Ferill 203. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 383  —  203. mál.




Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Gunnars Birgissonar um Íslenska aðalverktaka.

    Nauðsynlegt er að hafa í huga að Íslenskum aðalverktökum hf. var breytt úr sameignarfélagi í hlutafélag 1. júní 1997. Þá var eignarhluti íslenska ríkisins 52% í fyrirtækinu. Það er nú skráð á vaxtarlista Verðbréfaþings Íslands og lýtur reglum þess um innri upplýsingar.
    Með hliðsjón af framangreindu eru eftirfarandi svör veitt við einstökum liðum fyrirspurnarinnar.

     1.      Hver er eignarhlutur ríkisins í Íslenskum aðalverktökum?
    Hlutafjáreign íslenska ríkisins í Íslenskum aðalverktökum hf. er nú 558.507.874 kr. sem eru 39,89% af heildarhlutafé í félaginu.

     2.      Hversu lengi hafa Íslenskir aðalverktakar einkarétt á framkvæmdum á Keflavíkurflugvelli?
    Íslenskir aðalverktakar hf. hafa ekki einkarétt á framkvæmdum á Keflavíkurflugvelli og hafa ekki haft. Réttindi fyrirtækisins til samninga um verktöku eru byggð á tilnefningu utanríkisráðuneytisins og hafa ávallt verið til eins árs í senn. Þá hafa verk- og þjónustuútboð aukist umtalsvert á undanförnum árum á Keflavíkurflugvelli og annars staðar þar sem varnarframkvæmdir fara fram. Ýmsir aðrir verktakar hafa tekið þátt í og annast verk á þessu sviði. Í bréfi utanríkisráðuneytisins dags. 30. september 1998 sem gefið var út í tilefni af breytingu á verktökunni almennt, fyrirhugaðri sölu ríkisins á hlut sínum í Íslenskum aðalverktökum hf. í desember 1998 (fyrsti söluáfangi) og sölulýsingu sem þá var útbúin segir svo:
    „Vísað er til bréfs Íslenskra aðalverktaka hf. dags. 28. september sl. þar sem óskað er staðfestingar utanríkisráðherra á því að Íslenskir aðalverktakar hf. verði tilnefndir til verktöku fyrir varnarliðið til ársloka árið 2003 með svipuðum hætti og tíðkast hefur til þessa eins og yfirlýst hafi verið.
    Af ofangreindu tilefni staðfestir utanríkisráðuneytið hér með að utanríkisráðherra mun tilnefna Íslenska aðalverktaka hf. til verktöku fyrir varnarliðið vegna verkframkvæmda innan varnarsvæða sem fjármagnaðar eru af Bandaríkjunum til ársloka árið 2003 í samræmi við samning Íslands og Bandaríkjanna og með svipuðum hætti og tíðkast hefur. Fram að þeim tíma er gert ráð fyrir að fyrirtækið aðlagi sig að íslenskum verktakamarkaði.
    Í ofangreindu efni er ástæða til að vekja athygli félagsins á því að það hefur til þessa ekki setið eitt að tilnefningum til verktöku fyrir varnarliðið og ekki er fyrirhuguð breyting þar á. Þá má frá og með árinu 1999 búast við að stækkandi hluti verklegra framkvæmda fyrir varnarliðið verði boðinn út á samkeppnismarkaði. Minnt er loks á að framkvæmdir fjármagnaðar af Mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins eru nú þegar boðnar út. Að öðru leyti er tilnefning Íslenskra aðalverktaka hf. til verktöku fyrir varnaliðið háð eftirtöldum skilyrðum:
     *      að hlutafé félagsins verði ekki lægra en 1.400 milljónir króna meðan félagið nýtur tilnefningar til verktöku fyrir varnarliðið,
     *      að enginn einn hluthafi eigi stærri hlut í félaginu en sem nemur 7 % meðan tilnefning til verktöku fyrir varnarliðið varir. Þessi fyrirvari nær þó ekki til núverandi eignarhluta íslenska ríkisins og Regins hf. í félaginu,
     *      að félagið sendi varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins á 6 mánaða fresti skrá yfir alla hluthafa félagsins.
    Komi í ljós að félagið uppfyllir ekki eitthvert ofangreindra skilyrða áskilur ráðuneytið sér rétt til þess að hætta tilnefningu félagsins til verktöku fyrir varnarliðið og afturkalla tilnefningar til verka sem ekki eru komnar til framkvæmda. Áður en til slíks kemur verður félaginu þó veittur tveggja mánaða frestur til þess að uppfylla skilyrðin á ný.“
    Svo sem fram kemur í bréfinu liggja fyrir skýrar reglur um fyrirkomulag verktilnefninga hvað Íslenska aðalverktaka hf. varðar. Þær voru kynntar í sölulýsingu félagsins í desember 1998 og voru ein forsenda þeirrar sölu sem þá fór fram.

     1.      Hefur starfsemi Íslenskra aðalverktaka verið aðskilin fyrir verk sem unnin eru utan og innan Keflavíkurflugvallar?
    Starfsemi Íslenskra aðalverktaka hf. á Keflavíkurflugvelli hefur verið fjárhagslega aðskilin frá annarri starfsemi félagsins utan Keflavíkurflugvallar.

     2.      Hve mikið hafa Íslenskir aðalverktakar fjárfest í íslenskum verktakafyrirtækjum og þá hvaða fyrirtækjum,
                  a.      100%,
                  b.      að hluta?

    Íslenskir aðalverktakar hf. hafa keypt allt hlutafé í Álftárósi ehf., Vélaleigu Sigurjóns Helgasonar ehf. og Byggingarfélaginu Úlfarsfelli ehf. Kaupverð er trúnaðarmál milli aðila og er sambland af peningagreiðslum og greiðslum með eigin bréfum Íslenskra aðalverktaka hf.
    Félagið hefur einnig keypt nær allt hlutafé í Ármannsfelli hf. Kaupverð er trúnaðarmál milli aðila. Þar er einnig um að ræða kaup sem eru sambland af peningagreiðslum og hlutabréfaskiptum.

     3.      Samræmist það samkeppnisreglum að ríkið semji við Íslenska aðalverktaka um verkefni og eigi leiðandi hlut í fyrirtækinu?
    Starfsemi Íslenskra aðalverktaka hf. innan varnarsvæða er fjárhagslega aðgreind frá annarri starfsemi félagsins svo sem greinir í svari við 3. lið hér að framan. Meðan þess er gætt telur utanríkisráðuneytið að það samræmist samkeppnisreglum að ríkið tilnefni Íslenska aðalverktaka hf. tímabundið til verktöku á Keflavíkurflugvelli, svo sem fram kemur í svari við 2. lið hér að framan. Minnt er jafnframt á að hluti íslenska ríkisins er minni hluti og að þegar er ákveðið að sá hluti sem íslenska ríkið á í félaginu verði seldur.

     4.      Hvenær ætlar ríkið að selja hlut sinn í Íslenskum aðalverktökum og hvert er áætlað söluverð?
    Utanríkisráðherra hefur áður lýst því yfir fyrir hönd íslenska ríkisins að til standi að íslenska ríkið selji allan hlut sinn í Íslenskum aðalverktökum hf. Fyrsti áfangi þeirrar sölu fór fram í desember 1998 en þá var settur á markað hluti í félaginu af hlut íslenska ríkisins og dótturfélags Landsbanka Íslands hf. Að lokinni þeirri sölu er eignarhluti ríkisins 39,89% eins og greinir í svari við fyrsta lið en dótturfélag Landsbanka Íslands hf. hefur þegar selt allan sinn hlut. Áætlað er að næsti söluáfangi ríkisins, sem gera má ráð fyrir að nemi 20–25% af heildarhlutafé félagsins, fari fram á fyrri hluta næsta árs. Stefnt er að dreifðri sölu þess hluta bæði til almennings og fjárfesta. Frekari sala á því sem eftir stendur af hlut ríkisins mun ráðast af söluárangri næsta áfanga.
    Um söluverð á hlut íslenska ríkisins er þess að geta að félagið er skráð á vaxtarlista Verðbréfaþings Íslands og er gengi hlutabréfa í félaginu 2,4 þegar svar þetta er veitt. Söluverð ræðst því af aðstæðum á söludegi.