Byggðastofnun

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 18:56:47 (3719)

1999-12-21 18:56:47# 125. lþ. 51.5 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[18:56]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Það var með talsverðri eftirvæntingu að maður beið frv. til laga um Byggðastofnun og vænti þess eftir þá öfugþróun sem átt hefur sér stað í byggðamálum á umliðnum árum að þar væri að finna metnaðargjarna lagasmíð þar sem snúið væri vörn í sókn. Hins vegar kemur á daginn að þó um sé að ræða þolanlega spretti í þessu frv. er aðdragandi þess og innihald allt því marki brennt að það er afrakstur hrossakaupa á stjórnarheimilinu frá sl. vori þar sem stjórnarflokkarnir skiptu herfanginu sín á milli og lögðu á ráðin um hvernig einstök ráðuneyti og undirstofnanir ættu að falla stjórnarflokknum í skaut. Þetta er afrakstur þeirra hrossakaupa sem lutu ekki eingöngu að því að skipta á ríkisstofnunum og skipta á verkefnum milli stjórnarflokkanna heldur komu þar einnig við sögu einstaklingar, ráðherrar og aðrir vinir stjórnarflokkanna.

Við höfum fylgst með því í fjölmiðlum hvernig þau kaup hafa gerst. Auðvitað eru ekki meðmæli með því frv. sem hér um ræðir að sá vonbiðill, sá kandídat sem kallaður var til þeirra starfa að verða stjórnarformaður hinnar nýju Byggðastofnunar, hefur afþakkað þann virðingarsess með öllu með þeim orðum að það væri engin alvara af hálfu ríkisstjórnarinnar með því frv. sem hér um ræðir og enginn hugur þar að baki. Ég hugsa að satt að segja þurfi ekki frekari vitnanna við þegar hæstv. félmrh. Páll Pétursson, sem nefndur var í stól formanns stjórnar Byggðastofnunar, gefur þessu frv. þá einkunn sem ég lýsti.

Út af fyrir sig alger óþarfi fyrir okkur stjórnarandstæðinga að fara frekari orðum um það því að ef einhver ætti að þekkja undirbúning og aðkomu að málinu er það auðvitað hann. Eins og ég segi er þetta liður í lönguvitleysu, stórum og löngum kapli þar sem verið er að raða á jötuna hér og þar og alls staðar. Í því samhengi er einnig eitt stykki seðlabankastjórastaða og í fjölmiðlum sér maður að þar gæti verið líka á ferðinni hugsanleg langavitleysa með tilheyrandi dómínóeffektum.

Herra forseti. Ég hef að þessu sögðu lagt fram litla brtt. vegna þess að mér hefur fundist í síðari tíð að sú þróun væri í öfuga átt þegar Alþingi hefur æ ofan í æ afsalað sér völdum í hendur framkvæmdarvaldinu. Það höfum við gert um leið og við höfum hlutafélagavætt stofnanir á borð við Póst og síma. Það höfum við gert í viðskiptabönkunum og margir hafa haldið merkar og lærðar ræður um að það sé rétt að þessi mál væru öll á hendi þess aðila sem bæri ábyrgð á málinu hjá framkvæmdarvaldinu, nefnilega viðkomandi ráðherra. Gott og vel. Það eru ákveðin rök í því. En á hinn bóginn hafa menn í upphafi farið fram á þann veg að viðkomandi ráðherra hefur látið í veðri vaka og jafnvel framkvæmt það fyrsta kastið að skipan stjórnarstarfa væri í réttu hlutfalli við þingstyrk og vægi stjórnmálaflokkanna þannig að hinar pólitísku raddir fengju að heyrast jafnt eftir sem áður í þessum stjórnum þótt þær væru þar í umboði ráðherra. Því miður hefur það þróast þannig til að mynda í viðskiptabönkunum, að ég tali ekki um Íbúðalánasjóð sem var raunar skipaður þannig strax hið fyrsta, að þar var með ... (Gripið fram í: Sementsverksmiðjan.) Sementsverksmiðjan, er kallað fram í og er ástæða til að bæta því við.

Í Íbúðalánasjóði er það þannig að það er ekki einn einasti stjórnarandstæðingur sem situr þar í sjö manna stjórn. Það er bara svona. Það er einn fyrrv. þingmaður sem var óháður á síðustu dögum síðasta kjörtímabils en útilokað að rödd stjórnarandstöðunnar fái að heyrast þar, eins mikinn áhuga og þeir flokkar sem þar eru nú hafa sýnt málefnum húsbyggjenda og íbúðareigenda á kjörum fólks í landinu. Það vekur manni auðvitað nokkra tortryggni. Þess vegna finnst mér málið tvíþætt. Annars vegar að forræðið sé á hendi Alþingis. Þetta stóra mál er þannig vaxið að við sjáum að framkvæmdarvaldið hefur sýnt því lítinn áhuga og reyndar er þessi tillaga þannig fram sett að Sjálfstfl. hefur gefist upp á verkefninu að stýra Byggðastofnun. Hæstv. forsrh. hefur verið byggðamálaráðherra umliðinna þriggja ríkisstjórna og niðurstaðan er öllum kunn. Óþarfi að lengja umræðuna með því að rekja þá sorgarsögu alla og réttir nú keflið í áttina að Framsfl. sem hefur kannski ekki allt of glæsta fortíð í byggðamálunum heldur þannig að þessar breytingar, þessi hausavíxl auka manni ekki bjartsýni og þor.

Mikils er um vert þó í þessari þröngu stöðu að eftir sem áður verði stjórn Byggðastofnunar skipuð á þann veg að sjónarmið stjórnmálaflokkanna í Alþingi fái að njóta sín. Það finnst mér mest um vert og ég vil trúa því að þannig gangi mál fram.