Ferill 380. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 637  —  380. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um tólf ára samfellt grunnnám.

Flm.: Jón Bjarnason, Helga A. Erlingsdóttir,
Kolbrún Halldórsdóttir, Þuríður Backman.


    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að hefja nú þegar undirbúning þess að tryggja um allt land framboð á samfelldu námi til átján ára aldurs. Námið verði skipulagt þannig að ungt fólk innan sjálfræðisaldurs alls staðar á landinu geti stundað nám daglega frá heimili sínu. Hluti þess verði starfstengdur og þá jafnframt höfð hliðsjón af umhverfi og atvinnu- og menningarlífi viðkomandi byggðarlags. Náminu ljúki formlega með námsgráðu, en endurskoðað verði skipulag annars framhaldsnáms, tæknináms og sérnáms auk háskólanáms með tilliti til þessara breytinga grunnnámsins þannig að tryggð verði eðlileg samfella og tenging við framhaldsnámið í heild.

Greinargerð.


    Megintilgangur þessarar tillögu er að laga skólakerfið að nútímakröfum um rétt til fjölskyldulífs og fjölskylduábyrgðar. Fólk lítur í auknum mæli og með réttu á samverumöguleika fjölskyldna sem hluta af lífskjörum sínum og þar af leiðandi væri breytt fyrirkomulag þessara mála beint innlegg í jöfnun lífskjara. Viðurkennt er að á aldrinum 15–18 ára taka unglingar út mikinn þroska. Ytra álag er töluvert á þessu aldursskeiði og þá ræðst mjög framtíðargengi unglinga í námi og starfi. Því er mikilvægt að fjölskyldan geti verið sem mest samvistum þennan tíma og unglingarnir þannig fengið nauðsynlegan stuðning. Þessar staðreyndir eru í raun áréttaðar með nýjum sjálfræðislögum, en með þeim hefur heimili og fjölskylda axlað ábyrgð á unglingum að átján ára aldri og því er eðlilegt að skipulag menntunar í landinu taki mið af því.
    Jafnframt er ljóst að mikill námskostnaður þeirra sem þurfa að sækja framhaldsnám út fyrir heimabyggð sína er vaxandi vandamál á landsbyggðinni. Þegar einn vetur í framhaldsskóla kostar á bilinu 300–500 þús. kr. fyrir einstakling sem verður að kaupa fæði og húsnæði fullu verði hlýtur það að leiða til þess að unglingar sem koma frá tekjulágum heimilum lendi í verulegum vandræðum með að kosta nám sitt. Slíkt ástand skerðir augljóslega jafnrétti til náms.
    Í nokkrum byggðarlögum hafa verið gerðar tilraunir til að koma á framhaldsdeildum, sem hafa verið útibú frá næsta framhaldsskóla, þar sem nemendum hefur gefist kostur á að taka eitt til tvö ár af námi til stúdentsprófs í heimabyggð. Því miður hafa slíkar framhaldsdeildir átt erfitt uppdráttar og flestar þeirra ef ekki allar verið lagðar niður. Þær hafa því ekki reynst raunhæfur valkostur.
    Af svari menntamálaráðherra á þskj. 237 á þessu löggjafarþingi er ljóst að hlutfall nemenda í hverjum árgangi sem hefur framhaldsnám er talsvert misjafnt eftir landshlutum. Fyrir því eru vafalaust nokkrar samverkandi ástæður en telja verður líklegt að áðurnefndur kostnaður og leyst fjölskyldubönd eigi þar hlut að máli. Samkvæmt nýrri skýrslu Rauða kross Íslands um fátækt á Íslandi er talið að um 45% íslenskra framhaldsskólanema ljúki ekki skilgreindu framhaldsskólanámi.
    Því er ljóst að ýmislegt bendir til þess að brýnt sé að endurskoða skipulag og framkvæmd menntamála í landinu í nýju ljósi. Að því miðar þessi þingsályktunartillaga. Hér er lagt til að boðið verði upp á tólf ára samfellt nám í öllum byggðarlögum landsins, þ.e. tveimur árum lengra nám en nú er. Jafnframt gerir tillagan ráð fyrir að þau tvö ár sem þar með bætast við byggist að hluta á starfstengdu námi með öflugri tengingu við atvinnulíf, sögu, menningu og náttúrufar viðkomandi byggðarlags. Með því að auka vægi þessara þátta í námi má efla sjálfsvitund unglinga og samábyrgð þeirra gagnvart fólki og umhverfi. Rannsóknir benda til að góð þekking nemenda á heimabyggð sinni auki líkurnar á því að þeir kjósi að búa þar á fullorðinsárunum. Dæmi um þetta er norska Lófót-verkefnið sem þykir hafa heppnast með miklum ágætum.
    Á þennan hátt eykst jöfnuður í aðgengi til náms óháð búsetu. Ungu fólki er auðveldað að sækja sér meiri almenna menntun jafnframt því sem verkmenntun er efld í landinu, en það er ekki síður brýnt. Þessar breytingar þurfa ekki sjálfkrafa að kalla á breytingar á skólaskyldualdri þótt ýmislegt gefi tilefni til að ætla að hann beri að endurskoða. Fyrst og fremst er verið að skylda stjórnvöld til að sjá til þess að slíkt nám standi til boða. Hér er því um fræðsluskyldu að ræða en ekki endilega skólaskyldu. Að sjálfsögðu munu núverandi framhaldsskólar að stærstum hluta geta séð fyrir námsframboði á tveimur síðustu árum í samfelldu tólf ára námi, en þar sem framhaldskólar eru ekki til staðar er eðlilegt að þetta nám verði byggt upp í þeim grunnskólum sem fyrir eru. Þá er rétt að minna á þá miklu möguleika sem eru til að styrkja nám á heimaslóðum með fjarnámi.
    Í framhaldi af þessu endurskipulagða samfellda grunnámi kæmi skemmra eða lengra starfsnám, tækninám og annað sérnám, auk frekari undirbúnings fyrir almennt háskólanám sem gæti hafist fyrr en nú er. Mikilvægt er að koma á slíku framhaldsnámi sem víðast á landinu og að atvinnulífið á hverjum stað taki virkan þátt í menntuninni.
    Undirbúningsvinnan mun taka nokkurn tíma, svo og að koma nýju skipulagi til framkvæmda. Því er lögð áhersla á að nú þegar verði leitað allra leiða til að koma á víðtækara framhaldskólanámi heima í byggðunum svo víða sem þess er nokkur kostur.
    Annar megintilgangur þess fyrirkomulags náms sem hér er lagt til er að efla og styrkja almenna menntun í landinu öllu og hækka þar með grunnmenntunarstig þjóðarinnar og aðlaga allt skipulag grunnnámsins breyttum þjóðfélagsaðstæðum og auknum framtíðarkröfum sem gerðar eru til starfsmenntunar og tækni- og háskólanáms. Jafnframt er áréttað að gott aðgengi ungs fólks að menntun sem það getur sótt frá heimili sínu er grundvallaratriði við mat á lífsgæðum og lífskjörum. Þá verður að telja líklegt að með þeirri skipan náms sem hér er lögð til hækki hlutfall þeirra sem á þessum aldri ljúka skilgreindu námi. Það unga fólk mun fá sterkari sjálfsmynd og aukið sjálfstraust og vera þá betur í stakk búið til frekara náms og starfa í síbreytilegu þjóðfélagi.