Ferill 591. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 893  —  591. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um háskólanám á Austurlandi og Vestfjörðum.

Flm.: Þuríður Backman, Hjálmar Jónsson, Jón Bjarnason,


Pétur Bjarnason, Steingrímur J. Sigfússon.


    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að sjá til þess að haustið 2001 verði komið á fót kennslustöðvum til háskólanáms á Austurlandi og Vestfjörðum undir stjórn Háskólans á Akureyri.

Greinargerð.


    Mikilvægt skref til að tryggja áframhaldandi uppbyggingu byggðar um allt land er að sjá til þess að íbúar á landsbyggðinni eigi greiðan aðgang að menntun á öllum skólastigum. Með hinni öru tækniþróun undanfarinna ára hafa hugmyndir um að stofna námsbrautir í ýmsum byggðarlögum, undir stjórn skólastofnana sem vel geta verið staðsettar annars staðar, fengið byr undir báða vængi.
    Nýlega hafa hugmyndir Háskólans á Akureyri um þróun háskólanáms á Austurlandi og Vestfjörðum undir stjórn skólans verið ræddar í hópi þingmanna í þessum kjördæmum, en Háskólinn á Akureyri hefur lagt kapp á að sérhæfa sig sem háskóli landsbyggðarinnar. Fram kom að skólinn hefur áhuga á að vinna að því koma á fót kennslustöðvum á Egilsstöðum og Ísafirði og hefur gert samþykktir þar um. Í minnisblaði skólans um þetta efni kemur fram að kostnaður við verkefnið á árinu 2001 er talinn verða 31 millj. kr. Hér er gert ráð fyrir að þessi upphæð verði veitt skólanum á fjárlögum.
    Í þessari tillögu er tekið undir fyrirliggjandi hugmyndir skólans um svonefndar kennslustöðvar á Austurlandi og Vestfjörðum. Það er gert með það sjónarmið að leiðarljósi að meiri líkur séu til að háskólanám á Austurlandi og Vestfjörðum geti orðið að veruleika í samvinnu við Háskólann á Akureyri en með stofnun sjálfstæðra háskóladeilda í þessum landsfjórðungum. Háskólinn á Akureyri sinnir nú þegar margháttaðri starfsemi um land allt. Verði þessi hugmynd að veruleika gefst um leið mikilvægt tækifæri til að styrkja tengsl skólans við landsbyggðina og auka möguleika á fjölbreyttari starfsemi, m.a. rannsóknastarfsemi.

Gildi háskólastofnana á landsbyggðinni.
    Í þingsályktun um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1999–2000 sem samþykkt var á Alþingi síðasta vor er m.a. kveðið á um að menntun á háskólastigi verði tekin upp á landsbyggðinni þar sem kostur er, m.a. með samningum milli framhaldsskóla og háskóla. Sérstök áhersla er þar lögð á að á Austurlandi og Vestfjörðum verði nám á háskólastigi í boði svo fljótt sem verða má.

Prentað upp.

    Fátt er mikilvægara nú um stundir en framboð á menntun á öllum skólastigum. Góðir menntunarmöguleikar varða bæði æskufólk og þá sem eldri eru og þörf hafa fyrir endurmenntun og símenntun. Fyrir farsæla byggðaþróun skipta góðir skólar og fjölbreytt framboð á fræðslu afar miklu, sem og samspil skóla við atvinnu- og menningarlíf á viðkomandi svæðum.

Háskólanám á Austurlandi.
    Á Austurlandi gefst nú kostur á háskólanámi og endurmenntun í formi fjarkennslu á vegum Fræðslunets Austurlands sem formlega var stofnað sumarið 1998. Sú starfsemi er gott skref og tengist sérstaklega framhaldsskólum í fjórðungnum. En þar má ekki láta staðar numið. Austfirðingar þurfa á því að halda að rennt verði stoðum undir háskólamenntun í fjórðungnum á völdum sviðum eins og gert hefur verið í flestum öðrum landshlutum. Nægir þar að minna á Háskólann á Akureyri og Samvinnuháskólann á Bifröst. Öllum ber saman um hvílík lyftistöng fræðamiðstöðvar og skólasetur eru fyrir viðkomandi landshluta og um leið fyrir landið allt. Austurland má ekki verða afskipt í þessari þróun og skynsamlegt virðist að tengja háskólanám á Austurlandi þeim háskólastofnunum sem þegar starfa í landinu en ráðast ekki að svo komnu máli í að setja þar upp sjálfstæðan háskóla. Þess má geta að erlendis er sífellt algengara að háskólar stofni kennslustöðvar eða útibú langt frá sínum aðalbækistöðvum og má taka uppbyggingu háskólamenntunar í hálöndum og eyjum Skotlands sem dæmi um það. Hagnýting nútímaupplýsingatækni við fjarkennslu og gagnaflutninga gefur aukin sóknarfæri á þessu sviði.
    Um þessi mál hefur þegar verið fjallað nokkuð á Austurlandi en í lok nóvember sl. óskaði Háskólinn á Akureyri eftir aðstoð Þróunarstofu Austurlands við að kanna undirtektir Austfirðinga við hugmyndir um kennslustöð Háskólans á Akureyri á Austurlandi. Á fundum sem aðilar málsins héldu um þetta efni fögnuðu Austfirðingar því frumkvæði sem Háskólinn á Akureyri sýnir í málinu og lögðu áherslu á að sú leið sem hér er lögð til væri æskileg og miðaði að því að efla háskólamenntun í fjórðungnum.
    Áður hafa verið lagðar fram tillögur um háskólanám á Austurlandi og þá gjarnan horft til Eiða, en þar hefur um langan aldur verið menningar- og menntasetur fjórðungsins. Að þessu sinni er tekin sú afstaða að binda ekki tillöguna við Eiða, enda liggja fyrir fjölmargar áhugaverðar hugmyndir um nýtingu húsakosts og aðstöðu þar. Skynsamlegra virðist á þessu stigi málsins að leggja alla áherslu á að stofnað verði til háskólanáms á Austurlandi en láta liggja milli hluta í hvaða húsakynnum eða hvar í fjórðungnum sú starfsemi fari fram þó að líklegast sé að Egilsstaðir verði fyrir valinu.

Fyrri hugmyndir og tillögur um háskólanám á Austurlandi.
    Á Austurlandi hefur um margt verið unnið brautryðjendastarf í menntamálum og má þar nefna ýmis verkefni til sögunnar. Á árunum 1984–1989 komu þar fram hugmyndir um sérkennslunám fyrir kennara sem leiddu til náms með fjarkennslusniði í samvinnu við Kennaraháskóla Íslands. Frumkvöðlar að málinu voru Berit Johnsen sérkennslufulltrúi og Guðmundur Magnússon fræðslustjóri. Ýtti þessi tilraun meðal annars undir stofnun farskóla Kennaraháskólans 1992.
    Árið 1988 tók Farskóli Austurlands til starfa og var þar um nýmæli í íslenskum fræðslumálum að ræða. Skólinn hefur starfað í tengslum við Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað en starfsemi hans hefur farið fram að heita má í öllum byggðarlögum fjórðungsins. Á vettvangi Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi (SSA) var sumarið 1996 rætt um nauðsyn þess að koma á háskólamenntun á Austurlandi. Aðalfundur SSA 1996 gerði svohljóðandi ályktun um málið:
    „Aðalfundur Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, haldinn í Neskaupstað 29. og 30. ágúst 1996, felur stjórn SSA að undirbúa í samvinnu við stjórnvöld og forsvarsmenn skóla á háskólastigi að koma á fót háskólamenntun á Austurlandi í tengslum við austfirskt atvinnulíf og til að efla þekkingu og menntun í fjórðungnum.“
    Þá er þess að geta að haustið 1996 fluttu þrír þingmenn Austurlandskjördæmis, Hjörleifur Guttormsson, Arnbjörg Sveinsdóttir og Jón Kristjánsson, tillögu til þingsályktunar um upplýsinga- og fræðslumiðstöð háskólastigsins á Austurlandi. Var tillagan endurflutt ári síðar undir heitinu Miðstöð háskóla- og endurmenntunar á Austurlandi. Um tillöguna var fjallað í menntamálanefnd en hún hlaut ekki fullnaðarafgreiðslu. Framangreind þingsályktunartillaga ýtti þó undir að stofnað var til háskólanefndar á vegum SSA haustið 1996, en sú nefnd, undir formennsku Emils Björnssonar, undirbjó og mótaði tillögur um Fræðslunet Austurlands sem tók til starfa sumarið 1998. Var meðal annars fjallað um málið á aðalfundi SSA 1997 og á fundum með þingmönnum kjördæmisins. Var fjármagn veitt til undirbúnings á fjárlögum fyrir árið 1998. Samkvæmt skipulagsskrá Fræðslunets Austurlands frá 30. október 1998 er meginmarkmið þess að bæta aðgengi íbúa fjórðungsins að háskólanámi og símenntun og styrkja með því jákvæða byggðaþróun. Fræðslunetið er skipulagt sem sjálfseignarstofnun með tíu manna stjórn stofnaðila.
    Austfirðingar hafa fagnað hugmyndum Háskólans á Akureyri um háskólanám á Austurlandi, enda hafa þeir markvisst unnið að því að komið verði á fót háskólanámi í fjórðungnum eins og fyrr er nefnt. Leggja þarf áherslu á að skipulagning og uppbygging námsins fari fram í nánum tengslum við heimamenn.

Vestfirðingar og fjarnám á háskólastigi.
    Segja má að í meira en áratug hafi háskólanám verið stundað á Vestfjörðum með fjarkennslusniði, einkum á vegum Kennaraháskóla Íslands, Fósturskóla Íslands og nú einnig frá Háskólanum á Akureyri. Upphaf þess má rekja til svonefnds starfsleiknináms sem um sextíu kennarar (og leiðbeinendur) á Vestfjörðum stunduðu á árunum 1989–1993. Þetta var tveggja ára nám á vegum Kennaraháskóla Íslands sem unnt var að stunda samhliða starfi og var styrkt af menntamálaráðuneytinu.
    Einnig stuðluðu Vestfirðingar að stofnun Fjarskóla Kennaraháskóla Íslands sem hóf störf 1993 og í fyrsta hópnum sem brautskráðist af þeirri námsbraut 1996 var fjórðungur nemenda frá Vestfjörðum. Þessi áhugi Vestfirðinga. hefur m.a. orðið til þess að kennurum, sem lokið hafa B.Ed. prófi, hefur fjölgað á Vestfjörðum. Nokkur fjöldi kennara af Vestfjörðum sótti einnig framhaldsnám í sérkennslufræðum sem boðið var upp á í samstarfi Kennaraháskóla Íslands og fræðsluyfirvalda á Vesturlandi og Vestfjörðum og lauk þaðan hluta meistaraprófs með sérstakri áherslu á sérkennslu.
    Þá er þess að geta að fyrir rúmum tveimur árum (haustið 1998) hófu tíu nemendur á Vestfjörðum nám í hjúkrunarfræðum sem þeir stunda við Háskólann á Akureyri og mun þar vera um að ræða fyrstu námsbraut Háskólans á Akureyri sem eingöngu er kennd í fjarnámi með aðstoð tölva og fjarfundarbúnaðar.
    Farskóli Vestfjarða var stofnaður í byrjun árs 1990 og hefur staðið fyrir námskeiðahaldi vítt um Vestfirði á fjölmörgum sviðum atvinnulífs og menntunar af miklum þrótti, en Farskólinn starfaði alla tíð í nánum tengslum við Menntaskólann á Ísafirði.
    Haustið 1999 var svo Fræðslumiðstöð Vestfjarða stofnuð sem auk þess að hafa tekið við hlutverki Farskóla Vestfjarða er ætlað að vera vettvangur fyrir nám á háskólastigi í fjórðungnum og standa fyrir námi sem ekki heyrir undir námskrárbundið nám á grunn- og framhaldsskólastigi. Fræðslumiðstöðin yrði því tengiliður og starfsvettvangur háskólanámsins fyrir fjórðunginn.
    Heimamenn á Vestfjörðum hafa sýnt þeim hugmyndum sem fram koma í þessari þingsályktunartillögu mikinn áhuga og eru sammála um mikilvægi þess að fundnar verði leiðir til að bjóða upp á háskólanám á Vestfjörðum, enda er slíkt talin ein helsta leiðin til að efla og styrkja byggð á svæðinu.

Hvaða námsbrautir koma til álita?
    Í gögnum Háskólans á Akureyri, þar sem þessar hugmyndir eru kynntar, er gerð grein fyrir þeim námsbrautum sem hugsanlegt væri að byrja með á Austurlandi og Vestfjörðum. Mikilvægt er að skólinn fái í byrjun tækifæri til að bjóða þær námsbrautir sem hann telur sig best búinn til að sinna. Jafnframt er æskilegt að á komandi árum verði litið til nýrra möguleika sem taka sérstaklega mið af atvinnu, samfélagi og staðháttum í þeim byggðarlögum sem um er að ræða hverju sinni.
    Á Austurlandi væri t.d. skynsamlegt að þróa, í samráði við heimamenn, háskólanámsbrautir á sviði ferðaþjónustu, umhverfisfræða og tengdra greina, svo sem á sviði landnota, gróður- og jarðvegsverndar og skógræktar. Slíkar námsbrautir tengdust vel vísinda- og fræðastarfi sem þegar fer fram í fjórðungnum, t.d. við Náttúrustofu Austurlands og hjá Skógrækt ríkisins.
    Á Vestfjörðum má hugsa sér námsbrautir sem t.d. tengjast ferðaþjónustu, sjávarútvegi og matvælaiðnaði. Námsbrautirnar þarf að tengja þeirri vísindastarfsemi sem þegar fer fram á Vestfjörðum, svo sem starfsemi Hafrannsóknastofnunarinnar, Náttúrustofu Vestfjarða og Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins.
    Auk þessa má nefna að bæði á Austurlandi og Vestfjörðum væri áhugavert að sjá háskólanámsbrautir starfa á sviði sagnfræði og mannfræði þar sem sérstaklega væri fjallað um mannlíf og samfélag eyðibyggðanna annars vegar á Ströndum og hins vegar í eyðifjörðum á Austurlandi þar sem áður var blómlegt mannlíf.
    Þótt þessir möguleikar séu kynntir hér er engu að síður nauðsynlegt að ítreka að farið verði með opnum huga yfir sviðið og horft til mismunandi kosta. Á Austurlandi og á Vestfjörðum þarf einnig að leggja áherslu á að kennslustöðvar undir stjórn Háskólans á Akureyri bjóði upp á margvísleg námskeið og endurmenntun á háskólastigi.

Samvinna við aðrar háskólastofnanir.
    Í þessari þingsályktunartillögu er gert ráð fyrir að háskólanámsbrautir á Austurlandi og Vestfjörðum heyri undir Háskólann á Akureyri. Engu síður er nauðsynlegt að gera ráð fyrir sem bestum tengslum þessara háskólanámsbrauta við aðrar háskólastofnanir, svo sem Háskóla Íslands, Kennaraháskóla Íslands, Samvinnuháskólann á Bifröst og háskóladeildir menntastofnana landbúnaðarins á Hvanneyri og Hólum í Hjaltadal, svo og Garðyrkjuskóla ríkisins að Reykjum í Ölfusi. Jafnframt er sjálfsagt að gera ráð fyrir fullkomnustu aðstöðu til fjarkennslu með nettengslum við aðrar háskólastofnanir í landinu og góðri aðstöðu til rannsóknastarfsemi.
    Gera má ráð fyrir að þáttur í starfi háskóladeilda af því tagi sem hér er fjallað um yrði stuðningur við þá sem kunna að stunda fjarnám við aðrar háskólastofnanir og þannig auka tækifæri skóla til samvinnu og samræmingar í starfi. Mjög hefur verið litið til þess að fjarnám af ýmsu tagi auðveldi aðgang fólks úti á landi að ýmiss konar menntun. Það er vissulega rétt, en þó er ekki öll sagan sögð. Fjarnám reynist nemendum sem það stunda oft afar erfitt og kemur þar einkum tvennt til, annars vegar sú staðreynd að nemandi og kennari eru ekki í sams konar persónulegu sambandi og við hefðbundið nám og hins vegar hin mikla einsemd fjarnemans sem situr einn við tölvu sína en fær ekki þann stuðning og félagsskap samnemenda sem hefðbundið skólasamfélag býður upp á.

Mikilvæg pólitísk stefnumörkun.
    Ákvörðun um að koma á fót háskólanámi á Austurlandi og á Vestfjörðum gæti haft mikið gildi fyrir þessi landsvæði og um leið fyrir háskólamenntun í landinu. Þótt hér sé stefnt að því að stofna háskóladeild undir stjórn Háskólans á Akureyri yrði það væntanlega aðeins fyrsta skref í uppbyggingu öflugra sjálfstæðra háskólastofnana. Þróun á sviði menntamála er ör og gildi framhaldsmenntunar eykst ár frá ári. Landsfjórðungar eins og Vestfirðir og Austurland mega ekki verða þar afskiptir.