Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 17:14:21 (3669)

1999-12-21 17:14:21# 125. lþ. 51.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KolH
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[17:14]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Nú er þessi umræða senn á enda og það styttist í atkvæðagreiðslu um þáltill. iðnrh. þar sem hann óskar eftir klappi á bakið og hvatningu, hip, hip, húrra frá hv. lýðræðislega kjörnu Alþingi til þess að fá að halda áfram hernaðinum gegn landinu.

Hér hafa verið fluttar ótal ræður í tvo daga við síðari umræðu þessa máls og, herra forseti, þær hafa satt að segja verið afskaplega málefnalegar. Hér hafa þingmenn lagt sig í líma við að kynna sér málið ofan í kjölinn. Þingmenn eru orðnir mjög vel að sér í þeim gögnum sem liggja að baki og hér hefur verið bent á ótalmörg atriði í þessum gögnum sem betur hefðu mátt fara og betur þyrfti að skoða áður en þessari stuðningsyfirlýsingu verður gefið loft undir vængina á hv. Alþingi. En það er ekki hlustað. Það er ekki hlustað á það að allar meginstoðirnar fyrir þáltill. hæstv. iðnrh. eru fallnar um sjálfar sig.

[17:15]

Skýrsla Landsvirkjunar hefur verið metin ónýtt plagg sem þyrfti að vinna frá grunni upp á nýtt, senda þyrfti flestar rannsóknirnar aftur í gegnum ákveðið ferli til að þær geti kallast viðunandi og til að hægt sé að réttlæta þá framkvæmd sem við stöndum frammi fyrir að meta. Skýrslan hefur verið sögð hlutdræg og síðast en ekki síst byggð á allsendis ófullnægjandi og ónógum upplýsingum.

Skýrslan um þjóðhagsleg áhrif álversins hefur verið dregin í efa og það hefur verið dregið fram í dagsljósið að þjóðhagslegar forsendur þessarar framkvæmdar séu vægast sagt afskaplega hæpnar. Þjóðhagslegu forsendurnar eru nefnilega, herra forseti, vitlaust reiknaðar. Ekki hefur ekki gert ráð fyrir fórnarkostnaði. Ekki hefur ekki gert ráð fyrir þeim kostnaði sem þarf að leggja í vegna landsins og þeirra fórna sem íslensk náttúra þarf að lúta og greiða fyrir með sjálfri sér. Í þessu þjóðhagslega dæmi eru ekki allir þættir reiknaðir, herra forseti, og það virðist ekki eiga að gera það því hér hefur verið beint spurningum til hæstv. ráðherra varðandi þetta atriði og það fást engin svör. Það virðist ekki hlustað og enginn vilji er til að fylla upp í þessa mynd.

Þá er komið að athugun á samfélagslegum áhrifum þessa álvers, skýrslu Nýsis sem fylgir þáltill. hæstv. iðnrh. Hún hefur sömuleiðis verið dæmd ómerkt plagg og alla þætti hennar þarf að setja í frekara ferli. Ég vil, virðulegi forseti, nota tækifærið og lesa úr skýrslu sem birt var hér á landi í mars 1983 og fjallaði um staðarval fyrir orkufrekan iðnað. Í skýrslunni, sem var unnin af opinberri nefnd, er fjallað um einhæfa iðnaðarstaði, og ég fullyrði að á Reyðarfirði kemur til með að verða til einhæfur iðnaðarstaður nái áform um 480 þús. tonna álver fram að ganga. Í þessari skýrslu, sem varar við þessum einhæfu iðnaðarstöðum, segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Margir þessara staða eiga nú við margháttuð vandamál að etja í atvinnu- og félagsmálum`` --- og hér er, herra forseti, átt við staði í Noregi t.d. --- ,,og má rekja þau annars vegar til hins öra vaxtar þeirra í upphafi og hins vegar til þess hversu háðir stóriðjuverum þeir eru.`` Síðar í skýrslunni í kaflanum um einhæfa iðnaðarstaði, herra forseti, segir: ,,Margfeldis\-áhrif iðjuvera eru jafnan óveruleg á einhæfum iðnaðarstöðum og takmarkast við nauðsynlegustu þjónustu við fyrirtæki og starfslið þess. Annars vegar hefur annað atvinnulíf að mestu lagst niður þar sem það hefur ekki staðist samkeppnina um vinnuaflið. Hins vegar er reynslan sú að stóriðjuver hafa lamandi áhrif á staðbundið frumkvæði í atvinnulífi á einhæfum iðnaðarstöðum.``

Herra forseti. Þetta er hættan sem blasir við Reyðarfirði. Þetta er hættan sem blasir við Fjarðabyggð og með leyfi forseta kem ég með eina tilvitnun enn í skýrslu staðarvalsnefndar frá 1983 um einhæfa iðnaðarstaði en þar segir: ,,Bæjarfélög og íbúar verða háðir stóriðjuverunum í þeim mæli að ný fyrirtæki treysta sér ekki til að keppa við þau um aðstöðu og vinnuafl. Þannig verka iðjuverin hamlandi á önnur fyrirtæki á sama stað sem getur orðið til þess að viðleitni til að auka á fjölbreytni atvinnulífs ber ekki árangur.``

Að allra síðustu, herra forseti: ,,Staðarvalsnefnd gengur út frá þeirri forsendu að ekki beri að stuðla að myndun einhæfra iðnaðarstaða.``

En hvað erum við að gera hér, herra forseti? Við erum að stuðla að myndun einhæfra iðnaðarstaða austur á landi, og hverjum er greiði gerður með því? Hvers vegna, herra forseti, erum við ekki að skoða aðrar hugmyndir?

Hér var nýverið eftir ræðu hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar talað um hvort menn væru að gera lítið úr einu eða öðru, hvort verið væri að gera lítið úr skoðunum eða hugmyndum Austfirðinga og þeirra sem hafa verið að berjast fyrir þessari virkjun og fyrir þessu álveri. Það er ekki svo, herra forseti. Hér er ekki gert lítið úr skoðunum fólks. Hér er hins vegar búið að kljúfa þjóðina í tvo parta. Hv. þm. Einar Már Sigurðarson gerði að mínu mati lítið úr því fólki sem hefur lagt í það að skrifa undir undirskriftalistana sem hann gerði að umtalsefni í ræðu sinni í gær. (Gripið fram í.) Hann gerði lítið úr því fólki og hann gerði lítið úr þeirri undirskriftasöfnun en ég vil benda á, herra forseti, að á undirskriftalistana hafa nú skrifað yfir 40 þúsund einstkalingar, kannski 44.377. Herra forseti. Ég geri ekki lítið úr þessum einstaklingum, en sú tala sem ég nefni, 44.377, eru atkvæðin sem Samfylkingin fékk í síðustu kosningum. Mér dettur ekki í hug að gera lítið úr því fólki sem stendur á bak við þau og ég geri heldur ekki lítið úr þeim Austfirðingum sem hafa lagt mikið í sölurnar við að berjast fyrir þeirri virkjun og fyrir því álveri sem hér er í farvatninu. Ég held því hins vegar fram, herra forseti, að þetta álver komi ekki til með að verða Austfirðingum til heilla og það hef ég stutt rökum.

Herra forseti. Hér hefur ríkisstjórnin hamast eins og hún hafi átt lífið að leysa við að koma þessari virkjun niður kokið á íslensku þjóðinni. Nákvæmlega sömu aðferðum var beitt á hinu háa Alþingi í fyrra þegar var verið að koma gagnagrunninum þversum niður kokið á þjóðinni. Hér er leikinn sami leikurinn og lýðræðislega kjörið Alþingi er ofbeldi beitt.

Herra forseti. Ekki liggur fyrir svar frá hæstv. iðnrh. um orkuöflun fyrir þetta álver. Ég hef lagt fram fyrirspurn á Alþingi sem hefur ekki fengist svarað og ég hef bent hæstv. forseta á að hæstv. iðnrh. hafi skirrst við að svara hluta af spurningum mínum varðandi orkuöflunina. Hæstv. iðnrh. hefur aldrei svarað því hvar eigi að fá orku til síðari áfanga álversins. Hvar á að fá orkuna fyrir þriðja áfanganum? Á að fá þá orku úr Jökulsá á Fjöllum? Þessari spurningu hefur ekki verið svarað þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Hæstv. iðnrh. hefur heldur ekki svarað spurningunni um það hver sé að gera samninga við Landsvirkjun eða ræða við Landsvirkjun um mögulega orkusölusamninga. Hann segir æ ofan í æ: Væntanlegt hlutafélag sem stofnað verður um rekstur álversins. Í Noral-yfirlýsingunni sem undirrituð var á Hallormsstað 29. júní sl. kemur fram að eftir 10 daga, herra forseti, eigi að liggja fyrir drög að orkusölusamningum. Hæstv. iðnrh. hefur ekki svarað okkur því hvar orkusölusamningarnir eru á vegi staddir og við hverja verið er að ræða í því sambandi. Hverjir eru samningsaðilar Landsvirkjunar? Eigum við ekki að fá að heyra neitt um það í umræðunni, herra forseti? Eigum við að ganga til atkvæða áður en þessum spurningum er svarað?

Herra forseti. Ég vil nefna enn eitt til. Hæstv. iðnrh. hefur sagt að hér sé verið að nota orkuna í fjórðungnum og gerir mikið úr því. Þar með þurfi ekki að leggja háspennulínur yfir allt hálendið þvers og kruss eins og einu sinni hafi staðið til.

En ég spyr, herra forseti. Getur hæstv. iðnrh. fullyrt héðan úr þessum ræðustóli að ekki þurfi að koma til línulagnir yfir hálendi Íslands verði raforkan nýtt í fjórðungnum? Getur hann fullyrt að þegar til stækkunar álversins kemur þurfi ekki að leggja tvöfalda háspennulínu yfir hálendi Íslands? Hæstv. iðnrh. á eftir að svara þessari spurningu. Hvað um öryggismálin? Hvað ef fer að gjósa á Suðurlandsundirlendinu eða á Þjórsár-/Tungnaársvæðinu, þessu ótrygga svæði þar sem öllum virkjununum hefur verið valinn staður hingað til? Getur hæstv. iðnrh. staðfest að jafnvel þó svo við séum með virkjanirnar okkar á Þjórsár-/Tungnaársvæðinu á óöruggu svæði verði ekki lagðar háspennulínur þvert yfir hálendi Íslands til að koma einhverjum hluta af orkunni sem á að afla norðan Vatnajökuls hingað til höfuðborgarsvæðisins? Þeim spurningum þarf að svara, herra forseti, og óeðlilegt er að ýta svo á eftir þessu máli og senda Alþingi inn í umræðu um þetta á síðustu dögum Alþingis þegar allir eru orðnir þreyttir og hverju málinu á fætur öðru hefur verið rutt í gegn á óeðlilegum hraða og það er rekið á eftir okkur með þetta mikla mál sem við hefðum svo sannarlega, herra forseti, getað talað um miklu lengur því að það er svo margt ósagt.

Það er líka ósagt og óhreinsað, þessi aðför að skipulagsstjóra og Skipulagsstofnun ríkisins sem hefur verið ómakleg í hæsta máta svo ekki sé meira sagt. Vegna þess að hér hefur verið ýtt á eftir, hefur þetta mál ekki verið til lykta leitt.

Herra forseti. Stjórnvöld eru flækt í alla þætti málsins. Þau hafa róið að því leynt og ljóst að fá sitt fram. Þau hafa haft í hótunum við Norðmenn. Þau hafa reynt á lúalegan hátt að ræna skipulagsstjóra mannorðinu. Þau hafa reynt að koma í veg fyrir að lýðræðislega kjörnir alþingismenn fái að ræða grundvallaratriði málsins við stóran aðila að málinu, Norsk Hydro. Stjórnvöld lofuðu að hér kæmist almenningur að málum og fengi að gefa umsagnir. Umsagnir þeirra yrðu ekki smáðar eða fótumtroðnar, þeir fengju að gefa þær til iðnn. og til umhvn. Hver er raunin? Lýðræðisleg aðkoma almennings að málinu, að því umhverfismati sem hv. Alþingi hefur verið að reyna að leggja á framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun hefur engin verið.

Hv. iðnn. neitaði minni hluta nefndarinnar um það sjálfsagða réttlætismál að umsagnir frá einstaklingum, sem skrifuðu til nefndanna, yrðu skráðar sem gögn í málinu. Því var hafnað. Valdbeiting og hroki hefur einkennt alla afgreiðslu málsins, herra forseti, og afgreiðsla þessa máls er ekki til sóma, hvorki hæstv. ríkisstjórn né hinu háa Alþingi. Þjóðin á betra skilið af okkur en að við hröpum svona að þessum hlutum og það að þjóðin sé klofin upp í þessar fylkingar sem raun ber vitni er sannarlega ómaklegt.

Herra forseti. Verið er að nota lagasmugu til þess að koma risastórri virkjun í gegn á hinu háa Alþingi, lagasmugu sem um stendur styr. Ekki er einu sinni á hreinu að virkjunarleyfi fyrir þessa virkjun gildi þó að hingað til hafi það verið talið svo og hv. þm. hafa verið að benda á það í þessum umræðum að frekari könnun þurfi að fara fram bæði á þessari lagastoð bráðabirgðaákvæðisins, sömuleiðis á virkjunarleyfinu sjálfu og ég bendi til fylgiskjala sem fylgja með minnihlutaáliti 1. minni hluta hv. iðnn. þar sem birt er kæra Náttúruverndarsamtaka Íslands sem gengur út á það að stjórnvöld séu að brjóta gegn Evrópurétti.

Herra forseti. Ríkisstjórnin tekur ekki rökum í þessu máli. Hvers vegna leggur hæstv. ríkisstjórn á sig þennan slag? Hvers vegna lúffar ekki ríkisstjórnin og segir bara: Við skulum bera klæði á vopnin. Sendum framvæmdina í lögformlegt mat á umhverfisáhrifum. Látum meta framkvæmdina í heild, allar virkjanirnar sem þarf til að afla 480 þús. tonna álvershlussunni rafmagns austur á Reyðarfirði, allar vegaframkvæmdirnar, alla brúarsmíðina, allar línulagnirnar, allt sem heiti hefur í þessari framkvæmd ætti að meta í einu lagi. Það gera reyndar væntanleg lög um mat á umhverfisáhrifum, frv. ti nýrra laga, ráð fyrir að gert verði, herra forseti. Mig langar til að lesa grein, sem er í uppkasti að frv. til laga þar sem fjallað er um matsskyldar framkvæmdir. Þetta er frv. til laga sem er í umsagnaferli og bíður eftir að komast út úr umhvrn. og hingað fyrir hið háa Alþingi. Um matsskyldar framkvæmdir segir þar:

,,Í þeim tilvikum er fleiri en ein matsskyld framkvæmd er fyrirhuguð á sama svæði getur ráðherra ákveðið að umhverfisáhrif þeirra skuli metin sameiginlega og lögð fram samtímis til athugunar Skipulagsstofnunar.``

Svona ættum við að vera að vinna, herra forseti. Sömuleiðis ættum við að setja Fljótsdalsvirkjun undir rammaáætlun ríkisstjórnarinnar. Ég hef áður úr þessum ræðustóli prísað þá rammaáætlun sem er í undirbúningi og er í vinnslu. Hún er sannarlega af hinu góða og, herra forseti, við erum líka að undirbúa þá vinnu á réttum tíma eins og hæstv. iðnrh. hefur margoft bent á og ég er honum hjartanlega sammála áður en í óefni er stefnt með ofvirkjanir hér á landi.

Herra forseti. Ég skora á hæstv. ríkisstjórn og á hæstv. iðnrh. að leyfa Fljótsdalsvirkjun og náttúrunni í kringum hana, Eyjabökkum, að njóta vafans og fara undir rammaáætlun ríkisstjórnarinnar.

Herra forseti. Það er ósanngjarnt að sýna ekki skynsemi í þessu máli. Það er ósanngjarnt að Fljótsdalsvirkjun skuli undanþegin þeirri skynsemi sem rammaáætlun ríkisstjórnarinnar byggir á. Við þurfum á sátt að halda í þessu máli. Við þurfum ekki á ofbeldi og offorsi ríkisstjórnarinnar að halda. Þjóðin er klofin og það er ríkisstjórnarinnar að sameina hana. Ríkisstjórnin hefur allt í hendi sér til að gera það en það skortir vilja, herra forseti. Ég spái því hins vegar að ríkisstjórnin geti öðlast þann vilja með því að hugsa málið upp á nýtt, með því að ákveða að náttúran fái að njóta vafans, með því að ákveða það og viðurkenna það að málin snúi þannig að jörðin þurfi ekkert á okkur að halda. En við getum ekki án jarðarinnar verið.

Herra forseti. Ég skora á hæstv. ríkisstjórn og á þá alþingismenn sem ætla að fara að greiða atkvæði um þetta stóra mál á eftir að hafa það í huga að það er réttlætismál að setja Fljótsdalsvirkjun í lögformlegt mat á umhverfisáhrifum. Sé það ekki gert má líkja því við það að í landi hafi verið ákveðið að afnema dauðarefsingar á þann hátt þó að þeir sem hafa hlotið dauðadóm eigi samt sem áður að deyja. Við skuldum náttúru Íslands og þeim sem unna henni enn betri skýringar. Þær fást einungis með því að setja þessa framkvæmd í hinn lögformlega farveg.

Herra forseti. Það væri okkur til sóma að samþykkja lögformlegt mat á umhverfisáhrifum fyrir Fljótsdalsvirkjun.