Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 17:33:21 (3670)

1999-12-21 17:33:21# 125. lþ. 51.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[17:33]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Það voru tvær spurningar frá hv. þm. í umræðunni sem hann taldi sig ekki hafa fengið svar við í fyrri ræðu minni. Í fyrsta lagi varðandi hvort ég gæti tryggt það að ekki yrðu nokkurn tíma lagðar línur yfir hálendi landsins. Það er útilokað fyrir mig að gefa út einhverja yfirlýsingu um slíka tryggingu. Alveg burt séð frá því hvort nokkurn tíma verður af einhverjum stórum virkjunum norðan Vatnajökuls liggur það alveg fyrir að á einhverju stigi málsins þurfa menn að tengja saman orkukerfið fyrir sunnan og austan. Ég tel hins vegar að með þeirri ákvörðun sem tekin hefur verið af ríkisstjórninni að menn ætli að nýta orkuna í heimabyggð eða á heimaslóð að þá komumst við hjá því að leggja 400 kílóvatta háspennulínur yfir landið eins og áformað var á sínum tíma til að flytja orkuna að austan suður.

Hin spurning hv. þm. sneri að því hver væri hinn raunverulegi orkukaupandi. Hér er hópur innlendra fjárfesta í samstarfi sín á milli. Sá aðili er að undirbúa samninga við Landsvirkjun um orkukaup. Þegar hlutafélag hefur verið stofnað um byggingu álversins verður það sá aðili sem semur endanlega við Landsvirkjun um orkukaupin. Eins og ég sagði áðan mun ekki skipta höfuðmáli hvort einhver dráttur verður á þar í fáa daga eða fáar vikur hvenær gengið verður frá þeim samningi. Aðalatriðið er að menn geti tekið endanlega ákvörðun um alla þessa samninga fyrir 1. júní þannig að verkefnið geti orðið að veruleika.

En af því að nú er komið að lokum umræðunnar vil ég nota tækifærið til að þakka öllum þeim þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðunni, þakka umhvn. Alþingis fyrir starf sitt og undirbúning að þeim síðari hluta umræðunnar sem hér hefur átt sér stað og sérstaklega iðnn. þingsins sem hefur borið hitann og þungann af þessu máli milli fyrri og síðari umr. fyrir mjög gott starf. Ég tel að málið liggi mjög skýrt fyrir þannig að okkur sé ekkert að vanbúnaði að fara í atkvæðagreiðslu.