Tóbaksvarnir

Mánudaginn 15. janúar 2001, kl. 16:07:43 (3583)

2001-01-15 16:07:43# 126. lþ. 57.2 fundur 345. mál: #A tóbaksvarnir# (markaðssetning, tóbaksmengun o.fl.) frv., ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 126. lþ.

[16:07]

Þuríður Backman (andsvar):

Herra forseti. Ég vil andmæla þeim orðum hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar sem hér var að ljúka ræðu sinni, um að þingmenn töluðu um reykingamenn sem annars flokks þegna. Ég tel að það hafi hvorki ég né aðrir gert. Það er ekki verið að tala til reykingamanna sem slíkra, heldur er það reykurinn sem mengar og það er þess vegna sem við setjum þessi lög. Tóbaksreykingar og tóbaksneysla valda sjúkdómum sem eru lífshættulegir og draga marga til dauða og er þjóðfélaginu mjög dýrt.

Hver er réttur reykingamannsins? Hann nær að nefi næsta manns, það er svo augljóst. Og að vísa mönnum út á götu til að reykja ef þeir geta ekki verið án reyksins segir bara það að á þeim vinnustað eða húsakynnum hefur ekki verið útbúið sérstakt herbergi og það er þá betra fyrir þann sem reykir og alla í kringum hann að hann reyki í vinnutíma sínum úti á götu þar sem reykurinn dreifist og veldur ekki eins mikilli mengun og ef hann gerði það inni á vinnustað sínum eða í sérstöku herbergi. Það er ekki á neinn hátt verið að ráðast að reykingamönnum sem slíkum, heldur er verið að útiloka tóbaksreyk frá umhverfi manna.

Auðvitað fer það eftir vinnustöðum hvort hægt er að koma því við að koma upp sérstöku reykherbergi fyrir þá sem ekki vilja eða geta hætt og það fer vissulega eftir eðli vinnustaðanna. Það fer eftir því hvort um er að ræða matvælaiðnað eða viðkvæman iðnað, sjúkrahús eða heilsugæslustöðvar. Og það að tala um heilbrigðiseftirlitið sem sérstakan eftirlitsiðnað er ekki rétt því að þeim ber að sjá til þess að lögum sé framfylgt.