Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 19:54:01 (3737)

1999-12-21 19:54:01# 125. lþ. 51.31 fundur 228. mál: #A vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum# (gjald fyrir veiðikort) frv. 131/1999, Frsm. KPál
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[19:54]

Frsm. umhvn. (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

Með frumvarpinu er lagt til að hækka gjald fyrir veiðikort og að lögbinda upphæð þess. Einnig er lögð til sú breyting að allir verðandi veiðimenn verði skyldaðir til að taka próf um villt dýr og umhverfi þeirra og í hæfni til veiða. Auk þess er lögð sú skylda á veiðistjóra að halda námskeið til undirbúnings hæfnisprófunum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigmar B. Hauksson frá Skotvís.

Í frv. er annars vegar lagt til að gjald fyrir veiðikort verði hækkað í 1.900 kr. og hins vegar að þeir sem stunda veiðar á villtum dýrum skuli hafa tekið próf um villt dýr og umhverfi þeirra og í hæfni til veiða. Nefndarmenn leggja þann skilning í síðari liðinn að þeir sem stunda veiðarnar og hafa áður fengið útgefið veiðikort þurfi ekki að fara á námskeið.

Nefndin mælir með því að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Gunnar Birgisson, Ólafur Örn Haraldsson og Össur Skarphéðinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.