Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 15:28:08 (3641)

1999-12-21 15:28:08# 125. lþ. 51.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[15:28]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek alveg undir það með hv. þm. að það er mjög mikilvægt þegar menn standa í alþjóðasamningum eins og þessum að menn gæti vel að í öllum efnum og það hefur verið gert. Ég fór yfir það áðan í ræðu minni að þeir samningar sem við höfum verið að gera á undanförnum árum hafi skilað íslensku þjóðarbúi ótrúlegum ávinningi, ekki bara beint inn í þjóðarbúið heldur líka inn í orkufyrirtæki eins og Landsvirkjun sem skapar þau tækifæri sem ég lýsti áðan um lækkun raforkuverðs til almennings í upphafi nýrrar aldar.

Mér fannst hv. þm., og ég bið hann afsökunar á því ef það hefur ekki verið meiningin, vera hálfgert að setja sig á háan hest í fyrri ræðu sinni og vanda um fyrir mönnum hvernig staðið væri að. Þá kom upp í huga minn hvort það gæti verið að hv. þm. hefði það mikla reynslu af samningum eins og þessum að fullt mark væri takandi á honum. Ég tek hins vegar fullt mark á öllum viðvörunarorðum í þessum efnum. En reynsla hv. þm. er ekki mikil og það var í hana sem ég vitnaði.