Tóbaksvarnir

Mánudaginn 15. janúar 2001, kl. 16:17:04 (3587)

2001-01-15 16:17:04# 126. lþ. 57.2 fundur 345. mál: #A tóbaksvarnir# (markaðssetning, tóbaksmengun o.fl.) frv., KF
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 126. lþ.

[16:17]

Katrín Fjeldsted:

Herra forseti. Ég kem upp til að gleðjast yfir frv. heilbrrh. til laga um breytingu á lögum um tóbaksvarnir. Mörg slík frv. hafa komið fram í gegnum árin og breytingar verið gerðar á tóbaksvarnalögum. Ég gerði mér það til gamans að fara yfir nokkur eldri frv. sem ég átti frá þeim tíma sem ég átti sæti í stjórn Krabbameinsfélags Reykjavíkur. Ýmis atriði skjóta upp kollinum aftur og aftur og greinilegt að menn hafa horft mjög á vissa þætti, t.d. hvernig hækka mætti verð á tóbaki til að draga úr reykingum og sömuleiðis að verja svo og svo miklu hlutfalli af brúttósölu tóbaks til tóbaksvarna. Sem dæmi má nefna að á 120. löggjafarþingi 1995 hækkaði þessi prósenta af brúttósölu úr 0,4% í 0,7%. Í frv. sem þá var lagt fram voru menn að gæla við að hækka smásöluverð á tóbaki um 5--10% árlega frá árinu 1995--2000 en það var reyndar ekki gert.

Ég hef farið nokkuð ítarlega yfir frv. og eins og ég sagði í upphafi fagna ég framkomu þess. Að vísu eru viss atriði sem má draga í efa að séu framkvæmanleg. Ég er þeirrar skoðunar að vissir þættir séu áhrifaríkastir þegar reynt er að hindra reykingar eða draga úr þeim. Það er í fyrsta lagi að takmarka hvar megi reykja og á því er ágætlega tekið í þessu frv. Einnig skiptir verðið máli því flestir setja það fyrir sig. Lyf standa reykingamönnum til boða og þau eru af ýmsum tegundum: tyggjó, nefúði, húðplástur og nú síðast töflur. Allmiklar rannsóknir liggja fyrir á áhrifum þessara lyfja, ekki síst á vegum þess læknis sem mest hefur beitt sér fyrir tóbaksvörnum hér á landi, sem er Þorsteinn Blöndal, yfirlæknir á Heilsuverndarstöðinni. Til viðbótar við þetta má nefna einstaklingsráðgjöf. Þó að hópnámskeið gefi þokkalega raun, held ég samt að ráðgjöf læknis til sjúklings síns undir viðeigandi kringumstæðum sé enn áhrifaríkari. Hjúkrunarfræðingar hafa lagt heilmikla vinnu í þessa baráttu og einn þingmaður sem talaði á undan mér, hv. þm. Þuríður Backman, hefur verið mjög framarlega í því og unnið prýðilega vinnu í starfi sínu á Egilsstöðum en þar hefur hún ekki síst unnið með heimilislækni sem þar er, Pétri Heimissyni. Mjög ánægjulegt er til þess að vita þegar heilbrigðisstarfsfólk tekur sig saman til að berjast gegn heilsuspillandi athæfi fólksins í landinu.

Markmið frv. er eins og fram kemur í 1. gr. þess að draga úr heilsutjóni og dauðsföllum af völdum tóbaks með því að minnka tóbaksneyslu og vernda fólk fyrir áhrifum tóbaksreyks. Þar segir einnig að virða skuli rétt hvers manns til að þurfa ekki að anda að sér lofti sem er mengað tóbaksreyk af völdum annarra. Þetta finnst mér mjög mikilvægt og ég held að við hljótum öll að sameinast um þetta.

Það eru örfá atriði í þessu frv. sem ég set spurningarmerki við og vil nefna sem dæmi það sem kemur fram í 7. gr. frv. en þar er ný málsgrein þar sem segir að þeir einir sem orðnir eru 18 ára mega selja tóbak. Auðvitað er góðra gjalda vert að reyna að koma í veg fyrir að yngra fólk en 18 ára sé að afgreiða tóbak en ég sé ekki að þetta sé raunhæfur kostur þegar við lítum á allt það unga fólk sem starfar í verslunum og söluturnum og á ýmsum stöðum þar sem smásala á tóbaki hefur farið fram. Það er staðreynd sem við búum við. Viðurlögin samkvæmt frv. við því að t.d. 16 ára eða 17 ára starfsmaður í söluturni eða verslun selji tóbak eru sektir eða fangelsi allt að tveimur árum. Ég set spurningarmerki við þetta. Ég held að þetta sé ekki alveg raunhæft eins og málum er fyrir komið í þjóðfélagi okkar. Mjög margir staðir þar sem tóbak er selt fá ekki starfsfólk nema á þessum unga aldri. Það er visst sérkenni á íslensku þjóðfélagi að skólanemendur vinna slík störf meðfram námi.

Mörg atriði hefur verið minnst á af fyrri ræðumönnum og ég ætla ekki að endurtaka þau. Í 8. gr. er rætt um að tryggja skuli fullnægjandi loftræstingu á veitinga- og skemmtistöðum. Það er sjálfsagt og nauðsynlegt að gera það og afmarka það rými þar sem reykt er til þess að hægt sé að standa við það markmið sem sett er í 1. gr. að virða rétt þeirra sem reykja ekki.

Í 8. gr. segir að stjórnendur veitingastaða skuli af fremsta megni leitast við að vernda starfsfólk gegn tóbaksreyk. Ég held að starfsfólk veitingastaða sé yfirleitt 18 ára og eldra og þar með sjálfráða fólk sem ber ábyrgð á sjálfu sér. Mér finnst eðlilegra að stjórnendum veitingastaða sé gert að bera ábyrgð á að lögum sé framfylgt á vinnustaðnum en ekki að það sé stjórnendanna að vernda starfsfólk þó að e.t.v. megi deila um það.

Hvað varðar niðurgreiðslur á lyfjum sem eru hjálpartæki fyrir fólk sem vill hætta að reykja þá fyndist mér mjög vel koma til greina að hækka verulega álögur á tóbak og verja því sem þar næðist inn til að greiða niður kostnað við niktótínlyf.

Margir reykingamenn, sem setja mikla fjármuni í tóbak, kvarta yfir því að nikótínlyfin séu dýr og það væri líkast til viss hvati fyrir marga þeirra, jafnframt því sem þeir losnuðu við reykingarnar ef þeir spöruðu fjármuni á meðan þeir eru að reyna að venja sig af fíkninni.

Þetta frv. ber samt þess merki, þrátt fyrir þær athugasemdir sem ég er að gera hér, að það sé vel unnið. Í athugasemdum við það kemur fram að tóbaksvarnanefnd vann tillögur að frv. til laga um breytingu á lögum um tóbaksvarnir og í henni sitja þrír læknar, Þorsteinn Njálsson, sem er formaður, Helgi Guðbergsson og Sveinn Magnússon. Þeir segja reyndar að Íslendingar hafi verið í fararbroddi í tóbaksvörnum meðal þjóða. Við getum vel verið stolt af því, bæði varðandi reykingar á vinnustöðum, reykingar í flugi innan lands og einnig í millilandaflugi. Enn einn læknir kemur til sögunnar á alþjóðavettvangi, en það er fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, Gro Harlem Brundtland, sem hefur á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sett baráttu gegn tóbaki og reykingum á oddinn.

Í athugasemdum við frv. kemur fram að Hjartavernd gefi upp töluna 370 manns yfir þá sem deyja árlega á Íslandi af völdum reykinga, þ.e. einn maður á dag. Þetta er gríðarlega há tala. Það er svo mikið sem hægt er að vinna í þessu, annars vegar að reyna að draga úr því að ungt fólk hefji reykingar og sömuleiðis að hjálpa þeim sem reykja til þess að losa sig við það.

Ég sagði áðan að ég hefði verið í stjórn Krabbameinsfélags Reykjavíkur um nokkurra ára skeið. Þar hefur verið heilmikið fræðslustarf í gangi sem hefur beinst að grunnskólum í Reykjavík. Það starf var vel undirbyggt og vel að því staðið og ég held að það módel sé nýtanlegt um allt land og er kannski nú þegar. Skaðsemi reykinga er óumdeilanleg og það að fræða ungt fólk sérstaklega nógu snemma í grunnskólum og í framhaldsskólum skiptir miklu máli.

Börn sem alast upp á heimilum reykingamanna eru heilsuveilli en önnur börn. Þau eru veikari fyrir ýmsum sjúkdómum, fá frekar sýkingar, öndunarfærasýkingar, fá frekar astma upp úr sýkingum o.s.frv. Þetta er þekkt og menn mótmæla því ekki. Það er því til mikils að vinna.

Nú fer þetta frv. til hv. heilbr.- og trn. þar sem ég á sæti og ég hlakka til að taka þátt í að vinna því framgang.