Tóbaksvarnir

Mánudaginn 15. janúar 2001, kl. 15:01:55 (3576)

2001-01-15 15:01:55# 126. lþ. 57.2 fundur 345. mál: #A tóbaksvarnir# (markaðssetning, tóbaksmengun o.fl.) frv., heilbrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 126. lþ.

[15:01]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um tóbaksvarnir.

Aðdragandi og gerð frv. er sá að ég fól tóbaksvarnanefnd að gera tillögur að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tóbaksvarnir. Í ljósi reynslunnar af síðustu breytingum á lögunum, aukinnar þekkingar á skaðsemi reykinga og harðari afstöðu almennings til þessa vágests, bæði hér á landi og í alþjóðasamfélaginu, er tímabært að leita frekari leiða til að draga úr reykingum. Íslendingar hafa verið í fararbroddi í tóbaksvörnum meðal þjóða heims og er það ætlun mín og tóbaksvarnanefndar að svo verði áfram.

Markmið frv. er að draga úr reykingum, bæði meðal fullorðinna, barna og unglinga með því að herða enn baráttuna gegn reykingum og tryggja enn betur rétt þeirra sem ekki reykja. Er réttur barna tryggður sérstaklega í þessu sambandi.

Allmiklar breytingar voru gerðar á lögum um tóbaksvarnir, nr. 74/1984, með lögum nr. 101/1996, í því skyni að efla tóbaksvarnir í landinu. Í ljós hefur komið að enn þarf að bæta þessa löggjöf með nýjum og fyllri ákvæðum, einkum varðandi markaðssetningu og sölu tóbaks og vernd gegn tóbaksmengun andrúmslofts. Frumvarp þetta er byggt á tillögum nefndarinnar og unnið í samráði við heilbr.- og trmrn.

Alkunna er að tóbaksneysla veldur miklum og margvíslegum heilsuspjöllum. Hafa ber í huga að þeir sem deyja í dag af völdum reykinga eru reykingamenn gærdagsins. Þeir sem deyja á morgun eru þeir sem reykja og byrja að reykja í dag.

Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá Hjartavernd deyja um 370 manns á ári á Íslandi af völdum reykinga eða meira en einn Íslendingur á dag, alla daga ársins. Fjöldi látinna af völdum tóbaksnotkunar hérlendis samsvarar því að tvær farþegaþotur farist árlega fullar af Íslendingum eða hérlendis yrðu tíu stór rútuslys. Fimmta hvert dauðsfall á Íslandi er af völdum reykinga. Þriðja hvert dauðsfall hjá fólki í blóma lífsins á Íslandi, 35--69 ára, má rekja til reykinga. Hætt er við að önnur efni eða önnur lyf sem yllu álíka búsifjum yrðu fljótt bönnuð. Okkur er því skylt að gera ráðstafanir til að hefta útbreiðslu þessa vágests í nútímasamfélagi og við berum ábyrgð á því gagnvart komandi kynslóðum.

Heilbrigðisáætlun til ársins 2010 hefur sett það meginmarkmið að ná hlutfalli daglegra reykinga meðal fullorðinna niður fyrir 20%. Til að ná þessu markmiði verður að taka rækilega til hendinni. Ná þarf til unglinga sem er helsti áhættuhópurinn og forða þeim frá því að byrja að reykja og fá þá sem reykja til að hætta. Árangur fólks sem reynir að hætta að reykja er ekki ávallt góður og margir þurfa aðstoð og hvatningu. Í frv. er því gerð tillaga um að fækka svæðum þar sem reykingar eru leyfðar því að rannsóknir sýna að með því að banna og takmarka reykingar sem víðast dregur úr reykingum og reykingamönnum veitist auðveldara að hætta.

Skaðsemi reykinga er óumdeilanleg og hið sama á við óbeinar reykingar. Sé það val reykingamanns að reykja er það að sama skapi réttur þess sem ekki reykir að þurfa ekki að anda að sér tóbaksreyk reykingamanns. Í frv. er kveðið sérstaklega á um rétt barna til reyklauss umhverfis, bæði á heimilum sínum og annars staðar. Allir eru sammála um að vernda eigi börn fyrir tóbaksreyk og grípa verður til nauðsynlegra ráðstafana sem duga í því skyni.

Í frumvarpinu er lagt til að meira fé verði lagt til forvarna. Tóbaksvarnanefnd hefur þegar varið tugum milljóna króna í fræðsluefni handa skólum en telur að gera verði betur til að vernda kynslóðir framtíðarinnar. Hingað til hefur ekki verið hægt að tryggja að öll grunnskólabörn fái tóbaksvarnafræðslu þótt lög geri ráð fyrir að svo sé. Skólakerfið ber líka skyldu hvað varðar fræðslu um tóbaksvarnir en þar er það hluti af uppeldisstarfi skólanna. Með auknu framlagi til forvarna og frekari samvinnu við sveitarstjórnir er unnt að leysa þann vanda.

Rannsóknir staðfesta að það er fjárhagslega mjög hagkvæmt að fjárfesta í tóbaksvörnum. Þannig má koma í veg fyrir að menn byrji að reykja, fá menn til að draga úr reykingum og sannfæra þá um að þeim beri að hætta að reykja. Algjört forgangsverkefni er að koma í veg fyrir að börn og unglingar fari að reykja því að rannsóknir sýna að átta af hverjum tíu reykingamönnum byrjuðu að reykja fyrir 18 ára aldur. Það er einnig afar mikilvægt að geta veitt reykingamönnum stuðning við að hætta að reykja. Um 80% þeirra vilja hætta en mörgum reynist það erfitt.

Í frv. er lagt til að sérstakt leyfi heilbrigðisnefnda þurfi til að selja tóbak í smásölu. Full ástæða er til að kveða á um það með lögum hverjir megi selja tóbak og binda smásölu þess við sérstakt leyfi.

Skráning sú sem leiðir af leyfisskyldu ætti að auðvelda eftirlit með sölustöðum tóbaks og yfirsýn yfir söluna. Vænta má að leyfisskylda verði til þess að sölustöðum fækki og við það dragi úr heildarsölu tóbaks.

Enda þótt bannað sé að selja börnum og unglingum tóbak er það vel þekkt að unglingar eiga ekki í neinum erfiðleikum með að fá tóbak keypt. Brýnt er að leita leiða til að hindra þá sölu eða draga sem mest úr henni. Í því sambandi er einkum mikilvægt að fá heimild til leyfissviptingar eins og kveðið er á um í 15. gr. þessa frumvarps. Það ætti að veita seljendum aukið aðhald um að fylgja ákvæðum laganna.

Samkvæmt könnun Hagvangs í maí 1992 voru 85% þeirra sem afstöðu tóku hlynnt þeirri hugmynd að binda tóbakssölu við sérstök leyfi sem sölustaðir gætu misst fyrir að selja börnum tóbak.

Virðulegi forseti. Ég mun rekja nokkur helstu nýmæli frv. Samkvæmt ákvæði 1. gr. frv. er réttur fólks til reyklauss andrúmslofts afdráttarlaust viðurkenndur og sérstaklega kveðið á um rétt barna. Réttur til hreins og ómengaðs andrúmslofts er meðal mikilvægustu og jafnframt sjálfsögðustu réttinda hvers manns.

Í 6. gr. frv. er bannað að setja hér á markað tóbaksvörur undir vörumerkjum sem þegar er þekkt sem merki fyrir aðra vöru eða þjónustu. Enn fremur er í 6. gr. frv. sett bann við hvers konar framlögum til viðburða eða starfsemi í því skyni að hafa þau áhrif beint eða óbeint að kynna tóbak. Loks er í 6. gr. mælt fyrir um að tóbaki skuli komið þannig fyrir á sölustöðum að það blasi ekki við viðskiptavinum, þ.e. uppstilling á tóbaki á sölustöðum er bönnuð.

Í 7. gr. frv. er kveðið á um að þeir einir sem orðnir eru 18 ára megi selja tóbak. Þykir eðlilegt að sama aldurstakmark gildi um heimild til að hafa tóbak með höndum og til að selja það öðrum. Ráðherra er í 7. gr. frv. veitt almenn heimild til að ákveða í reglugerð hámark skaðlegra efna í tóbaki og tóbaksreyk. Lagt er til að sérstakt leyfi þurfi til að mega selja tóbak í smásölu og heilbrigðisnefnd viðkomandi eftirlitssvæðis annist útgáfu leyfanna. Sveitarfélögum er heimilt að innheimta gjald vegna leyfisveitinga og eftirlits.

Í 8. gr. frv. er hnykkt á hinni víðtæku meginreglu gildandi laga um bann við reykingum þar sem almenningur sækir sér afgreiðslu eða þjónustu. Nær bannið nú til hvers kyns menningar- og félagsstarfsemi, íþrótta- og tómstundahúsa og veitingahúsa. Í núgildandi lögum eru veitinga- og skemmtistaðir sérstaklega undanþegnir reykingabanni að öðru leyti en því að þeir skuli hafa afmarkaðan fjölda veitingaborða þar sem reykingar eru bannaðar, þ.e. reyklaus svæði. Nú þykir fyllilega orðið tímabært að snúa dæminu við og hafa réttinn til hreins lofts í fyrirrúmi á þessu sviði. Samkvæmt frv. er aðalreglan því sú að reykingar eru bannaðar á veitinga- og skemmtistöðum. Heimilt er þó að reykja á afmörkuðum svæðum að teknu tilliti til réttar hvers manns til hreins andrúmslofts og skal loftræsting vera fullnægjandi þannig að ekki sé um að ræða reykmettun andrúmslofts frá svæðinu þar sem reykingar eru leyfðar. Þessi heimild byggist einkum á því mati að óraunhæft sé að sinni að banna reykingar með öllu á veitinga- og skemmtistöðum.

Eftirspurn eftir reyklausum gistiherbergjum á hótelum og öðrum gististöðum hefur farið ört vaxandi að undanförnu og er nú í fyrsta sinn kveðið á um þetta efni í íslenskum lögum. Er í 8. gr. frv. gerður greinarmunur á hótelum og gistiheimilum annars vegar, en þar má leyfa reykingar í tilteknum herbergjum og ekki meira en í helmingi herbergjafjöldans á hverjum stað, og gistiskálum hins vegar, en þar eru reykingar bannaðar.

Þá er í 8. gr. frv. kveðið á um að reykingar séu bannaðar í sameignarhúsrými í fjölbýlishúsum. Loks er í 8. gr. heimild til að setja almennar reglur um takmörkun reykinga og annarrar tóbaksneyslu utan dyra á íþróttasvæðum. Er þar bæði litið til heilbrigðis- og fordæmissjónarmiðs.

Þá gerir frv. ráð fyrir að ekki aðeins reykingar heldur öll önnur tóbaksneysla sé bönnuð í grunnskólum, leikskólum og í húsakynnum og samkomum sem einkum eru fyrir ungmenni.

Í 11. gr. frv. er staðfest skylda vinnuveitanda til að sjá til þess að starfsfólk njóti réttar til að vinna í reyklausu umhverfi. Má fullyrða að skorður við tóbaksreykingum á vinnustöðum séu mikilvægur þáttur í vinnu- og umhverfisverndun.

Í frv. er gert ráð fyrir að ríkisframlag til tóbaksvarna hækki úr 0,7% í 0,9% og samkvæmt kostnaðarmati fjmrn. nemur hækkunin um 12 millj. kr.

Í 15. gr. frv. er bætt við í 2. mgr. 17. gr. laganna ákvæði þess efnis að heimilt sé að svipta leyfishafa leyfi gerist hann brotlegur. Í 15. gr. er heimild til leyfissviptingar sé brotið gegn ákvæðum 8. gr. laganna og sé brotið ítrekað eða stórfellt er sú heimild hjá heilbrigðisnefndum á viðkomandi eftirlitssvæði.

Rísi ágreiningur um ákvörðun heilbrigðisnefnda skal vísa málinu til sérstakrar úrskurðarnefndar sem starfar skv. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998. Tilgangur þessa ákvæðis er að veita seljendum aðhald um að fylgja ákvæðum laganna og leitast við að hindra aðgengi unglinga að tóbaki.

Í 16. gr. frv. eru refsiviðurlög við brotum á ákvæðum laganna samræmd og viðurlög þyngd.

Virðulegi forseti. Ég hef farið yfir aðdraganda þess að ég legg fram frv. til laga um breytingu á lögum um tóbaksvarnir. Ég tel afar brýnt að frv. nái fram að ganga á þessu þingi og leyfi mér því að leggja til að frv. verði vísað til heilbr.- og trn. og til 2. umr.