Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 15:39:21 (3651)

1999-12-21 15:39:21# 125. lþ. 51.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[15:39]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ég hafi svarað þessu skýrt. Orkusölusamningurinn kemur ekki til umfjöllunar Alþingis. Hann kemur ekki til umfjöllunar í borgarstjórn Reykjavíkur og hann kemur ekki til umfjöllunar í bæjarstjórn Akureyrar. Þetta eru eigendurnir að Landsvirkjun. Landsvirkjun er sjálfstætt fyrirtæki sem ber ábyrgð á gerð samningsins á grundvelli þeirra áherslna og þeirrar stefnumótunar sem eigendur fyrirtækisins hafa lagt upp með gagnvart fyrirtækinu.

Ég hef sagt og ítreka það að ég tel eðlilegt að iðnn. Alþingis, sem mun vonandi fá þetta mál til umfjöllunar þegar það er að fullu frágengið, verði greint frá því hvað er í orkusölusamningnum eins og gert var bæði við járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga og byggingu álversins á Grundartanga. Eins stækkun álverksmiðjunnar hjá Ísal í Straumsvík. Þar var farið yfir alla þá útreikninga sem lágu að baki orkuverðinu og líka útreikninga erlendu aðilanna yfir því hver áhættan væri sem Landsvirkjun væri að taka.