Ferill 77. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 138  —  77. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um frádrátt gjafa og framlaga frá tekjum við álagningu skatta.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hve hár var frádráttur frá tekjum lögaðila og tekjum manna af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, skv. 2. tölul. 31. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, sem fjallar um frádráttarbærni einstakra gjafa og framlaga til kirkjufélaga, viðurkenndrar líknarstarfsemi, menningarmála, stjórnmálaflokka og vísindalegra rannsóknarstarfa, við álagningu árin 1995, 1996, 1997, 1998 og 1999?
    Svar óskast sundurliðað eftir árum og starfsemi.


    Einu fáanlegu upplýsingarnar um frádrátt vegna gjafa og framlaga frá tekjum við álagningu skatta er að finna í skattframtali rekstraraðila í formi staðlaðrar sundurliðunar tekna og gjalda, eigna og skulda og fleiri atriða er snerta álagningu opinberra gjalda. Þetta staðlaða form (eyðublað RSK 1.04) var fyrst tekið upp við álagningu á árinu 1997 og var þá valkvætt hvort upplýsingum var skilað á því formi eða samkvæmt eldri reglum með ársreikningi og meðfylgjandi eyðublöðum og sundurliðunum. Engar upplýsingar er því að finna um þennan frádráttarlið fyrir árin 1995 og 1996.
    Á árinu 1997 skiluðu aðeins um 1.000 aðilar skattframtali sínu á þessu nýja formi og voru upplýsingar um frádrátt gjafa og framlaga litlar sem engar. Á árinu 1998 og 1999 var lögaðilum hins vegar gert skylt að skila á þessu formi, rafrænt eða á pappír. Í nokkrum tilvikum hefur framteljendum þó verið gefinn nokkur aðlögunartími til að fullgilda útfyllingu á rekstrarframtalinu. Um 200 lögaðilar fengu því heimild til að skila rekstrarframtalinu án þess að fylla það alveg út á árinu 1998 en þeir voru nokkru færri í ár. Í þessum hópi eru mörg af stærstu félögum landsins.
    Á álagningarárinu 1998 nam gjaldfærsla lögaðila skv. 2. tölul. 31. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt 198 millj. kr., sbr. fylgiskjal þar sem er að finna lauslega skiptingu eftir starfsemi. Það skal ítrekað að í samantektina vantar tölur frá mörgum af stærstu félögum landsins þar sem þau fylltu rekstrarframtalið ekki út að fullu.
    Sambærilegar tölur um álagningu á árinu 1999 liggja enn ekki fyrir þar sem álagningu er rétt nýlokið.
    Engin sundurliðun er til eftir málaflokkum sem styrkirnir og gjafirnar ganga til.
    Enn sem komið er hefur einstaklingum með atvinnurekstur ekki verið gert skylt að skila stöðluðu rekstrarframtali og hefur í raun mjög lítill hluti þeirra gert það. Engar upplýsingar liggja því fyrir um frádrátt skv. 2. tölul. 31. gr. hjá einstaklingum með atvinnurekstur.


Fylgiskjal.


Álagningarárið 1998.



ÍSAT- númer Heiti atvinnugreinar millj. kr.
51
Umboðs- og heildverslun með annað en bíla og vélhjól
34
52 Smásala á öðru en bílum og vélhjólun; viðgerðir á hlutum til einka- og
heimilisnota
29
45
Byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð
24
5
Fiskveiðar
20
15
Matvæla- og drykkjarvöruiðnaður
20
74
Önnur viðskipti og sérhæfð þjónusta
12
55
Hótel og veitingahúsarekstur
4
28
Málmsmíði og viðgerðir
4
61
Samgöngur á sjó og vatnaleiðum
4
63
Flutningaþjónusta, starfsemi ferðaskrifstofa og flutningamiðlun
3
50
Sala, viðhald og viðgerðir á bílum o.fl.; bensínstöðvar
3
25
Gúmmí- og plastvöruframleiðsla
3
22
Útgáfustarfsemi og prentiðnaður
3
60
Samgöngur á landi; flutningar eftir leiðslum
3
17
Textíliðnaður
2
65 Peningastofnanir og fjármálaþjónusta önnur en starfsemi
vátryggingafélaga og lífeyrissjóða
2
27
Framleiðsla málma
2
18
Fataiðnaður; sútun og litun loðskinna
2
35
Framleiðsla annarra farartækja
2
24
Efnaiðnaður
1
37
Endurvinnsla
1
72
Tölvur og tölvuþjónusta
1
29
Vélsmíði og vélaviðgerðir
1
31
Framleiðsla og viðgerðir annarra ótalinna rafmagnsvéla og tækja
1
181
Samtals úr öðrum atvinnugreinum 17
Samtals gjaldfært til gjafa og menningarmála samkvæmt innsendum
rekstrarframtölum
198