Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 15:54:05 (3655)

1999-12-21 15:54:05# 125. lþ. 51.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[15:54]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst þetta hæpin rök því til eru ákveðnir staðlar um allar húsbyggingar sem eiga að hýsa fólk og það er röksemdin sem skipulagsstjóri færir fyrir því að stöðvarhúsið sé byggingarleyfisskylt.

Ég spurði sömuleiðis hæstv. umhvrh. hvort gera ætti deiliskipulag af neðra svæðinu og hvort það ætti að gera deiliskipulag af efra svæðinu. Samkvæmt mínum skilningi laganna þarf það af báðum svæðunum.

Varðandi skjalið sem hæstv. umhvrh. segir réttilega að umhvn. hafi fengið, þá er það hárrétt að það er búið að vera í okkar möppum og það er búið að þaullesa það. Það er hins vegar ekki auðskilið og þetta plagg kom svo seint að það var aldrei til umfjöllunar á fundi hv. umhvn.

En eftir að hafa skoðað þetta plagg mjög vel þá er ljóst að orð standa gegn orði. Túlkun umhvrn. er önnur en túlkun Skipulagsstofnunar á þessum málum í mörgu tilliti og ég vil halda því fram að túlkun skipulagsstjóra sé skýr, opin og auðskiljanleg. Hún kemur líka fram í plöggum sem hv. umhvn. hefur haft til umfjöllunar og ég vil halda því fram að virkjunarleyfið frá 1991 sem allur þessi stóri styr stendur um, sem allt þetta mál er reist á að meira eða minna leyti, hafi aldrei verið að fullu gilt vegna þess að alltaf hafi skort hluta af framkvæmdaleyfunum og það sannar greinargerð hæstv. iðnrh. sem fylgir þessari þáltill. þar sem hann staðfestir á bls. 9 að leyfi frá Fljótsdalshreppi hafi aldrei verið til staðar. Það er ekki til staðar enn. Þetta virkjunarleyfi frá 1991 hefur þar af leiðandi aldrei verið gilt, herra forseti.