Ferill 624. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1420  —  624. mál.
Svarfélagsmálaráðherra við fyrirspurn Rannveigar Guðmundsdóttur um viðbótarlán Íbúðalánasjóðs.

     1.      Hver var fjöldi umsókna um viðbótarlán Íbúðalánasjóðs og heildarfjárhæð þeirra frá janúar 1999 til apríl 2000?
    Einstaklingar eða fjölskyldur snúa sér til viðkomandi húsnæðisnefndar sem samþykkir eða synjar veitingu viðbótarláns. Til Íbúðalánasjóðs berast eingöngu umsóknir sem húsnæðisnefndir hafa samþykkt. Upplýsingar um fjölda umsókna um viðbótarlán liggja því ekki fyrir hjá Íbúðalánasjóði.

     2.      Hver var fjöldi veittra viðbótarlána, heildarfjárhæð þeirra og meðalfjárhæð á tímabilinu?
    Fjöldi veittra viðbótarlána á tímabilinu var 1.556 og heildarfjárhæð þeirra 2.320.887.759 kr. Meðalfjárhæð var því 1.491.573 kr. Á fimm ára tímabili frá 1993 til 1997 voru veitt 622 lán til félagslegra eignaríbúða eða að meðaltali um 124 íbúðir á ári.

     3.      Hvert var meðalkaupverð íbúða sem veitt voru viðbótarlán út á?
    Meðalkaupverð íbúða sem veitt voru viðbótarlán út á var 6.819.000 kr.

     4.      Hver var meðalfjárhæð viðbótarlána sem hlutfall af meðalkaupverði íbúða sem veitt voru viðbótarlán út á?
    Meðalfjárhæð viðbótarlána sem hlutfall af meðalkaupverði íbúða var 21,9%.

     5.      Hver voru að meðaltali mánaðarlaun íbúðarkaupenda sem fengu viðbótarlán á tímabilinu?
    Mánaðarlaun íbúðarkaupenda sem fengu viðbótarlán voru að meðaltali 216.000 kr.

     6.      Hver var að meðaltali mánaðarleg greiðslubyrði allra lána íbúðarkaupenda sem fengu viðbótarlán?
    Upplýsingar um greiðslubyrði allra lána íbúðarkaupenda eru ekki aðgengilegar hjá Íbúðalánasjóði.
    Upplýsingar um lán kaupenda eru í tveimur skrám, í greiðslumatsforriti sem unnið er af lánastofnunum og umsóknaskrá Íbúðalánasjóðs. Upplýsingar í greiðslumati byggjast ekki á samþykktu kauptilboði þannig að lántökur umsækjenda geta orðið allt aðrar en þar koma fram þegar upp er staðið. Í umsóknaskrá Íbúðalánasjóðs, sem byggist á samþykktum kauptilboðum, eru skráð ný fasteignaveðbréf, yfirtekin fasteignaveðbréf, ný og yfirtekin viðbótarlán og lán frá öðrum lánastofnunum með veði í eigninni. (Yfirleitt er hér um að ræða langtímalán, svo sem lífeyrissjóðslán o.þ.h.) Athugun leiðir í ljós að skráð lán í umsóknarskrá eru í flestum tilfellum 90% af kaupverði. Greiðslubyrði þeirra var um 34.000 kr. á mánuði, en þar dragast í flestum tilfellum frá vaxtabætur. Inn í myndina vantar þá hugsanlega lántökur vegna greiðslu á 10% af kaupverði, að hluta eða öllu leyti.

     7.      Hve margir lántakendur eru í vanskilum með viðbótarlán, þriggja mánaða eða eldri?
    Í eftirfarandi töflu er yfirlit yfir fjölda lána í vanskilum, þriggja mánaða og eldri, sundurgreind eftir mánuðum og sveitarfélögum. Miðað er við gjalddagann 1. janúar 2000. Í Reykjavík, svo að dæmi sé tekið, voru samtals 24 lántakendur í vanskilum. Þannig voru sjö lán í vanskilum frá og með gjalddaganum 1. janúar 2000, sex frá og með gjalddaganum 1. desember 1999 o.s.frv.

Sveitarfélag Fjöldi lántaka Gjalddagar
Reykjavík 1 01.06.1999
1 01.07.1999
2 01.08.1999
2 01.09.1999
1 01.10.1999
4 01.11.1999
6 01.12.2000
7 01.01.2000
Samtals 24
Kópavogur 1 01.01.2000
Seltjarnarnes 1 01.07.1999
Hafnarfjörður 1 01.09.1999
0 01.10.1999
1 01.11.1999
1 01.12.2000
2 01.01.2000
Samtals 5
Mosfellsbær 1 01.01.2000
Grindavík 1 01.01.2000
Gerðahreppur 1 01.01.2000
Vatnsleysustrandarhreppur 1 01.01.2000
Ísafjörður 1 01.12.2000
Akureyri 1 01.10.1999
0 01.11.1999
0 01.12.2000
3 01.01.2000
Samtals 4
Seyðisfjörður 1 01.10.1999
Hornafjörður 1 01.01.2000
Þorlákshöfn, Ölfushreppur 1 01.01.2000
Samtals 43