Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 15:30:37 (3643)

1999-12-21 15:30:37# 125. lþ. 51.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[15:30]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst miður og mér finnst það hafa komið fram við umræðuna að menn eru að reyna að rugla fólk í ríminu varðandi þessa orkusölusamninga. Verðið í upphafi skiptir engu höfuðmáli. Það sem skiptir máli er tengingin við álverðið sem menn hafa yfirleitt fest í þessum samningum og svo hitt að þó svo verðið sé lágt í upphafi eru það skuldbindingar inn í framtíðina sem menn munu greiða. Það skiptir höfuðmáli og þarna tel ég vera skynsamlega að verki staðið í samningum vegna þess að fjárfestingin hjá þeim fyrirtækjum sem ráðast í þetta er yfirleitt mest í upphafi.

En hv. þm. verður að virða það að örlítið má minnast á fortíðina. Ég veit að hún er honum sár af mörgum mörgum ástæðum, í hvaða flokki maðurinn hefur verið og þar fram eftir götunum. Vinna hans og seta í ríkisstjórn á sínum tíma þegar þessi mál voru öll til umræðu eru viðkvæm mál en auðvitað er búvörusamningurinn það viðkvæmasta af öllu saman.