki tilbúinn til þess, a.m.k. ekki fyrr en ég sé hvað kemur út úr þeirri rammaáætlun sem núna er í undirbúningi af hálfu ríkisstjórnarinnar. En ég heyri það á einstökum hv. þm. að þeir eru tilbúnir í það alveg burt séð frá því hvað út úr þeirri rammaáætlun kemur.

Til eru fleiri kostir. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir minntist á vindorkuna sem væri stórkostlegt tækifæri sem við hefðum. Ég held að það sé rétt. Íslenskir hugvitsmenn eru að verða fremstir í heiminum á því sviði. Nýstofnað er hér fyrirtæki sem heitir Vindorka. En það get ég sagt hv. þm. að það fyrirtæki er fyrst og fremst til orðið fyrir aðstoð iðnrn. og verkefnis sem þar var í gangi sem hét átak til atvinnusköpunar. (Gripið fram í: Heyr. Það er gott.) Þetta er eitt af mjög mörgum verkefnum á því sviði sem menn hafa verið að berjast fyrir að koma upp. Hins vegar er ég sannfærður um að vindorkan kemur aldrei hjá okkur í staðinn fyrir vatnsaflið eða jarðvarmann.

Þá kem ég að þeim þætti sem snýr að samningsstöðu okkar í málinu. Það er ágætt að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gengur í salinn (SJS: Það er nú líkast til.) vegna þess að enginn hafði jafnmörg orð um það hversu mikið við hefðum veikt samningsstöðu okkar í þessu máli. Af orðum hv. þm. mátti skilja að þar færi þrautreyndasti samningamaður á Íslandi og að aldrei hefðu nokkurn tíma verið gerðir samningar um nokkurn skapaðan hlut sem máli skipti öðruvísi en að sá hv. þm. hefði komið þar að. (Gripið fram í: Ekki ljúga.) Þessi hv. þm., Steingrímur J. Sigfússon, sat í ríkisstjórn frá 1988--1991. Allan þann tíma voru samráðherrar hans í þeirri ríkisstjórn og að einhverju leyti hv. þm. sjálfur sem ráðherra að reyna að ná samningum um byggingu orkufreks iðnaðar á Íslandi. Ég veit að hv. þm. hafði ákveðna sérstöðu í málinu. Sú sérstaða var mjög undirstrikuð hér í yfirlýsingu eða blaðaviðtali sem hv. þm. sendi frá sér á þeim tíma þar sem hv. þm. lagði höfuðáherslu á að byggt yrði álver á Reyðarfirði, annað kæmi ekki til greina. Það kæmi ekki til greina að byggja það á suðvesturhorni landsins. En reynslan er sú að þrátt fyrir að ríkisstjórnin væri með þennan þrautreynda samningamann innan borðs, þá tókust ekki samningar, allan tímann. Og ef við lítum á hvaða samningar voru gerðir í tíð þessarar ríkisstjórnar, þá kom hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon að einum slíkum samningi. Það var búvörusamningur, sennilega sá samningur sem lagði grunninn að hruni í sauðfjárræktinni. Það eru samningarnir sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur komið að og finnst þó alveg sjálfsagt að koma í þennan ræðustól og setja sig í þær stellingar að bara enginn hefði neitt vit á samningum nema sá hv. þm. Það er bara ekki svo. Menn eiga aðeins að líta til baka og fara yfir ferilinn.

Það sem hefur hins vegar gerst er að í tíð þessarar ríkisstjórnar og þeirrar fyrri sem starfaði frá 1995 til þessa dags, hafa verið gerðir stærri og mikilvægari orkusamningar og samningar um uppbyggingu stóriðju á Íslandi heldur en nokkru sinni fyrr á jafnskömmum tíma í tíð nokkurrar ríkisstjórnar. Það eru samningar sem hafa lagt grunninn að því að okkur muni takast að lækka raforkuverð á Íslandi um 20--30% á fyrsta áratug næstu aldar. Gömlum samningum er breytt og verðið hækkað sem skilar sér núna og mun skila sér í lægra orkuverði til landsmanna. Þetta eru samningarnir um stækkun Ísals, byggingu álvers á Grundartanga, Norðurál og stækkun Járnblendifélagsins. Aukin umsvif í íslenskum þjóðarbúskap verða beinlínis rakin til þessara samninga, þ.e. að við komumst út úr þeirri kreppu sem við bjuggum við á árunum 1991--1995. Einn þriðja af efnahagsuppsveiflunni á þessum tíma má beinlínis rekja til þess árangurs sem náðist af þessum samningum. Það er sjálfsagt að þiggja góð ráð í því hvernig standa skuli að samningum og ég þakka hv. þm. fyrir þau. Við munum vafalítið taka tillit til orða hans.

Þá kem ég að orkuverðinu sem menn hafa gert mikið að umtalsefni, annars vegar orkuverði til stóriðju og hins vegar til almenningsveitnanna. Heildarorkusala Landsvirkjunar til stóriðjunnar er 3.470 gígavattstundir. Heildarorkusala til okkar stærstu og mikilvægustu atvinnugreinar á Íslandi, sem er fiskiðnaðurinn, er 274 gígavattstundir. Á þessu er nokkur munur. Það er tífalt meiri sala til orkufreks iðnaðar en til langmikilvægustu atvinnugreinar okkar. Er þá nokkuð skrýtið að aðrir samningar skuli gilda þar en á almenna markaðnum? Og af hverju gilda aðrir samningar? Jú, í fyrsta lagi vegna þess að menn gera langtímasamninga til orkufreks iðnaðar, til 25 ára með endurskoðunarákvæði eftir 25 árin. Það því er ekki rétt sem fram kom hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni að þegar lága tímabilið væri úti og menn ætluðu að fara að hækka raforkuðverið þá mundu menn hlaupa í burtu. Þannig samninga höfum við aldrei gert. Við höfum gert samninga til 25 ára með jafnaðarorkuverði sem getur komið inn mismunandi hátt eftir því m.a. hvernig álverð sveiflast og eftir því á hvaða tíma peningarnir koma inn. (ÖJ: Það gerðu Ástralíumenn líka. En þeir eru að fara. Álverin eru að fara.) Nú erum við ekki í Ástralíu, hv. þm. Við erum á norðurhjara veraldar. Við erum á Íslandi. (ÖJ: Álverin eru að fara.) Það er bara misskilningur. Við erum á norðurhjara veraldar, á Íslandi, og við erum að semja á Íslandi en ekki í Ástralíu og það verður hv. þm. að hafa í huga.

Þetta þýðir að með 25 ára samning sem svona er gerður, alveg burt séð frá því hvort viðkomandi fyrirtæki fari á hausinn eða ekki, þá fáum við greitt fyrir raforkuna vegna þess að tryggingar eru fyrir því frá erlendum lánastofnunum að raforkan sé greidd alveg burt séð frá því hvort menn nota orkuna eða ekki eða hvort að þau fyrirtæki sem gera slíkan samning við okkur verða gjaldþrota eða ekki. Landsvirkjun selur með öðrum orðum tiltekið magn af raforku í 25 ár, fær það allt saman greitt og er með bankatryggingu fyrir því að það verði greitt þannig að það skiptir engu máli hvort fyrirtækið notar það eða notar það ekki. Við erum með tryggingar fyrir greiðslunum. Þetta erum við ekki með gagnvart íslensku atvinnulífi. Þetta erum við ekki með gagnvart almenningi. Þetta eru forsendurnar fyrir því að menn geta samið um lágt orkuverð, þ.e. mikil orka, tryggar greiðslur og afhendingaröryggið skiptir engu máli.

Ég vonast til þess að hv. þm. Ögmundur Jónasson sem talaði mikið um það áðan að hann hefði setið ráðstefnu Verkfræðingafélags Íslands þar sem Egill B. Hreinsson prófessor hélt ágæta ræðu. Megininntak ræðu hans, þessa prófessors frá Háskóla Íslands, var --- og af því að hv. þm. brosir, þá veit ég að við þekkjum báðir þennan prófessor frá háskólanum vegna þess að hann leiddi okkur til góðrar niðurstöðu í rafmagnsöryggismálunum á sínum tíma. (ÖJ: Mjög umdeildrar.) Ja, af minni hálfu (Gripið fram í.) var hún ekkert umdeild. Þarna snerti ég við viðkvæman streng þannig að við skulum ekki rifja það upp.

(Forseti (ÍGP): Forseti minnir hv. þingmenn á að einn ræðumaður talar í senn.)

Við skulum ekki fara að rifja það upp hér, en niðurstaða Egils B. Hreinssonar prófessors er sú að það hefur komið íslenskum neytendum til góða að blanda saman stóriðjusamningunum og sölunni til almenna markaðarins. Þetta eru bestu rökin fyrir því að mínu viti. Þau færði hann fram í ágætri ræðu og ætla ég ekki að fara yfir þau frekar. Þetta er að skila fólki og fyrirtækjum í landinu lægra orkuverði fyrir bragðið.

Hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir spurði í gær hvort nokkurt plan B væri til, hvað taki við ef Norsk Hydro hættir. Við stöndum við yfirlýsinguna frá Hallormsstað. Við látum á hana reyna, þ.e. hvort við náum samningum fyrir 1. júní eða ekki. Við erum ekki bundin af þessu. Við erum í samningum við einn aðila en hins vegar liggur fyrir að fleiri aðilar hafa sýnt áhuga á að taka þátt í þessu verkefni, m.a. fyrirtæki sem við þekkjum ágætlega sem er Columbia Ventures Corporation eða Norðurál á Grundartanga. Það hefur líka sýnt þessu áhuga og bíður eftir því hvað muni þarna gerast og er tilbúið til samningaviðræðna án þess að þaðan séu nokkrar skuldbindingar um það hvað út úr því muni koma. Ef til vill sættir hv. þm. sig við það sem plan B. Í sjálfu sér er ekkert skipulagt af okkar hálfu með þessum hætti en fleiri aðilar sem ekki hafa verið áður, eru tilbúnir til þess að skoða þessa kosti.

Herra forseti. Það eru nokkur atriði enn sem ég skal hlaupa hratt yfir. Hvað er fram undan? Það er eins og það sé ekkert vandamál að hlaupa frá þessu öllu saman því að það hér taki nóg við, t.d. þensla í hagkerfinu sem menn verða að passa. Það er að vissu leyti alveg rétt. Menn verða að fara gætilega í þeim efnum. En það sem er að gerast er að nú dregur mjög hratt og mjög mikið úr fjárfestingu í orkufrekum iðnaði. Fjárfesting í orkufrekum iðnaði mun fara úr 24,7 milljörðum kr. árið 1998 niður í 200 millj. kr. árið 2002 ef ekkert nýtt kemur til. Þetta þýðir raunverulega að hætta er á að aftur skapist svipað ástand og skapaðist á árunum 1991--1995, þ.e. atvinnuleysi, kjaraskerðing, skattahækkanir, fjárlagahalli og stórfelld skuldasöfnun. Það er ástand sem við viljum ekki lenda í aftur. Og besta vörnin í því er að halda áfram framkvæmdum og uppbyggingu orkufreks iðnaðar.

Hvað hefur breyst? Menn hafa ekki mikið fyrir sér og segja: Það er allt breytt síðan 1991 þegar allir voru tilbúnir til að fara af stað með þessar framkvæmdir. Það hefur ekki allt breyst. Það er bara eitt sem hefur breyst. Varðandi Fljótsdalsvirkjun erum við núna að gæta enn frekar að umgengni við náttúruna en nokkru sinni fyrr. Minna gróðurlendi fer undir vatn og það eru engir skurðir sem menn ætla að grafa núna yfir þvera og endilanga Fljótsdalsheiði. Byggðaáhrifin eru ekki síður mikilvæg nú en þau voru fyrir átta árum. Þjóðhagslegu áhrifin eru okkur ekki síður mikilvæg nú en þau voru fyrir átta árum. Viðhorf almennings hefur hins vegar breyst. Það gæti hins vegar verið skyndiviðhorfsbreyting vegna þess að nú leikur allt í lyndi. Við búum við einna best lífskjör í heimi. (ÖJ: Sérstaklega öryrkjar.) Almennt gerum við það. Það kann vel að vera, hv. þm., að menn þurfi að gæta að einstökum hópum í samfélaginu. Ég ætla ekkert að útiloka það. En við höfum á fjórum árum lyft okkur úr því að vera í 11. sæti þjóða heims yfir þær þjóðir sem skapa þegnum sínum bestu lífsgæðin upp í 5. sæti. Við erum á hraðri uppleið yfir þær þjóðir þar sem lífskjörin eru best í heiminum. Það leikur allt í lyndi. En það er ekki víst að þetta sé trygging sem við höfum alla tíð fyrir því að svo verði. Það kann nefnilega að vera þegar viðhorfin breytast og atvinnuleysi fer aftur að gera vart við sig, að þá spyrji menn: ,,Hvað voru stjórnmálamenn á þessum tíma, einmitt við þessar umræður, að hugsa?`` Þá hugsa ég að einhverjir segi: ,,Það var allt saman ríkisstjórninni að kenna hvernig þetta fór.`` Það er ekki hlutverk stjórnmálaflokka að hlaupast alltaf frá vandanum, sveigja af leið, hlaupa þar í skjól sem menn telja að það sé mest. Það getur hins vegar verið hlutverk stjórnmálaflokka að berjast fyrir því sem menn hafa sannfæringu fyrir (Gripið fram í: Þetta er rétt.) og það hefur Framsfl. í þessu tilfelli gert. Hann trúir því að þær framkvæmdir sem þarna er um að ræða leggi grunn að varanlegum lífskjarabótum fyrir Íslendinga alla og það er á þeirri forsendu sem við rekum þetta mál áfram. (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Heyr, heyr.)