Ferill 83. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 136  —  83. mál.



Svar



viðskiptaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um útlán innlánsstofnana.

    Svarið er byggt á upplýsingum frá Seðlabanka Íslands, Fjármálaeftirliti og Íbúðalánasjóði. Leitast var við að svara fyrirspurninni á greinargóðan hátt miðað við þau tímamörk sem sett eru varðandi skriflegar fyrirspurnir í 49. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis.

     1.      Hver hefur árleg þróun verið í útlánum banka og sparisjóða frá árinu 1995 til:
                  a.      einstaklinga,
                  b.      fyrirtækja?

    Stöðutölur útlána innlánsstofnana (þ.e. banka og sparisjóða) í lok hvers árs frá 1995 og í lok september sl. til einstaklinga og fyrirtækja eru sýndar í eftirfarandi töflu:

Útlán innlánsstofnana í lok tímabils í millj. kr.
Einstaklingar Fyrirtæki
1995 62.122 122.630
1996 68.652 137.826
1997 78.910 154.610
1998 106.347 204.112
September 1999 122.848 243.332

     2.      Hve hátt hlutfall af útlánum til einstaklinga hefur farið til fasteignakaupa síðustu fimm ár, sundurliðað eftir árum, hjá eftirtöldum aðilum:
                  a.      bankastofnunum (sundurliðað eftir bönkum),
                  b.      sparisjóðum,
                  c.      Íbúðalánasjóði,
                  d.      lífeyrissjóðum?
    Ekki gafst tími til að afla upplýsinga um útlán einstakra stofnana til einstaklinga. Í lánaflokkun innlánsstofnana er til liðurinn íbúðalán sem undirliður í lánum til einstaklinga. Lán af þessu tagi kunna að hafa verið veitt bæði í tengslum við kaup á fasteignum og vegna viðhalds og endurbóta á fasteignum. Hlutfall útlána sem færð hafa verið sem lán til íbúðarkaupa af heildarútlánum innlánsstofnana til einstaklinga var sem hér segir í lok hvers árs á árunum 1995–98 og í lok september sl.:

Útlán innlánsstofnana til einstaklinga í lok tímabils í millj. kr.
Íbúðalán til einstaklinga Hlutfall af heild (%)
1995 13.996 22,5
1996 16.434 23,9
1997 17.540 22,2
1998 20.200 19,0
September 1999 24.243 19,7

    Hjá Íbúðalánasjóði er málum þannig háttað að eingöngu er lánað til fasteignakaupa. Hlutfall útlána til einstaklinga vegna fasteignakaupa er því 100%. Þannig eru fjórir lánaflokkar hjá sjóðnum 1) lán til kaupa á notuðu húsnæði, 2) lán til nýbygginga einstaklinga, 3) lán til nýbygginga byggingaraðila og 4) lán til meiri háttar endurbóta. Í eftirfarandi töflu er gerð grein fyrir heildarfjárhæð lána til einstaklinga vegna notaðs og nýs húsnæðis og hlutfall þess af heildarfjárhæð lána. Tekið skal fram að ekki reyndist unnt að frá upplýsingar frá Íbúðalánasjóði um lán í félagslega lánakerfinu innan tilskilins tíma.

Útlán Íbúðalánasjóðs til einstaklinga í lok tímabils í millj. kr.
Notað húsnæði Nýtt húsnæði Hlutfall (%)
1995 8.219 3.226 92,1
1996 9.677 3.339 92,2
1997 10.837 4.088 90,6
1998 14.634 4.996 93,1
September 1999 17.530 4.589 95,1

    Í eftirfarandi töflu er gerð grein fyrir stöða útlána lífeyrissjóða til einstaklinga (sjóðfélagalán) í lok tímabils. Tekið skal fram að ekki er unnt að segja fyrir um það nákvæmlega hvaða lán fara til fasteignakaupa og hver ekki. Þó má gera ráð fyrir því að mikill meiri hluti fari til fasteignakaupa. Lán sem eru tryggð með veði í fasteign eru almennt flokkuð sem fasteignakaupalán. Tölur fyrir árin 1998 og 1999 eru áætlaðar út frá úrtaki stærstu sjóða.

Útlán lífeyrissjóða til einstaklinga
í lok tímabils í millj. kr.
1995 37,6
1996 38,5
1997 38,2
1998 40,1
Ágúst 1999 42,6

     3.      Hve mikil voru þriggja mánaða og eldri vanskil einstaklinga við innlánsstofnanir síðustu þrjú ár, sundurliðað eftir stofnunum og árum?
    Ekki gafst tími til að afla þessara upplýsinga.