Byggðastofnun

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 19:19:14 (3726)

1999-12-21 19:19:14# 125. lþ. 51.5 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[19:19]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Frv. til laga um Byggðastofnun sem hér er til umfjöllunar vekur vonbrigði. Miðað við þá stöðu sem nú er í byggðamálum þá batt maður vonir við að tekið yrði myndarlega á stöðu landsbyggðarinnar með kerfisbreytingum við endurskoðun á lögum um Byggðastofnun.

Ég hefði talið eðlilegt að stofna a.m.k. tímabundið innanríkisráðuneyti. Hér er um virkilega stórt atriði að ræða, líka peningalega, kannski tugmilljarðadæmi sem við stöndum frammi fyrir vegna fólksflutninga. Ég tel algerlega rangt að setja málið í þann farveg sem það er sett í með þessu frv. Þar er um að ræða flutning til fagráðuneytis, frá forsrn. og til iðnrn. Mér finnst að í því felist viss einsporun á vandamálum landsbyggðarinnar. Menn ætla sér með beinum aðgerðum í gegnum iðnrn. að leysa vandamál landsbyggðarinnar. Það er gömul aðferð sem við höfum áratuga reynslu af og skilar ekki árangri fyrir landsbyggðina.

Heildstæðar víðtækar aðgerðir þurfa að eiga sér stað og þess vegna hefði tímabundin stofnun innanríkisráðuneytis verið vel við hæfi til þess að taka á þessum gríðarlegu vandamálum núna. Samkvæmt þeim skýrslum sem unnar hafa verið á vegum Byggðastofnunar og fleiri aðila undanfarið þá er himinklárt að það eru ekki atvinnumálin einvörðungu sem eru til vandræða í búsetuþróun í landinu. Það er samdóma álit flestra sem úttekt hafa gert á því að fjölmargir málaflokkar vegi þar þungt. Menn hafa talað um allan skalann, þ.e. menningarmálin, atvinnumálin, samgöngumálin og rekstur ríkisstofnana svo sem heilsugæslu, skóla o.s.frv. Einsporun inn í eitt fagráðuneyti þar aðeins á að fókusera á atvinnumálin er að mínu mati röng stefna. Eigi að vista Byggðastofnun inni í einhverju ráðuneytanna, eigi ekki að velta fyrir sér möguleikum á t.d. tímabundnu innanríkisráðuneyti sem þessi stofnun gæti verið grunnur að þá held ég að tillaga Steingríms J. Sigfússonar um vistun Byggðastofnunar í félmrn. sé miklu nær lagi. Félmrn. hefur með málefni sveitarfélaganna að gera og hefur breidd og víðsýni til að taka á öllum þeim málum sem eru grundvallaratriði í stöðu landsbyggðarinnar: menningarmálum, atvinnumálum, samgöngumálum, rekstri ríkisstofnana, heilsugæslu og skóla.

Við atkvæðagreiðsluna verður lögð fram þessi brtt. sem ég styð eindregið en ég vil árétta það að mér finnst of lítið gert úr þessu máli. Með endurskoðun á lögunum um Byggðastofnun var kærkomið tækifæri til að taka heildstætt og af myndarskap á stöðu landsbyggðarinnar. Það verður ekki gert með þessu og ég er hræddur um að með þessum tilflutningum festist menn í gömlu aðgerðunum sem við höfum áratuga reynslu af en hafa ekki virkað til þess að sporna á móti flótta landsbyggðarfólks til höfuðborgarsvæðis.