Stjórnarráð Íslands

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 19:37:13 (3731)

1999-12-21 19:37:13# 125. lþ. 51.30 fundur 160. mál: #A Stjórnarráð Íslands# (aðsetur ríkisstofnana) frv. 121/1999, Frsm. meiri hluta VS
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[19:37]

Frsm. meiri hluta allshn. (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 387 um frv. til laga um breytinu á lögum nr. 73/1969, um Stjórnarráð Íslands, frá meiri hluta allshn.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Gunnar G. Schram, prófessor við Háskóla Íslands, og Pál Hreinsson, dósent við Háskóla Íslands.

Með dómi Hæstaréttar frá 18. desember 1998 í máli nr. 312/1998 var ákvörðun umhverfisráðherra um að flytja starfsemi Landmælinga Íslands til Akraness dæmd ólögmæt þar sem ráðherra hefði ekki aflað sér lagaheimildar fyrir flutningi stofnunarinnar frá Reykjavík til Akraness. Í dómi sínum leit Hæstiréttur m.a. til þess að ekki nyti við almennra lagafyrirmæla um staðsetningu ríkisstofnana. Andstætt því sem ráðherra hafði lagt ákvörðun sinni til grundvallar og stjórnvöld höfðu fram að því talið rúmast innan valdheimilda sinna sló Hæstiréttur því föstu að skortur á ákvæði um staðsetningu stofnunarinnar í lögum veitti ráðherra ekki frjálst val um það hvar stofnunin skyldi staðsett. Taldi rétturinn að vöntun á ákvæði um þetta í lögum mætti helst skýra með því að fyrirmæli væru í stjórnarskrá um staðsetningu ráðuneyta. Hefði það verið talið svo sjálfsagt fram á síðari ár að stofnanir sem undir þau heyrðu hefðu einnig aðsetur í höfuðborginni að ekki þyrfti að taka það fram í lögum.

Fordæmisáhrif dómsins eru í stuttu máli þau að líta verður svo á að þegar Alþingi kveður ekki á um aðsetur ríkisstofnana í lögum beri þeim að eiga aðsetur í Reykjavík. Þá geti ráðherra ekki að óbreyttum lögum tekið ákvörðun um að flytja aðsetur ríkisstofnana frá Reykjavík.

Frumvarpið er lagt fram til að taka af allan vafa um heimildir til að starfrækja ríkisstofnanir utan Reykjavíkur. Er það ekki síst gert vegna ríkisstofnana sem þegar eru staðsettar utan borgarmarkanna án þess að mælt sé fyrir um það í lögum. Er því í raun aðeins verið að leysa úr réttaróvissu sem skapaðist í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli Landmælinga, en um leið er lögfest það ástand sem menn töldu gilda áður en dómurinn féll. Er því með frumvarpinu lagt til að lögfest verði heimild fyrir ráðherra til að ákveða aðsetur ríkisstofnana sem undir ráðuneyti þeirra heyra. Til að taka af allan vafa um gildi þeirra ákvarðana sem hingað til hafa verið teknar um aðsetur stofnana utan Reykjavíkur er einnig lagt til að ákvæði þar að lútandi verði fest í viðkomandi lög.

Meiri hlutinn mælir með samþykkt frumvarpsins.

Undir nál. rita auk þeirrar sem hér stendur hv. þingmenn Katrín Fjeldsted, Ólafur Örn Haraldsson, Hjálmar Jónsson, Ásta Möller og Helga Guðrún Jónasdóttir, og hv. þm. Gunnar Ingi Gunnarsson með fyrirvara.