Afgreiðsla frumvarps um málefni öryrkja

Mánudaginn 15. janúar 2001, kl. 13:58:28 (3553)

2001-01-15 13:58:28# 126. lþ. 56.94 fundur 243#B afgreiðsla frumvarps um málefni öryrkja# (aths. um störf þingsins), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 126. lþ.

[13:58]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Augljóst er að stjórnarandstaðan treystir sér ekki til að fara í þessa umræðu núna. Það kemur mér mjög á óvart að hún skuli láta þjóðina bíða eftir því í tvo daga að hér megi fara fram umræður um þetta mikilvæga mál. Ríkisstjórnin var svo sannarlega tilbúin til að fara í umræðu um þetta mál og ekki vanþörf á að leiðrétta alls konar misskilning og rangfærslur sem í gangi hafa verið.

En þar sem þetta er komið fram af hálfu forustumanna stjórnarandstöðunnar að þeir treysta sér ekki til að ræða málið opinskátt hér í þingsalnum, þeir treysta sér ekki til þess, er sjálfsagt að bíða með málið og þá föllum við frá beiðni um að afbrigða verði leitað og ræðum þetta mál á miðvikudaginn kemur.