Stjórnarráð Íslands

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 19:41:37 (3733)

1999-12-21 19:41:37# 125. lþ. 51.30 fundur 160. mál: #A Stjórnarráð Íslands# (aðsetur ríkisstofnana) frv. 121/1999, Frsm. minni hluta LB
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[19:41]

Frsm. minni hluta allshn. (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. minni hluta allshn. um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 73/1969, um Stjórnarráð Íslands.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta nál. en mótmæla því sem formaður hv. allshn. sagði í ræðu sinni áðan að með þessu væri verið að eyða réttaróvissu. Engin réttaróvissa er í þessu máli og hefur ekki verið. Sú eina réttaróvissa sem hefur skapast í þessu máli er sökum þess að hæstv. ríkisstjórn telur algerlega ófært að ákvörðunarvaldið um það hvar heimilisfang einstakra ríkisstofnana eigi að vera samkvæmt Hæstarétti skuli vera hjá Alþingi. Hæstv. ríkisstjórn vill hafa þetta ákvörðunarvald sjálf.

Við þekkjum það af sögunni að ráðherrar hafa oft og tíðum farið illa með þetta vald og með geðþóttaákvörðunum tekið um það ákvörðun að færa ríkisstofnanir.

Sú deila sem hér stendur snýst aðeins um það hvort þetta vald eigi að vera hjá Alþingi eða hvort það eigi að vera hjá ráðherra. Við teljum að þetta vald eigi að vera hjá Alþingi og við teljum jafnframt sem stöndum að þessu minnihlutaáliti, sem ásamt mér eru hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir og hv. þm. Ögmundur Jónasson sem sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu, að þetta vald eigi að vera hjá Alþingi, ekki ríkisstjórn. Við teljum að Alþingi eigi að geta ákveðið hvar heimilisfang þessara stofnana eigi að vera þó að störf í viðkomandi stofnunum séu flutt eitthvert annað eða ekki enda er sú bylting sem á sér nú stað í upplýsingamálum til þess fallin að ekki þarf að binda öll störf við tiltekið heimilisfang.

Í öðru lagi vil ég ítreka mótmæli við það sem hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, formaður allshn., sagði áðan um að Alþingi væri að eyða réttaróvissu. Ríkisstjórnin er að kalla til sín vald sem Hæstiréttur taldi að hún hefði ekki.

Að öðru leyti vísa ég til nál. á þingskjalinu.