Ferill 148. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 169  —  148. mál.




Frumvarp til laga



um brottfall laga nr. 73/1994, um söfnunarkassa.

Flm.: Ögmundur Jónasson, Árni Gunnarsson, Gísli S. Einarsson,


Pétur H. Blöndal, Sverrir Hermannsson.


1. gr.

    Lög nr. 73/1994 eru felld úr gildi.

2. gr.

    Lög þessi taka gildi 1. janúar 2000.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var lagt fram á 122. löggjafarþingi 1997–98 og er nú endurflutt. Engar breytingar hafa verið gerðar á frumvarpinu sjálfu en greinargerð hefur verið breytt lítillega í samræmi við ábendingar sem fram komu frá ýmsum þeirra sem fengu frumvarpið til umsagnar á sínum tíma.
    Þegar lögin um íslenska söfnunarkassa voru til afgreiðslu á Alþingi voru þingmenn ekki á einu máli um ágæti slíkrar fjáröflunar. Íslenskir söfnunarkassar eru í eigu Rauða kross Íslands, Landsbjargar, Samtaka áhugamanna um áfengis- og vímuefnavandann og Slysavarnafélags Íslands og skal tekjum af kössunum varið til starfsemi þessara samtaka. Stuðningur við þessa lagasetningu byggðist á góðum málstað þeirra.
    Í lögunum er ákvæði um að dómsmálaráðherra setji „í reglugerð, að fengnum tillögum stjórnar Íslenskra söfnunarkassa, nánari ákvæði um staðsetningu, auðkenningu, fjölda og tegundir söfnunarkassa, eftirlit með þeim, notkun mynta og seðla við greiðslu framlaga, fjárhæð vinninga og aldur þeirra sem nota mega kassana til að leggja fram framlög en hann skal þó eigi vera lægri en 16 ár“. Þá getur ráðherra sett í reglugerð nánari fyrirmæli um framkvæmd laganna, þar á meðal greiðslu kostnaðar við eftirlit og endurskoðun.
    Engin reglugerð hefur hins vegar verið sett um framkvæmd laganna, eftirlit er takmarkað og vitað er að börn og unglingar hafa sums staðar aðgang að kössunum. Þá er það staðreynd að fjöldi fólks hefur ánetjast spilafíkn vegna þeirra og er nú svo komið að miklum fjármunum er varið til að veita meðferð vegna þeirrar ógæfu sem þessi starfsemi hefur kallað yfir fólk. Þessar staðreyndir blasa við þrátt fyrir vilja þeirra sem kassana reka til að koma í veg fyrir að börn yngri en 16 ára spili í þeim.
    Tekjur af söfnunarkössum voru á reikningsárinu frá júlí 1995 til júníloka 1996 samtals 992,8 millj. kr. og eru þær undanþegnar skatti. Það eru vinningar einnig.
    Ástæðulaust er að tíunda frekar í greinargerð hvað þessi starfsemi er fáránleg. Flutningsmenn telja reynsluna sýna að brýnt sé að leggja hana niður sem fyrst og því er frumvarpið flutt.
    Umsagnir sem um frumvarp þetta bárust þegar það var flutt hið fyrra sinn skiptust nokkuð í tvö horn. Þeir umsagnaraðilar sem andmæltu frumvarpinu áttu allir fjárhagslegra hagsmuna að gæta og bentu á að þjóðþrifastarfsemi á þeirra vegum yrði í fjárþröng ef söfnunarkassar af því tagi sem hér er fjallað um yrðu ekki leyfðir. Stuðningur við frumvarpið var hins vegar mikill hjá þeim sem gleggst sjá afleiðingar spilafíknar og þeim sem sinna málefnum ungs fólks.
    Flutningsmenn frumvarpsins taka undir það að mikilvæg starfsemi samtaka sem sinna slysavörnum, björgunarstarfsemi og lækningu áfengissýki má ekki líða fjárskort ef frá þeim eru teknir þeir tekjumöguleikar sem felast í rekstri söfnunarkassa og því er mikilvægt að fundnir verði aðrir tekjustofnar til að fjármagna starfsemi þeirra við samþykkt frumvarpsins. Hins vegar telja flutningsmenn þær hörmungar sem ljóst er að söfnunarkassarnir hafi í för með sér séu svo afdrifaríkar fyrir íslenskt samfélag að ekkert réttlæti tilvist kassanna.
    Í ljósi þess viðhorfs er frumvarp þetta endurflutt.