Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 15:55:55 (3656)

1999-12-21 15:55:55# 125. lþ. 51.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[15:55]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér er spurt hvort það eigi að deiliskipuleggja gagnvart þessum byggingum og þessari virkjun. Því er til að svara að það er sveitarfélagið sem deiliskipuleggur og ég er ekki neinni stöðu til að svara fyrir sveitarfélagið. En við höfum samt skoðað þetta í umhvrn. og samkvæmt lögum þarf ekki að deiliskipuleggja á virkjunarsvæðinu, þ.e. svæðinu sem var utan sveitarfélaga á sínum tíma. Það þarf ekki að deiliskipuleggja gagnvart stöðvarhúsinu þar sem það er hluti af virkjun. Önnur hús sem tengjast virkjuninni eins og mötuneyti, verkstæði og hugsanlega fleiri hús, þurfa hins vegar byggingarleyfi og þar af leiðandi að byggjast á skipulagi. En sveitarstjórn getur sótt um undanþágu frá skipulagi til að reisa byggingar sem eru byggingarleyfisskyldar, þ.e. leyfi til einstakra framkvæmda, þannig að sveitarfélagið gæti sótt um undanþágu. Þeir gerðu það reyndar fyrir aðkomugöngin og það var afgreitt. En þeir gætu sótt um undanþágu vegna annarra húsa, verkstæðis og mötuleytis, sótt um leyfi til einstakra framkvæmda sem byggist á 3. tölulið ákvæðis til bráðabirgða skipulagslaga. Þau gætu beðið um undanþágu frá skipulagi þar sem ekki er fyrir hendi aðal- eða deiliskipulag.

Samkvæmt upplýsingum frá Skipulagsstofnun þarf hún að gefa umsögn og hún mun að öllum líkindum ekki gefa jákvæða umsögn um slíkt þannig að ef þetta fer í það ferli þyrfti sveitarfélag að deiliskipuleggja gagnvart þessum öðrum húsum sem eru í byggðinni. Það er mál sem ég býst við að komi upp þegar þessi önnur hús svokölluð verða byggð, þ.e. mötuneyti, verkstæði o.fl. Menn munu þá fara í að deiliskipuleggja það svæði.