Iðnaðarlög

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 19:49:28 (3736)

1999-12-21 19:49:28# 125. lþ. 51.18 fundur 22. mál: #A iðnaðarlög# (meistarabréf, útgáfa sveinsbréfa o.fl.) frv. 133/1999, Frsm. HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[19:49]

Frsm. iðnn. (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég flyt á þskj. 490 brtt. við gildistökugrein frv. til laga um breytingu á iðnaðarlögum sem er 22. mál þessa þings.

Frv. gerir ráð fyrir því að iðnrh. ákveði í reglugerð hvaða iðngreinar séu löggiltar en í dag ákveður menntmrh. það, sbr. reglugerð nr. 648 frá 1999. Sú reglugerðarheimild er í 3. málsl. 2. mgr. 16. gr. laga um framhaldsskóla en ekki 2. málsl. eins og segir í frv. Þessari tilvísun verður að breyta og gengur brtt. út á það.

Jafnframt má skilja niðurlag 5. gr. frv. svo að reglugerðarheimild menntmrh. nái til fleiri starfsgreina en löggiltra iðngreina. Svo er ekki og ætlunin var að fella þessa reglugerðarheimild niður eða öllu heldur flytja hana til iðnrh. Með breytingunni er tekinn af allur vafi um að 3. málsl. 2. mgr. 16. gr. framhaldsskólalaganna fellur brott. Þar sem þessi brtt. var nauðsynleg vegna leiðréttingar á tilvísun en varðar á engan hátt efni frv. leyfi ég mér sem formaður nefndarinnar að flytja hana í eigin nafni.