Tóbaksvarnir

Mánudaginn 15. janúar 2001, kl. 15:13:57 (3577)

2001-01-15 15:13:57# 126. lþ. 57.2 fundur 345. mál: #A tóbaksvarnir# (markaðssetning, tóbaksmengun o.fl.) frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 126. lþ.

[15:13]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Það vekur athygli mína að í athugasemdum við 2. gr. þessa frv. er lagt til að 2. mgr. 2. gr. núgildandi laga verði felld niður. Um er að ræða ákvæði um að lögin gildi einnig um varning sem ætlaður er til neyslu með sama hætti og tóbak þótt hann innihaldi ekki tóbak, og segir svo: ,,Í athugasemd um ákvæði þetta í frumvarpi til laga um tóbaksvarnir, sem samþykkt var sem lög nr. 74/1984, voru svokallaðar gervisígarettur teknar sem dæmi um slíkan varning. Ekki hefur reynt á þetta ákvæði. Eftirlitsstofnun EFTA hefur bent á að það kunni að brjóta gegn 11. gr. EES-samningsins um frjálst vöruflæði innan Evrópska efnahagssvæðisins. Því er þetta ákvæði fellt niður.``

Skil ég það rétt, hæstv. ráðherra, að hér sé verið að leyfa sölu sælgætis sem er í formi sígarettna? Er það málið að þetta stangist á við EES og því sé eðlilegt að nú verði aftur farið að selja sælgæti í formi sígarettna, eins og var hér fyrir tveim til þrem áratugum?

Annað sem ég vildi líka aðeins koma að og spyrja hæstv. ráðherra er hvernig reykingabannið hafi reynst yfir höfuð. Nú er það svo að t.d. á heimilum aldraðra var á mörgum stöðum búið að koma upp sérstöku reykherbergi fyrir starfsfólk sem átti í erfiðleikum með að hætta að reykja. Boðið var upp á aðstoð, bæði lyfjameðferð og læknisaðstoð. Það gekk ekki fram. Síðan var þessum reykherbergjum lokað en þá tók starfsfólkið upp á því, þrír til fjórir í einu, að setjast út í bíl með kaffibolla, og þá var reykmettunin algjör þegar fólkið kom inn til starfa á ný. Ég spyr: Hvernig eigum við að mæta þessu? Eigum við að setja algjört bann eða eigum við að segja: Það er eðlilegt að á hverri heilbrigðisstofnun sé herbergi sem sé vel reykræstað og þangað geti fólk farið og reykt? Ég held að við ráðum ekki við þetta. Þetta er ákveðið vandamál í heilbrigðisgeiranum.