Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 18:34:38 (3707)

1999-12-21 18:34:38# 125. lþ. 51.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ArnbS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[18:34]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Við greiðum atkvæði um það hvort Alþingi árið 1999 leggur blessun sína yfir framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun. Lagasetning um Fljótsdalsvirkjun átti sér stað í Alþingi 1981 að frumkvæði Hjörleifs Guttormssonar. Leyfi til framkvæmda var veitt árið 1991 og þá hófust framkvæmdir við virkjunina, hæstv. forseti, fyrir átta árum síðan.

Við skulum minnast þess að síðan hafa áfram verið stundaðar miklar umhverfisrannsóknir á svæðinu. Við skulum minnast þess að hér er um mest rannsakaða virkjunarsvæði landsins að ræða. Við skulum minnast þess að hér er um bráðnauðsynlega framkvæmd að ræða fyrir efnahagslíf landsins. Við skulum minnast þess að hér er verið að leggja grunn að varanlegum lífskjarabótum Íslendinga. Við skulum minnast þess að íslenska velferðarkerfið stenst ekki nema með nýrri innspýtingu í efnahagskerfið á réttum tíma. Við skulum minnast þess að hér er um byggðamál að ræða og hér er um framkvæmd að ræða sem hefur gífurlega jákvæð áhrif á byggðaþróun á Austurlandi. Austfirðingar treysta því að Alþingi muni samþykkja þessa þáltill.

Hæstv. forseti. Ég samþykki þessa tillögu og segi já.