Ferill 97. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 244  —  97. mál.




Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Guðmundar Hallvarðssonar um störf nefnda um jarð skjálftavá.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvaða nefndir á vegum umhverfisráðuneytisins hafa fjallað um jarðskjálftavá?
     2.      Hafa nefndirnar skilað skýrslu um störf sín?
     3.      Hverjar voru helstu niðurstöður athugana þeirra?
     4.      Eru einhverjar nefndir starfandi í þessum málaflokki?
     5.      Hvenær eru áætluð starfslok þeirra nefnda sem nú eru að störfum?
     6.      Hyggst ráðherra kynna niðurstöður nefndanna fyrir Alþingi?


    Fyrrverandi umhverfisráðherra, Guðmundur Bjarnason, skipaði í nóvember 1995 nefnd til þess að fjalla um jarðskjálftavá og gera tillögur um aðgerðir til þess að draga úr hættu af völdum jarðskjálfta. Formaður nefndarinnar var Ragnar Stefánsson, sem tilnefndur var af Veðurstofu Íslands. Nefndin skilaði umhverfisráðuneytinu skýrslu með tillögum um aðgerðir í september 1996. Voru tillögurnar síðan kynntar í ríkisstjórn 5. nóvember 1996.
    Niðurstöður og tillögur nefndarinnar eru í fimm liðum og fjalla um rannsóknir, eftirlit og viðbúnað, úttektir á byggingum og undirstöðu, byggingarstaðla og byggingarreglugerðir og samræmingu aðgerða og fjármögnun fyrirliggjandi aðgerða. Á sviði rannsókna eru helstu til lögur nefndarinnar m.a. gerð stafræns gagnagrunns með fyrirliggjandi jarðskjálftaathugunum, gerð sprungukorts með áherslu á jarðskjálftahættusvæði, gerð nákvæmra jarðfræðikorta af jarðskjálftahættusvæðum, uppbygging stafræns jarðskjálftamælanets (SIL-kerfisins), rann sóknir á dreifingu jarðskjálftabylgna, eftirlit með brotahreyfingu og spennuupphleðslu niðri í jarðskorpunni, staðbundið áhættumat, svo og nýting á niðurstöðum mælinga og rannsókna til eftirlits. Auk þess má nefna tillögur um eftirlits- og viðvörunarkerfi jarðskjálftamælinga, að settar verði reglur um meðferð áhættumats og að gerð verði úttekt á jarðskjálftaþoli mann virkja. Nefndin lagði til að sett yrði á stofn jarðskjálftahættunefnd sem fylgdist með starfi að jarðskjálftahættumálum, samræmdi aðgerðir og fylgdist með og fjallaði um framkvæmd til lagna nefndarinnar. Einnig var lagt til að stofnaður yrði sjóður, jarðskjálftavársjóður, sem hefði það hlutverk að fjármagna aðgerðir á þessu sviði og að sjóðurinn yrði fjármagnaður á svipaðan hátt og ofanflóðasjóður.
    Ríkisstjórnin ákvað, að tillögu umhvefisráðherra, að skipa nýja nefnd til að leggja mat á tillögurnar og móta tillögur til ríkisstjórnarinnar um framhald málsins. Í nefndina voru skip aðir fulltrúar samkvæmt tilnefningum frá umhverfisráðuneyti, dómsmálaráðuneyti, félags málaráðuneyti og fjármálaráðuneyti og var fulltrúi umhverfisráðuneytisins skipaður formaður nefndarinnar. Nefndin hefur enn ekki lokið störfum en formaður hennar hefur nýlega gert ráðuneytinu grein fyrir stöðu verksins. Er reiknað með að nefndin ljúki störfum og skili ráðu neytinu tillögum sínum á næstu vikum.