Tóbaksvarnir

Mánudaginn 15. janúar 2001, kl. 16:14:04 (3586)

2001-01-15 16:14:04# 126. lþ. 57.2 fundur 345. mál: #A tóbaksvarnir# (markaðssetning, tóbaksmengun o.fl.) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 126. lþ.

[16:14]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil algjörlega frábiðja mér það að ég þurfi á einhverri sérstakri aðstoð að halda hjá hv. þm., það er alveg ljóst, þó að hún í hjáverkum kunni að vera í sérfræðingahópi hjúkrunarfræðinga sem hafa verið að velta þessum málum fyrir sér, þá er það gott og vel.

Ég var hins vegar að velta fyrir mér verðmyndun lyfjanna, þessara hjálpartækja eða hjálparmeðala og saknaði þess að hún skyldi ekki nýta tíma sinn til að upplýsa um það. Er það einasta leiðin sem fær er, að greiða þau niður með opinberu fé? Ef svo er þá ber að skoða það en ég hef talsverðar efasemdir um að það sé eina leiðin í málinu.

Það er þarflaust út af fyrir sig að orðlengja þetta meira. Skoðanir eru skiptar á því hvaða mynd við viljum draga upp. Ég vil bara árétta það, herra forseti, að lyktum að vilji menn og ráðamenn hafa þann hátt að setja reglur sem verður afskaplega og nánast ómögulegt að fara eftir til fullnustu, þá þeir um það. Ég hef efasemdir um slíkt regluverk, það hefur alltaf verið sjónarmið mitt í þessu máli og öðru. Og af því menn eru ævinlega að vísa til annarra þjóða í þessu samhengi, þá var ég einmitt síðast í sumar í einu þeirra fylkja í Bandaríkjunum sem hefur gengið hvað harðast fram í algjöru tóbaksbanni á veitingastöðum og maður komst ekki inn úr dyrunum inn á veitingastaðinn fyrir reykingafólki sem stóð þar í reykjarmekkinum. Ef mönnum finnst það betra í stað þess að fólk sitji í hornum og reyki þar, þá er það skoðun þeirra, það er ekki mín skoðun. Og einn er sá staður í Bandaríkjunum, af því að horft er til fyrirheitna landsins í svo mörgu, Berkeley-háskóli sem telur tíu eða fimmtán þúsund nemendur ef ekki fleiri, að þar er algjört reykingabann, en hægt er að ganga allsber þar um allar götur. Sinn er siður í landi hverju.