Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 15:49:23 (3653)

1999-12-21 15:49:23# 125. lþ. 51.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[15:49]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér liggur við að segja að þetta hafi verið önnur skipulagstugga eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson kallaði fyrri ræðu hæstv. umhvrh. við þetta mál. Það er ekki hægt að ætlast til þess að fólk hendi reiður á því í þessum sal hvað um er að ræða þegar málin eru flutt á þessum nótum þar sem stöðugt er vitnað til laga og lagagreina og ekkert er gert til að einfalda þetta flókna mál.

Hæstv. umhvrh. segir réttilega að hér sé um flókið mál að ræða. Það er svo flókið að um það stendur mikill styr og sá möguleiki er fyrir hendi að ekki verði hægt að greiða úr þessari flækju nema fyrir dómstólum, herra forseti. Það eru miklar líkur á því að þar þurfi þetta mál að enda. En ég vil spyrja hæstv. umhvrh.: Með hvaða rökum segir umhvrn. að ekki þurfi byggingarleyfi fyrir stöðvarhúsi sem lýtur öllum lögmálum húsbyggingar? Það á að hýsa fólk að störfum. Alls kyns staðla þarf að uppfylla í öllu því sem heitir rými þar sem fólk á að haldast innan veggja og sinna sínum störfum. Það þarf að gæta að öryggiskröfum og guð veit hverju. Því spyr ég: Með hvaða rökum segir umhvrn. að ekki þurfi byggingarleyfi fyrir stöðvarhúsinu? (Gripið fram í.) Já, byggingarleyfi fyrir stöðvarhúsinu. Ég spyr líka og vil fá skýrt svar: Á að gera deiliskipulag á svæðinu þar sem stöðvarhúsið er, þ.e. neðra svæðinu í Fljótsdal? Á að gera deiliskipulag þar? Ég spyr sömuleiðis: Á að klára aðalskipulag eða deiliskipulag uppi á hálendinu þar sem virkjanasvæðið er? Samkvæmt mínum skilningi á þessum lögum þarf hvort tveggja, deiliskipulag fyrir neðra svæðið og efra svæðið.

Svo vil ég ítreka það, herra forseti, að það hefur alltaf þurft frekara leyfi fyrir þessari virkjun heldur en leyfi fyrir aðkomugöngum.