Afgreiðsla frumvarps um málefni öryrkja

Mánudaginn 15. janúar 2001, kl. 13:52:51 (3551)

2001-01-15 13:52:51# 126. lþ. 56.94 fundur 243#B afgreiðsla frumvarps um málefni öryrkja# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 126. lþ.

[13:52]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ef það verkefni sem biði Alþingis nú væri að afgreiða einfalda greiðsluheimild til að greiða þegar í stað óskerta tekjutryggingu og virða dóm Hæstaréttar að fullu og refjalaust, þá væri það einfalt og fljótafgreitt mál og af okkar hálfu væri um slíkt full samstaða, þó færa megi fyrir því gild rök að Tryggingastofnun hefði átt að gera þetta þegar um síðustu áramót og ríkisstjórnin hafi þar á ofan í sínu valdi að fullnægja formsatriðum sem varða greiðslur úr ríkissjóði þegar óvæntar aðstæður skapast. Þetta liggur fyrir. En viljann skorti.

En það er annað sem á að fara að láta Alþingi gera hér, að okkar mati, það er að framlengja löggjöf sem felur í sér stjórnarskrárbrot og hefur verið dæmd sem slík. Það er vissulega fremur óvenjulegt að því sé hafnað að taka mál á dagskrá með afbrigðum. En það er þó þannig að síður en svo er sjálfgefið að afbrigði séu alltaf veitt. Það ræðst af aðstæðum sem fyrir liggja. Ákvæði 36. gr. þingskapa um að líða skuli minnst tvær nætur frá því að málum er útbýtt og þangað til þau eru rædd eru ekki sett að ástæðulausu. Þau eru í fyrsta lagi sett til þess að þingmenn hafi nokkurt tóm til að kynna sér mál eftir að þau koma fram. Þau eru í öðru lagi sett til þess að undirstrika að Alþingi er ekki færiband fyrir framkvæmdarvald þó að núverandi framkvæmdarvaldshafar vilji að það sé þannig og ætlist til þess að svo sé. En samkvæmt stjórnskipun landsins er það ekki þannig að Alþingi eigi að vera færiband sem lúti í einu og öllu valdi framkvæmdarvaldsins.

Í þriðja lagi er það auðvitað þannig að ef þingmenn eða hópur þingmanna metur það svo að mál sé stórkostlega gallað, óhæft eða óþingtækt, feli t.d. í sér ætlað brot á stjórnarskránni, þá hafa menn þó þessi réttindi til að taka saman vopn sín áður en umræður um slíka hluti hefjast. Ekki er hægt að ætlast til þess að þingmenn sem eru þessarar skoðunar greiði götu þingmála m.a. með því að fallast á afbrigði frá þingsköpum.

Í þessu máli háttar þannig til að ríkisstjórnin hefur í einu og öllu framfylgt valdhroka- og yfirgangsaðferðafræði sinni. Engar tilraunir voru gerðar til að ræða við stjórnarandstöðuna um meðferð málsins, engir fundir boðaðir. Henni var ekki kynnt það, henni var ekki sent það, ekki var rætt um hvort fallist yrði á afbrigði, hvort hægt væri að ná samkomulagi um málsmeðferðina o.s.frv. Þannig að í þessu tilviki, herra forseti, og vegna þess hvað málið er stórt og alvarlegt og vegna þess hvernig ríkisstjórnin hefur hegðað sér bæði gagnvart stjórnarandstöðunni og fjöldasamtökum í landinu eru engar forsendur til að fallast á afbrigði í þessu tilviki og ég greiði með góðri samvisku atkvæði gegn því að málið verði nú tekið á dagskrá en mun hins vegar ræða það ítarlega þegar þar að kemur.