Framlagning frumvarps um málefni öryrkja

Mánudaginn 15. janúar 2001, kl. 14:00:12 (3554)

2001-01-15 14:00:12# 126. lþ. 56.93 fundur 242#B framlagning frumvarps um málefni öryrkja# (um fundarstjórn), SvH
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 126. lþ.

[14:00]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Það var fyrir réttum hálftíma að ég fékk augum litið það frumvarpsóbermi sem skósveinar ríkisstjórnarinnar hafa sett saman og á að gera að lögum á Alþingi.

Herra forseti. Vill ekki hæstv. forseti gá að því hjá sér hvort hann er ekki að fremja þingsafglöp með því að leyfa framlagningu þessa frv.? Þetta er óþinglegt í hæsta máta. Framkvæmdarvaldið sem starfar í umboði Alþingis hefur sett saman eða látið vinna þetta frv. sem hrindir dómi æðsta dómstóls þjóðarinnar ef að lögum verður. Þetta frv. er þingmönnum sem hafa unnið drengskaparheit að stjórnarskránni ætlað að samþykkja.

Sá sem hér stendur hlýtur að segja þvert nei við afbrigðum um að svo fráleitt mál megi koma fyrir til umræðu og afgreiðslu.