Tóbaksvarnir

Mánudaginn 15. janúar 2001, kl. 15:17:49 (3579)

2001-01-15 15:17:49# 126. lþ. 57.2 fundur 345. mál: #A tóbaksvarnir# (markaðssetning, tóbaksmengun o.fl.) frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 126. lþ.

[15:17]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Við erum að ræða frv. um breytingu á lögum um tóbaksvarnir frá hæstv. heilbrrh. og verð ég að segja að ég hefði gjarnan viljað hafa einhvern tíma til að undirbúa mig undir þessa umræðu. Ef ég hefði vitað að þetta mál yrði til umræðu í dag þá hefði ég svo sannarlega gert það. En þar sem þetta mál ber mjög brátt að á dagskránni þá ætla ég aðeins að hlaupa á því. Ég vil lýsa því yfir í upphafi að ég er mjög ánægð með þær breytingar sem ég hef séð í frv. og tel að þær séu allar til bóta og það sé löngu tímabært að taka á ýmsum þáttum sem varða tóbaksvarnir.

Áður en ég fer frekar í ýmsa þætti frv. vil ég minna á að nokkur þingmál í heilbr.- og trn. varða tóbaksvarnir og væri full ástæða til að taka þau fyrir ekkert síður en þetta mál og taka þá samhliða því að þar eru lagðar til ýmsar leiðir til tóbaksvarna sem ég tel að gætu verið til bóta. Minni ég þar á þáltill. hv. þm. Þuríðar Backman sem ég er meðflm. að um tóbaksverð og vísitölu sem við höfum flutt nokkrum sinnum á þinginu. Sú tillaga liggur nú fyrir heilbr.- og trn.

Ég get ekki séð betur en að allar þær tillögur til breytinga sem hæstv. ráðherra leggur til séu mjög til batnaðar. Ég fagna því að óheimilt verði að setja á markað hér vörur sem eru undir sömu vörumerkjum og tóbak og þar með fellur náttúrlega sælgætið sem kom til umræðu í andsvari áðan.

Hvað það varðar að ekki sé heimilt fyrir yngri en 18 ára að selja tóbak þá hef ég gjarnan viljað spyrja hæstv. ráðherra um eftirlit með þeim þætti, hvernig hæstv. ráðherra hyggst taka á því að virkt eftirlit verði með ákvæðum þessa frv. og sömuleiðis með ákvæðum 8. gr. frv. sem varðar 9. gr. laganna um það að tóbaksreykingar séu óheimilar á ákveðnum stöðum. Ég fagna því að þessu skuli hafa verið snúið þannig við að reykingar séu óheimilar og síðan séu undanþágur á þeim ákvæðum. Mér finnst það rétt nálgun á þessu máli. Ég hefði gjarnan viljað heyra frá hæstv. ráðherra hvernig hún hyggst haga því eftirliti bæði hvað varðar gistiheimilin, gistihús, hótel og veitingastaði. Vissulega má gera ráð fyrir að Hollustuvernd, heilbrigðiseftirlit og aðrir slíkir fylgist með þessu en það er spurning hvort ekki þurfi að auka eftirlit þegar ákveðin ákvæði verða komin inn í lög eins og verður þegar þetta frv. verður orðið að lögum.

Ég tel líka vera mjög til fyrirmyndar að hugað er sérstaklega að börnum í þessu frv., þ.e. rétti þeirra til hreins og ómengaðs lofts og hefði gjarnan viljað sjá svipuð ákvæði t.d. í frv. er varðar aðra vímuefnanotkun og spyr hæstv. ráðherra hvort nokkuð slíkt sé á döfinni hjá henni sem varðar fíkniefni og önnur vímuefni og aukið eftirlit með notkun þeirra.

Ég held að það að reykingar hafi verið bannaðar víða á vinnustöðum hafi haft það í för með sér að reykingamönnum hefur fækkað. Ég tel það vera af hinu góða og ég er alveg sannfærð um að breytingar eins og þær sem lagðar eru til hér muni verða til þess að reykingamönnum fækki. (Gripið fram í.) Þeim verður fækkað með þessu frv. því það fer að verða mjög erfitt fyrir þá sem háðir eru þessari fíkn að halda henni áfram því að þeir eru orðnir fáir staðirnir þar sem þeir eiga afdrep og fagna ég því. Ég verð að segja það. Ég sé að þeir sem eru miklir fíklar hér í salnum eru ekki eins kátir með það --- og þó.

Herra forseti. Svo langt sem ég hef skoðað þetta frv., þá get ég tekið undir nánast flest sem það fjallar um og mun auðvitað koma að málinu í hv. heilbr.- og trn. þegar þar að kemur en ég ítreka að þá verði tekin fyrir önnur mál sem varða tóbaksvarnir, tóbaksverð og tengsl þess við vísitölu eins og ég nefndi í upphafi máls míns.