Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 20:08:12 (3743)

1999-12-21 20:08:12# 125. lþ. 51.31 fundur 228. mál: #A vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum# (gjald fyrir veiðikort) frv. 131/1999, MF
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[20:08]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Áður en lögin sem hér er rætt um að breyta voru samþykkt, lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, var málum þannig háttað að um 3,5 millj. fóru á ári til rjúpnarannsókna. Þá fjárhæð greiddi ríkið. Í aðdraganda þess að veiðikortin voru gefin út og veiðikortasjóður varð til áttu sér stað viðræður m.a. við skotveiðimenn, Skotvís. Það samkomulag átti sér mjög langan aðdraganda. Upphaflega var ekki ætlunin, eftir því sem ég best veit, að hafa fast verð á veiðikortum í frv. en síðan var tekin ákvörðun um það og þá m.a. vegna áskorunar sem komu frá bændasamtökum um að þar yrði föst upphæð.

Í lögunum er gert fyrir að hámarki 1.500 kr. sem taki verðlagsbreytingum í takt við vísitölu á hverju ári. Það er rétt sem hér kom fram að ef veiðikortin hefðu fylgt vísitölunni þá hefði orðið um 100 kr. hækkun frá þeirri upphæð sem er í lögunum. Engu að síður vil ég, virðulegi forseti, ítreka það sem ég sagði við 1. umr. um frv.: Þegar þetta samkomulag var gert 1994, lögin voru samþykkt og ákveðið að koma á veiðikortum og veiðikortasjóði, þá voru framlög til rjúpnarannsókna 3,5 millj. kr. Í samkomulaginu var því heitið að þessi framlög yrðu ekki skert, að það sem kæmi inn í veiðikortasjóðinn yrði hrein viðbót við það sem færi til rjúpnarannsókna.

Því miður varð raunin allt önnur. Árið 1995 ákvað fyrrv. umhvrh. Guðmundur Bjarnason að skerða þau framlög sem ákveðin höfðu verið til þessara rannsókna og láta veiðikortasjóðinn fjármagna þær að fullu. Síðan þá hafa farið um 4--4,5 millj. á ári til rjúpnarannsókna, eitt árið 4,7 millj. kr. Annars hafa 4--4,5 millj. á ári runnið í þessar sérstöku rannsóknir. Þegar veiðikortasjóðurinn varð til átti einnig að setja skýrar reglur um úthlutun úr sjóðnum til þeirra verkefna sem honum er ætlað að fjármagna. Það hefur ekki verið gert.

Við 1. umr. kom fram að núv. hæstv. umhvrh. hefur fullan hug á því að setja þessar reglur. En það er dálítið erfitt að gera það. Þó svo núv. hæstv. umhvrh. setti reglurnar núna er þegar búið að binda framlög úr sjóðnum um óákveðinn tíma við gæluverkefni fyrrv. ráðherra. Það var eingöngu ákvörðun ráðherrans í hvaða verkefni þessi sjóður skyldi notaður. Því miður virðist mér að þar hafi ekki verið um þá skýru stefnumörkun að ræða við úthlutun eins og talað var um þegar veiðikortasjóður varð til. Þetta er auðvitað verulegur galli.

Veiðikortasjóðurinn fær á hverju ári á annan tug millj. kr. til ráðstöfunar. Annað sem kemur í veg fyrir að hægt sé að nota hann beint til vöktunar og rannsókna eins og upphaflega stóð til er að veiðikortasjóðurinn stendur að fullu undir umsýslu sjóðsins. Mig minnir, virðulegi forseti, að þessi kostnaður hafi verið afar misjafn, rétt rúmar 4 millj. og upp í rúmar 7 á ári. Þar er um að ræða m.a. mjög dýran tölvubúnað. Þeir fjármunir sem fara ættu til rannsókna hafa orðið minni vegna þessa og verkefnin liðið fyrir óskýrar reglur um úthlutun úr sjóðnum.

Ég tel mjög brýnt mál að settar verði skýrar reglur um úthlutun úr veiðikortasjóði sem taka mundu af þær skuldbindingar sem sjóðurinn hefur nú þegar. Endurmeta þyrfti skuldbindingar hans og setja nýjar reglur.

Ég er þeirrar skoðunar að sé rétt haldið á málum geti veiðikortasjóðurinn staðið undir þeim viðbótarkostnaði sem hlýst af samþykkt þáltill. sem alger samstaða var um í umhvn. á síðasta ári, þ.e. um rannsóknir á vetrarafföllum rjúpu. Áætlað var að sá kostnaður væri um 4 millj. Ég tel að ef rétt væri á málum haldið þá gæti veiðikortasjóðurinn, án hækkunar gjaldsins, dekkað það sem færi til þessara rannsókna. Þannig hefði ekki verið þörf á að hækka sérstaklega veiðikortagjaldið. Það kostaði þáv. hæstv. umhvrh., Össur Skarphéðinsson sem hér gengur í salinn, töluvert mikla vinnu að ná samningum um að koma á veiðikortagjaldi og veiðikortasjóði. Ég ítreka, virðulegi forseti, að í því samkomulagi var gert ráð fyrir að þeir fjármunir sem áður hefðu farið til rjúpnarannsókna mundu halda sér, sú upphæð var 3,5 millj. Ef það hefði gengið eftir værum við með í kringum 8 millj. til ráðstöfunar á ári hverju til rjúpnarannsókna. Þá hefðu sjálfsagt þegar verið hafnar rannsóknir á vetrarafföllum rjúpu sem við urðum hins vegar að samþykkja sérstaklega þáltill. um á síðasta þingi.

Samstarfið sem þarna fór af stað er viðkvæmt og eðlilega þarf það töluverðan tíma til þess að þróast. Um er að ræða þá bestu leið sem farin hefur verið til að hafa virkt eftirlit með veiðum. Því mun ekki haldið áfram nema með gagnkvæmu samstarfi milli skotveiðimanna annars vegar og hins vegar umhvrn. Þeir sem voru á þingi þegar lögin voru sett muna umræðuna í kringum þessa lagasetningu. Ég vil því taka undir með hv. þm. Ólafi Erni Haraldssyni, sem hér talaði áðan. Ég tel að þetta mál hefði þurft að skoða betur og gera kröfur um að settar yrðu skýrar reglur um úthlutun úr þessum sjóði.

Það er nánast ófyrirgefanlegt, virðulegi forseti, að æ ofan í æ séum við að gera frv. að lögum sem gera ráð fyrir því að reglur verði settar um eitt og annað en það síðan dragist árum saman. Þetta á ekki síst við um peningaúthlutanir, úthlutanir sem eiga að fara til ákveðinna skilgreindra verkefna eins og hér er um að ræða. Um þær var mikið rætt í aðdraganda þess að frv. varð að lögum á sínum tíma.

Umhvn. fór fram á að fá lista yfir úthlutanir úr þessum sjóði, mig minnir að hv. þm. Kristján Pálsson hafi verið í umhvn. á síðasta ári og hann man sjálfsagt eftir því, en þá kom einmitt í ljós að þessar reglur höfðu ekki verið settar. Enn og aftur, sem hafði verið gert nánast árlega, var starfsmaður ráðuneytisins boðaður á fund umhvn. vegna þess. Hér í þingsölum var hæstv. þáv. umhvrh. jafnframt hvattur til þess að koma því í verk að setja þessar reglur.

Því miður, virðulegi forseti, virðist þáv. hæstv. ráðherra umhverfismála og reyndar landbúnaðarmála líka hafa verið margt annað betur lagið en að setja skýrar reglur um starfsemi sjóða sem heyra undir þessi ráðuneyti.

Ég tek undir það sem kom fram í máli hv. þm. Ólafs Arnar Haraldssonar og tel að þetta hefði þurft að skoða betur. Með því er ég ekki á nokkurn hátt að setja út á meðferð hv. umhvn. Ég er alls ekki að ásaka hana um slæleg vinnubrögð en þegar allt sumarið hefur gefist til að fást við þetta verkefni þá hefði verið eðlilegt að skoða veiðikortasjóð og setja skýrar reglur um úthlutun úr honum.