Ferill 406. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 664  —  406. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um veitinga- og gististaði, nr. 67/1985, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)



1. gr.

    Á eftir 3. mgr. 2. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Heimilt er að synja útgáfu leyfis þegar umsækjandi skuldar skatta, opinber gjöld eða iðgjöld í lífeyrissjóð og samanlögð fjárhæð þessara skulda nemur hærri fjárhæð en 500.000 kr. eða ef umsækjandi hefur á undanförnum fimm árum verið dæmdur til refsivistar fyrir brot á almennum hegningarlögum, lögum um ávana- og fíkniefni, lögum um tekjuskatt og eignarskatt, um virðisaukaskatt, um staðgreiðslu opinberra gjalda eða um tryggingagjald eða þessum lögum og ástæðurnar eiga við:
     a.      umsækjanda sem er lögaðili með takmarkaðri ábyrgð eða einhvern eigenda hans,
     b.      umsækjanda sem er lögaðili með takmarkaðri ábyrgð, meiri hluta eigenda hans, stjórnarmann eða framkvæmdastjóra,
     c.      umsækjanda sem er einstaklingur.

2. gr.

    Við 9. gr. laganna bætast þrír nýir liðir, svohljóðandi:
     f.      Kaffihús.
        Veitingastaður með einfaldar veitingar í mat og/eða drykk þar sem aðaláhersla er lögð á kaffiveitingar.
     g.      Krá.
        Veitingastaður með einfaldar veitingar í mat þar sem aðaláhersla er lögð á áfengisveitingar og með takmarkaða þjónustu.
     h.      Næturklúbbur.
        Veitingastaður með reglubundna skemmtistarfsemi fyrir gesti en sem getur ekki skilgreint sig sem kaffihús eða krá né heldur stað með fjölbreyttar veitingar í mat og/eða drykk.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.



Prentað upp.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta var samið í samgönguráðuneytinu í kjölfar starfs viðræðunefndar sem sett var á fót vorið 1999 sem hafði það hlutverk að sporna gegn starfsemi svonefndra „erótískra“ veitingastaða. Nefnd þessi var skipuð fulltrúa Reykjavíkurborgar, dómsmálaráðuneytis, félagsmálaráðuneytis og samgönguráðuneytis. Niðurstaða nefndarinnar var meðal annars sú að nauðsynlegt væri að breyta lögum um veitinga- og gististaði, nr. 67/1985, á þann veg að flokkum veitingastaða yrði fjölgað. Telur nefndin að með því móti væri sveitarstjórnum veitt úrræði til að geta haft áhrif á hvar slík starfsemi færi fram. Nefndin telur að í núgildandi lagaumhverfi skorti slík úrræði en með flokkun veitingastaða gætu sveitarfélög á grundvelli b-liðar 3. gr. laga nr. 36/1988, um lögreglusamþykktir, kveðið á um opnunar- og lokunartíma nektardansstaða. Jafnframt telur nefndin að sveitarfélög gætu kveðið á um það í skilmálum aðal- eða deiliskipulags hvar heimilt sé að reka slíka staði og á grundvelli sömu heimildar sett einhver nánari skilyrði um það skemmtanahald sem fram fer á nektardansstöðum, umfram þau skilyrði sem gilda um skemmtanahald á öðrum veitingastöðum.
    Frá því að lög um veitinga- og gististaði voru sett árið 1985 hefur orðið gjörbreyting á skemmtanavenjum landsmanna. Flokkun veitingastaða í löggjöfinni tekur mið af fyrri aðstæðum og er t.d. hvorki gert ráð fyrir krám né kaffihúsum í lögunum en ljóst er að slíkum stöðum hefur stórfjölgað hér. Þá er heldur ekki gert ráð fyrir flokki næturklúbba eða staða sem nú kallaðir eru nektardansstaðir en slíkir staðir eru nú allnokkrir hér.
    Í 1. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að heimilt verði að synja útgáfu leyfis þegar hlutaðeigandi skuldar skatta, opinber gjöld og fleira og upphæðin nemur hærri fjárhæð en 500 þús. kr. Þá er og gert ráð fyrir að synja megi um leyfisútgáfu ef viðkomandi hefur verið dæmdur til refsivistar vegna brota á lögum er varða atvinnustarfsemi þessa. Hér er um að ræða mjög svipað ákvæði og er að finna í áfengislögum. Atvinnustarfsemi þessi getur verið mjög umfangsmikil og mjög algengt er að sömu aðilarnir setji hvern veitingastaðinn á fætur öðrum á fót án þess að hafa burði til að standa undir rekstrinum. Rétt þykir að strax í upphafi séu úrræði til að reyna að koma í veg fyrir starfsemi þeirra aðila sem greinilega eru varla til þess hæfir að standa í rekstri af þessu tagi.
    Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að flokkum veitingastaða verði fjölgað um þrjá, þ.e. að bætt verði við krám, kaffihúsum og næturklúbbum. Með næturklúbbi er átt við stað þar sem skemmtun hefst seint að kvöldi. Undir þennan flokk falla t.d. svokallaðir nektardansstaðir.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um
veitinga- og gististaði, nr. 67/1985, með síðari breytingum.

    Tilgangurinn með frumvarpinu er tvíþættur, annars vegar er ætlunin að fjölga flokkum veitinga- og gististaða um þrjá, þ.e. að bæta við flokkum fyrir krár, kaffihús og næturklúbba. Undir síðasttalda flokkinn falla t.d. svokallaðir nektardansstaðir. Hins vegar er í frumvarpinu gert ráð fyrir heimild til að synja útgáfu leyfis þegar hlutaðeigandi skuldar skatta, opinber gjöld og fleira og upphæðin nemur hærri fjárhæð en 500 þús. kr. Þá er og gert ráð fyrir að synja megi um leyfisútgáfu ef viðkomandi hefur verið dæmdur til refsivistar fyrir brot á lögum er varða atvinnustarfsemi þessa. Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi aukinn kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.