Ferill 151. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 199  —  151. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn Lúðvíks Bergvinssonar um aukagreiðslur til ríkisendurskoðanda o.fl.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hefur ríkisendurskoðandi, persónulega, fengið sérstakar aukagreiðslur frá opinberum aðilum, ráðuneytum, stofnunum, félögum eða fyrirtækjum í eigu ríkisins eða þar sem ríkið á hlut, fyrir störf sín sem endurskoðandi frá því að hann tók við starfi ríkisendurskoðanda? Í svari komi fram fjárhæðir sundurliðaðar eftir árum og launagreiðendum.
     2.      Hefur ríkisendurskoðandi á sama tímabili fengið sérstakar aukagreiðslur frá Ríkisendurskoðun fyrir útselda vinnu hans eða stofnunarinnar? Í svari komi fram fjárhæðir sundurliðaðar eftir árum og einstökum launagreiðendum.
     3.      Í hve mörgum nefndum framkvæmdarvaldsins hefur ríkisendurskoðandi setið frá því að hann tók við embætti og þar til nú? Hver voru eða eru verkefni þessara nefnda? Óskað er að fram komi hverjar þessar nefndir hafi verið og jafnframt hvaða verkefni þeim hafi verið falin.
     4.      Hversu mörg stöðugildi voru við embættið þegar það var fært undir Alþingi 1987 og hversu mörg eru þau nú?


    Í 49. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, er nánar kveðið á um stjórnarskrárbundinn fyrirspurnarrétt alþingismanna. Þar segir m.a. að fyrirspurn skuli vera um mál sem ráðherra ber ábyrgð á.
    Ríkisendurskoðun var færð undir yfirstjórn Alþingis með lögum nr. 12/1986. Af þessum lögum og lögskýringargögnum má greinilega ráða að meginmarkmið þeirrar ráðstöfunar hafi verið að tryggja sjálfstæði Ríkisendurskoðunar gagnvart ríkisstjórn og framkvæmdarvaldinu öllu. Um stofnunina gilda nú lög nr. 86/1997. Þar segir í 1. gr. að Ríkisendurskoðun starfi á vegum Alþingis. Í 2. gr. segir að forsætisnefnd ráði forstöðumann stofnunarinnar, ríkisendurskoðanda, hann sé starfsmaður Alþingis og beri ábyrgð gagnvart því. Þar segir jafnframt að forsætisnefnd geti vikið honum úr starfi að fengnu samþykki Alþingis. Í 3. gr. segir að Ríkisendurskoðun sé engum háð í störfum sínum en forsætisnefnd geti þó ýmist að eigin frumkvæði eða samkvæmt óskum þingmanna krafist skýrslna um einstök mál er falli undir starfsemi Ríkisendurskoðunar. Þar segir enn fremur að starfsmenn Ríkisendurskoðunar skuli í einu og öllu óháðir ráðuneytum og stofnunum sem þeir vinna að endurskoðun hjá. Ætla verður að það eigi einnig við um ríkisendurskoðanda sjálfan.
    Samkvæmt þessu má ljóst vera að ríkisendurskoðandi lýtur ekki boðvaldi forsætisráðherra og hann hefur engar þær valdheimildir gagnvart Ríkisendurskoðun eða starfsmönnum stofnunarinnar sem leiða má af stöðu hans í stjórnkerfinu, hvorki til stjórnunar né eftirlits. Ríkisendurskoðanda verður því ekki talið skylt að veita forsætisráðherra þær upplýsingar sem leitað er eftir í framangreindri fyrirspurn.
    Jafnvel þótt forsætisráðuneytið fari samkvæmt reglugerð um Stjórnarráð Íslands, sbr. auglýsingu um staðfestingu hennar nr. 96/1969, með mál er varða Alþingi verður að ætla að sú skipan eigi fyrst og fremst við um samskipti Alþingis og ríkisstjórnar, frumkvæði ríkisstjórnar að lagasetningu, staðfestingu samþykktra lagafrumvarpa, eftirlit með framkvæmd þingsályktana, upphaf þings og lok, fjárstjórn o.þ.h., en síður um samskipti Alþingis við stofnanir sem undir það heyra. Þá er og til þess að líta að Alþingi hefur verið talið bært til að hlutast með lögum til um ýmis innri málefni stjórnarráðsins, þ.m.t. verkaskiptingu ráðuneyta og stjórnunar- og eftirlitsheimildir ráðherra gagnvart stofnunum sem undir þá heyra. Reglugerð um stjórnarráðið verður því eftir atvikum að beita lögskýringum um tengsl yngri laga og eldri. Slík skýring reglugerðar um stjórnarráðið og samanburður við lög um Ríkisendurskoðun leiðir til sömu niðurstöðu að því er varðar heimildir forsætisráðherra gagnvart Ríkisendurskoðun. Forsætisráðherra verður því heldur ekki á þessum grundvelli gert að gerast boðberi milli Alþingis og einstakra stofnana er undir það heyra.
    Af framangreindu leiðir að forsætisráðherra ber ekki stjórnskipulega ábyrgð á Ríkisendurskoðun eða athöfnum einstakra starfsmanna hennar. Að því athuguðu verður ekki talið að fyrirspurnin fullnægi því skilyrði þingskapalaga að taka til máls sem forsætisráðherra ber ábyrgð á. Fyrirspurninni verður því ekki svarað efnislega af minni hálfu.
    Á hinn bóginn má benda á að forsætisnefnd Alþingis virðist hafa allar þær heimildir sem annars væru á hendi ráðherra til að krefjast þeirra upplýsinga sem um er beðið, bæði í krafti veitingarvalds síns og þeirra sérstöku heimilda sem lög um Ríkisendurskoðun veita forsætisnefnd til að krefjast skýrslna um mál sem undir stofnunina falla.