Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 20:01:47 (3739)

1999-12-21 20:01:47# 125. lþ. 51.31 fundur 228. mál: #A vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum# (gjald fyrir veiðikort) frv. 131/1999, Frsm. KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[20:01]

Frsm. umhvn. (Kristján Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins segja að þetta mál bar þannig að nefndinni að formaður hennar, hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson, kynnti það sérstaklega og þegar málið var afgreitt úr nefndinni var sá fundur undirbúinn af formanni nefndarinnar. Um leið sá hann um hverjir yrðu boðaðir á fund nefndarinnar í það skipti. Þar var boðaður til einn aðili sem var formaður Skotvíss. Hann gerði engar athugasemdir við þetta mál að öðru leyti en því að honum fannst, eins og hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson segir, að það hefði átt að hafa samráð við Skotvís um hækkun á veiðikortagjaldinu. Þó verður að segjast eins og er, að veiðikortagjaldið hefur ekki hækkað mjög lengi. Með venjulegri hækkun samkvæmt vísitölu hefði gjaldið a.m.k. hækkað um 100 kr. og væri 1.700 í staðinn fyrir 1.900. Ef það hefði hækkað á hverju ári gæti vel hugsast að hækkunin væri enn meiri á þeim tíma. Við erum kannski að tala um 150--200 kr. hækkun á þessu gjaldi.

Ég á ekki von á því, herra forseti, að áhrifin verði þau að menn hætti að borga gjaldið eða leysa út veiðikort sín. Það er engin ástæða til þess. Þetta rennur að sjálfsögðu allt til að efla rannsóknir á þeim veiðidýrum sem veiðimenn eru að elta. Þær hafa verið stundaðar í góðri samvinnu við veiðimenn yfirleitt.

Ég get aftur á móti tekið undir að eðlilegast hefði verið að ráðuneytið hefði samráð við Skotvís og veiðistjóra. Ég geri fastlega ráð fyrir að svo hafi verið og þeim hafi verið málið ljóst.