Meðferð opinberra mála

Mánudaginn 15. janúar 2001, kl. 14:40:42 (3572)

2001-01-15 14:40:42# 126. lþ. 57.1 fundur 367. mál: #A meðferð opinberra mála# (opinber rannsókn) frv., KPál (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 126. lþ.

[14:40]

Kristján Pálsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Marga hefur rekið í rogastans yfir þeirri umræðu sem farið hefur fram í dag. Það er ekkert skrýtið. Málflutningur stjórnarandstöðunnar hefur verið með eindæmum og ég held að allri þjóðinni hnykki við að hlusta á rök hennar fyrir því að ræða ekki málefni öryrkja sem hafa í augum flestra átt að hafa forgang í þinginu og hjá ríkisstjórninni. Menn hafa lagst á eitt um að gera þetta mál aðgengilegt fyrir þingið og aðra til að fjalla faglega um það. En þegar óskað er eftir að taka það til umræðu í þinginu þá er það ekki samþykkt af hálfu stjórnarandstöðunnar, að taka málið til eðlilegrar umræðu.

Það er eins og þessi skilaboð hafi ekki verið látin ganga til ríkisstjórnarinnar eða stjórnarflokkanna þannig að einfaldlega hefði verið hægt að fresta þessum þingfundi.

Herra forseti. Ég get vel skilið að það verði uppnám eftir þessa makalausu uppákomu stjórnarandstöðunnar. Út af fyrir sig er vart hægt að ræða önnur mál úr þessu. Það er með ólíkindum hvernig stjórnarandstaðan, þegar hún telur sig hafa mál í höndunum sem hún telur að gæti komið sér illa fyrir ríkisstjórnina eða stjórnarmeirihlutann, gengur fram. Það snýst upp í að koma þeim verst sem átti að leiðrétta málin hjá, þ.e. öryrkjum. Stjórnarandstaðan sneri dæminu þannig að öryrkjar tapa en stjórnin ætlaði hins vegar að flýta þessum leiðréttingum sem kostur var. Þetta er aumur vitnisburður stjórnarandstöðunnar í þessu máli, því miður. Ég verð að segja að ég vorkenni stjórnarandstöðunni að standa uppi með þennan kaleik.