Meðferð opinberra mála

Mánudaginn 15. janúar 2001, kl. 14:26:32 (3565)

2001-01-15 14:26:32# 126. lþ. 57.1 fundur 367. mál: #A meðferð opinberra mála# (opinber rannsókn) frv., JÁ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 126. lþ.

[14:26]

Jóhann Ársælsson (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég tek alveg skýrt fram að ég ætla ekki að biðjast undan því að mál mitt sem hér er á dagskrá verði tekið fyrir í dag. Ég hef nefnilega brennt mig á því áður á Alþingi að ef stjórnarandstöðuþingmaður biður um frestun á máli sínu er ekki víst að það birtist á dagskrá Alþingis fljótlega aftur. Það mál sem hér um ræðir birtist á dagskrá Alþingis einhvern tíma í nóvember og hefur ekki fengist inn á dagskrá síðan en birtist aftur núna með þeim fyrirvara sem hér er.

Ég vildi mótmæla þessu. Ég tel að þau vinnubrögð sem hafa verið höfð í þinginu að þingmönnum hefur verið gerð grein fyrir því að mál þeirra yrðu á dagskrá þannig að þeir gætu verið tilbúnir og brygðust við því hafi verið til fyrirmyndar og eigi að vera þannig áfram.

Hæstv. forseti hefur greinilega rokið til með einhverjum andfælum í morgun að ákveða að þetta yrði svona að taka upp þriðja fund af því að hann hefur ekki gert ráð fyrir því að stjórnarandstaðan nýtti þann möguleika sinn að koma í veg fyrir að tekið yrði fyrir það mál sem hér hefur verið mest rætt í dag þó það hafi ekki komist á dagskrá. Þá verður honum það fyrst fyrir að nú þurfi hann að fara að undirbúa það þinghald sem búið var að boða til að ætti að fara af stað í dag. Svo seint er í rassinn gripið hjá hæstv. forseta. Hann var ekki búinn að vinna heimavinnuna sína. Þess vegna er þetta uppþot í hv. Alþingi. Mér finnst full ástæða þegar hæstv. forseti hefur ekki staðið sig betur en þetta að hann fái að heyra það frá hv. alþm.