Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 15:34:31 (3647)

1999-12-21 15:34:31# 125. lþ. 51.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[15:34]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt. Það er ekki hægt að eyða sömu krónunni tvisvar enda er það óskaplegur misskilningur ef hv. þm. heldur að peningar sem menn setja í fjárfestingu sé eyðsla. Hefur hv. þm. heyrt talað um slagorðið ,,Gefum sparnað í jólagjöf``? Sparnaður leggur grunn að fjárfestingunni í landinu og þeir peningar sem við setjum í fjárfestingu eru peningar sem munu skila okkur meiri peningum inn í framtíðina vegna þess að fjárfestingin leggur grunn í þessu efni að auknum útflutningstekjum þjóðarinnar og auknum hagvexti í landinu sem skilar okkur auknum lífskjarabótum. Það skiptir ekki höfuðmáli hvort peningar eru innlendir eða erlendir.

Ég get hins vegar tekið undir með hv. þm. af því að við þurfum á aukinni erlendri fjárfestingu inn í landið að halda. Við erum því miður ekki með meira en 1% erlenda fjárfestingu af landsframleiðslu sem er mjög lágt ef við berum okkur saman við aðrar þjóðir. Þess vegna vildi ég frekar að það kæmi meira inn en það þarf ekki allt saman að koma inn á sviði orkufreks iðnaðar. Það gæti komið inn á öðrum sviðum líka, við þurfum á því að halda en það skiptir ekki höfuðmáli varðandi vöxtinn í efnahagslífinu hvort þetta eru innlendir eða erlendir peningar.