Ferill 237. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 790  —  237. mál.




Breytingartillögur



við frv. til l. um breyting á ýmsum lögum vegna þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu.

Frá allsherjarnefnd.



     1.      Á eftir I. kafla komi nýr kafli, II. kafli, Breyting á lögum um fullnustu refsidóma, sem kveðnir hafa verið upp í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð, o.fl., nr. 69 12. desember 1963, með einni nýrri grein, svohljóðandi:
              Á eftir 4. gr. laganna kemur ný grein, 4. gr. a, er orðast svo:
             Hafi dómþoli komið sér undan fullnustu refsingar að hluta til eða í heild með því að flýja til landsins er heimilt eftir beiðni frá til þess bæru stjórnvaldi í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð að úrskurða dómþola í gæsluvarðhald til að tryggja nærveru hans þar til fullnægjandi gögn með beiðni um fullnustu refsingar hafa borist eða ákvörðun um hvort fallist verði á beiðni er tekin. Í stað gæsluvarðhalds má beita úrræðum 110. gr. laga um meðferð opinberra mála ef slík úrræði teljast fullnægjandi til að tryggja nærveru dómþola.
     2.      Við 4. gr. er verði 5. gr. Greinin orðist svo:
              Á eftir 14. gr. laganna kemur ný grein, 14. gr. a, er orðast svo:
             Nú samþykkir sá sem óskast framseldur til ríkis sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu framsal og getur hann þá jafnframt lýst því yfir að heimilt sé að höfða mál gegn honum eða láta hann taka út refsingu í ríkinu, sem biður um framsal, fyrir annan refsiverðan verknað en þann sem greinir í framsalsbeiðni. Slík yfirlýsing er bindandi nema viðkomandi falli frá samþykki fyrir framsali. Samþykki og yfirlýsing skulu bókuð og samþykkt skriflega hjá lögreglu, ákæruvaldi eða í dómi.
     3.      Við 7. gr. er verði 8. gr. Lokamálsliður greinarinnar orðist svo: Í stað gæsluvarðhalds má beita úrræðum 110. gr. laga um meðferð opinberra mála ef slík úrræði teljast fullnægjandi til að tryggja nærveru dómþola.
     4.      Á eftir 9. gr. er verði 10. gr. komi ný grein er orðist svo:
             Við 1. mgr. 5. gr. laganna bætist nýr stafliður er orðast svo: að halda málaskrá um kærur sem berast lögreglu um afbrot með öllum nauðsynlegum upplýsingum sem mál varða, dagbók lögreglu með upplýsingum um erindi til lögreglu og úrlausn þeirra, skrá yfir handtekna menn og aðrar skrár sem nauðsynlegar eru í þágu löggæsluhagsmuna til að afstýra yfirvofandi hættu eða sporna við afbrotum. Dómsmálaráðherra setur nánari reglur um þessar skrár.
     5.      Við 10. gr. er verði 12. gr. Greinin orðist svo:
              Við 28. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
             Til að sinna landamæravörslu getur ríkislögreglustjóri skipað mann til fimm ára í senn sem ekki hefur lokið prófi frá Lögregluskóla ríkisins og skal hann starfa undir stjórn lögreglumanns sem skipaður er skv. 3. mgr. Hann skal jafnframt vera íslenskur ríkisborgari, ekki hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, vera andlega og líkamlega heilbrigður, hafa lokið a.m.k. tveggja ára almennu framhaldsnámi eða öðru sambærilegu námi með fullnægjandi árangri, hafa gott vald á íslensku og einu Norðurlandamáli auk ensku og hafa lokið prófi fyrir landamæraverði. Dómsmálaráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um nám og prófkröfur vegna prófs fyrir landamæraverði.
     6.      Við 12. gr. er verði 14. gr. Greinin orðist svo:
              Lög þessi öðlast þegar gildi.