Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 15:32:45 (3645)

1999-12-21 15:32:45# 125. lþ. 51.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[15:32]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Bara til að svara spurningunni beint, þá skiptir það ekki höfuðmáli. Aðalatriðið er að fjárfesting verði til sem leggi grunn að varanlegum útflutningsverðmætum þjóðarinnar, sem leggi grunn að varanlegum lífskjarabótum fyrir Íslendinga alla. Hvernig getur það gerst? Það getur aðeins gerst þannig að um hagvöxt í efnahagslífinu verði að ræða og sá hagvöxtur byggist á fjárfestingu.

Það var ekki falleg mynd sem ég dró upp, það er alveg hárrétt. En það er myndin sem blasti við íslensku þjóðinni frá 1991--1995 og það var fyrir tilkomu þeirra samninga á sviði orkufreks iðnaðar að við komust út úr þeirri kreppu. Það er mikill misskilningur ef menn halda að þetta sé ævilöng trygging fyrir því að slíkt ástand geti aldrei skapast aftur. Það er styttra í það en menn halda ef ekki verður af áframhaldandi framkvæmdum á þessu sviði, því miður.