Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 15:21:34 (3636)

1999-12-21 15:21:34# 125. lþ. 51.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[15:21]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hér hafa verið gefnar mjög mikilvægar yfirlýsingar af hálfu hæstv. iðnrh. Hann segir: Ekki verða hafnar neinar framkvæmdir í Fljótsdal fyrr en gengið hefur verið frá væntanlegum samningum. Nú spyr ég hæstv. ráðherra: Er hann reiðubúinn að ganga skrefinu lengra og heita því að þeir samningar sem kunna að verða gerðir verði teknir fyrir á Alþingi? Er hæstv. ráðherra tilbúinn að heita okkur því?

Síðan vil ég segja þetta: Hæstv. ráðherra hefur gefið margar skuldbindandi yfirlýsingar. Ekki verður gengið frá samningum nema arðsemi upp á a.m.k. 5--6% fyrir Landsvirkjun verði tryggð, að vegna þessara samninga verði unnt að lækka raforkuverð til landsmanna um 20--30%, (Forseti hringir.) ekki verði gengið frá samningum nema þetta gerist áður. Þetta þýðir að mínum dómi rafmagnsverð upp á 20 mill.

(Forseti (ÍGP): Ég minni hv. þingmenn á að virða tímamörk.)