Ferill 4. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000 .
Þskj. 384  —  4. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um skattfrelsi norrænna verðlauna.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Eggert J. Hilmarsson, Björn R. Guðmundsson og Jón Guðmundsson frá fjármálaráðuneyti. Umsagnir um málið bárust frá Rithöfundasambandi Íslands og Leikskáldafélagi Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að heimild fjármálaráðherra til að undanþiggja tiltekin norræn verðlaun skattskyldu verði afnumin. Þess í stað verði talið upp í lögum á tæmandi hátt hvaða verðlaun eru undanþegin skattskyldu. Þá er lagt til að nokkur verðlaun verði felld brott og lögin verði því þrengri en reglugerð sem nú gildir um þetta efni. Jafnframt er lagt til í frumvarpinu að afnumið verði ákvæði um að einungis íslenskir ríkisborgarar njóti skattfrelsis, en núgildandi lög mismuna skattþegnum eftir ríkisfangi.
    Nefndin telur að nauðsynlegt sé að gera þær tæknilegu breytingar sem frumvarpið gerir ráð fyrir vegna ákvæða stjórnskipunarlaga um skattamál. Nefndin telur einnig nauðsynlegt að heildarúttekt verði gerð á innlendum og erlendum verðlaunum þar sem kannað verði hvort ástæða sé að undanþiggja fleiri verðlaun skattskyldu en frumvarpið gerir ráð fyrir. Þá telur nefndin eðlilegt að ef til koma verðlaun sambærileg þeim sem frumvarpið tekur til verði þau einnig undanþegin skattskyldu.
    Við meðferð málsins kom í ljós að norrænu barnabókaverðlaunin sem frumvarpið gerir ráð fyrir að verði undanþegin tekju- og eignarskatti eru ekki peningaverðlaun heldur einungis blóm og heiðursskjal. Leggur nefndin því til að þau verði felld brott úr frumvarpinu.
    Nefndin mælir með að frumvarpið verði samþykkt með svofelldri

BREYTINGU:

    5. tölul. 1. gr. falli brott.

    Kristinn H. Gunnarsson, Gunnar Birgisson og Ögmundur Jónasson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 13. des. 1999.Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Hjálmar Árnason.


Pétur H. Blöndal.Drífa Hjartardóttir.


Margrét Frímannsdóttir.


Jóhanna Sigurðardóttir.