Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 17:00:19 (3665)

1999-12-21 17:00:19# 125. lþ. 51.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[17:00]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Enn á ný virðist misskilningur hv. þm. Ögmundar Jónassonar leiða hann á villigötur. Ég minnist þess ekki að hafa ráðist harkalega á alla leiðarahöfunda og pistlahöfunda og þáttagerðarmenn í fjölmiðlum landsins. Það er af og frá. Ég setti þetta í það samhengi að þrátt fyrir að alls staðar væri verið að fjalla um þessi mál og sá yfirlýsti tilgangur væri að uppfræða fólk um málið, þá virtist það ekki hafa gengið vel og vitnaði ég þá til niðurstaðna í skoðanakönnunum.

Ég spyr hins vegar hv. þm.: Getur það verið að það sé einmitt tilgangurinn með ýmsu því sem skrifað hefur verið að fjalla ekki um málið þannig að það væri upplýsandi fyrir almenning? Það skyldi þó ekki vera.

Hins vegar vegna spurningar hv. þm. er það að sjálfsögðu ljóst að ýmislegt er til í því sem þarna kemur fram. Það hef ég aldrei efast um. Ég virði svo sannarlega reglur lýðræðisins og ég virði líka rétt meiri hlutans til þess að koma sínum málum fram.