Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 15:37:03 (3649)

1999-12-21 15:37:03# 125. lþ. 51.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[15:37]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað er alveg hárrétt að menn hafa misjafnlega mikla trú á ríkisstjórninni og ekkert er við því að segja. Það fer dálítið eftir því hvort menn eru í stjórn eða stjórnarandstöðu.

Varðandi spurningu hv. þm. er reynslan sú, og ég ítreka það sem ég sagði hér áðan, að komi til þess að menn geri slíka samninga um byggingu orkufreks iðnaðar á Austurlandi, þurfum við að öllum líkindum að gera einhvers konar fjárfestingarsamning sem snýr að skattamálum. Við þurfum að gera einhvers konar samning um lóðamál. Við þurfum að gera einhvers konar samninga um hugsanlega byggingu álversins sem snýr beinlínis að byggingu álversins eins og hafnargerð og öðru slíku.

Reynslan er sú að allir slíkir samningar hafa komið til umfjöllunar Alþingis og það veit ég að hv. þm. man bæði frá Norðuráli og eins þegar við vorum að breyta samningunum um byggingu járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga.

Samningurinn um orkusöluna hefur ekki og þarf ekki að koma til kasta Alþingis vegna þess að Landsvirkjun er sjálfstætt fyrirtæki sem er 50% í eigu ríkisins og í eigu annarra aðila líka þannig að Landsvirkjun ber ábyrgð á þeim samningi. (Forseti hringir.) En sá samningur var í trúnaði til umfjöllunar í iðnn. þingsins. Þar á hann að vera.