Tóbaksvarnir

Mánudaginn 15. janúar 2001, kl. 16:28:13 (3588)

2001-01-15 16:28:13# 126. lþ. 57.2 fundur 345. mál: #A tóbaksvarnir# (markaðssetning, tóbaksmengun o.fl.) frv., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 126. lþ.

[16:28]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Þetta frv. kom mjög óvænt á dagskrá í dag en samt hefur verið heilmikið rætt um það og margt gott komið fram. Ég vil þakka fyrir þetta frv. sérstaklega og lýsa yfir stuðningi við allflest sem þar kemur fram.

Það hefur verið rætt að frv. bæri nokkurn keim af forræðishyggju og það er sjálfsagt rétt. En þegar um það er að ræða að berjast gegn reykingum, sem er kannski mesti skaðvaldur sem viðgengst í þjóðfélagi okkar sem við getum gert eitthvað gegn, því vitað er að það eru 370 manns á ári sem deyja af völdum reykinga hér á Íslandi, sem eru margfalt fleiri en þeir sem farast t.d. í umferðarslysum sem okkur vex stundum mikið í augum, þá held ég að ýmis meðul séu leyfileg þegar barist er gegn slíkum vágesti.

Ég verð að segja að mér hefur ofboðið undanfarið hvað reykingar hafa færst í vöxt hjá ungu fólki, a.m.k. því sem ég umgengst og fylgist með, og sérstaklega ungum stúlkum. Ekki eru liðin nema nokkur ár síðan ég sá línurit um dauðsföll hjá konum vegna reykinga hjá einum þáv. þm., Kristínu Ástgeirsdóttur, sem hafði sótt ráðstefnu um reykingar kvenna í Bandaríkjunum. Línuritið sýndi hvernig slík dauðsföll hafa farið vaxandi. Mér ofbauð gjörsamlega. Hún var með alls konar línurit sem sýndu fram á og sönnuðu að reykingar væru konum í raun mun hættulegri en körlum. Þess vegna lít ég mjög alvarlegum augum þá þróun sem mér finnst vera í gangi að það sé verulega, ef má nota orðið ,,smart`` hér á Íslandi, hjá ungum stúlkum að reykja í dag.

[16:30]

Ég held að það meðal sem gefast muni best í baráttunni við reykingar í bráð og lengd sé fræðslan, tóbaksvarnir gegnum fræðslu. Það gleður mig mjög að í þessu frv. er gert ráð fyrir auknum fjárveitingum til tóbaksvarna af því tagi. Hér er talað um að nú fari 0,9% af brúttósölu tóbaks til forvarna. Þó finnst mér öðrum þræði svolítið óhugnanlegt að það skuli vera háð sölu á tóbaki að hægt sé að halda uppi almennilegri fræðslu og forvörnum. Það er ekki alveg það sem maður óskar sér. Auðvitað sparar hver einstaklingur sem við getum fengið til að leggja reykingar á hilluna þjóðfélaginu stórfé. Því mætti kannski veita eitthvert fjármagn til tóbaksvarna með öðrum hætti.

Ég vil benda á að í nýrri námskrá framhaldsskóla og raunar grunnskóla líka, er komið inn fag sem heitir lífsleikni. Þetta fag gefur sérstakt svigrúm til að taka inn fræðslu um skaðsemi tóbaks og ég vona svo sannarlega að það svigrúm verði vel nýtt og að sálfræðingar og helstu uppeldisfræðingar verði fengnir til að finna út hvernig þessari fræðslu verður komið á framfæri þannig að hún verði sem áhrifaríkust.

Ég held að þó að við höfum verið með fræðslu og forvarnir þá höfum við kannski ekki slegið alveg hina réttu strengi, ekki náð hinum eina sanna tóni. Ég tel að undirbúninginn mætti vanda betur.

Það hefur komið fram í dag að reykingamönnum finnst að sér vegið með slíkri lagasetningu og finnst þeir vera gerðir að annars flokks þjóðfélagsþegnum. Ég kannast svo sem við þá tilfinningu. Ég er ein af þeim sem reyktu hér áður fyrr. Ég held að það verði að setja þessa fræðslu og forvarnir þannig fram að það vegi ekki að fólki persónulega.

Ég vil taka undir með hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni að það getur verið niðurlægjandi fyrir starfsmenn sem ekki treysta sér til að halda sér reyklausum allan daginn, sem mér skilst nú samt að sumir geri, að þurfa að fara út á gangstéttir, út á fjölmennar götur og standa þar hvernig sem viðrar og reykja. Mér finnst að það mætti nú alveg sýna þessu fólki þann sóma að hafa sérstök vel loftræst afdrep innan vinnustaða þangað sem fólk sem þarf að reykja getur farið og reykt ef það vill. En það er sjálfsagt að reyna að verðlauna þá einhvern veginn sem ekki gera það og líka að vinnuveitendur veiti fólki sem vill reyna að halda sér reyklausu á vinnustað lyf til að hjálpa því við að berjast við þessa fíkn.

Ég vil líka taka undir það sem kom fram hjá hv. þm. Margréti Frímannsdóttur áður á fundinum um fanga og reykingabann í fangelsum. Ég kom einu sinni í starfi mínu sem þingmaður, og þá með hv. þm. Margréti Frímannsdóttur, í fangelsi og einmitt inn á þá deild þar sem menn sátu í gæsluvarðhaldi. Það umhverfi og þær gufur sem bárust til manns á þeim stað urðu nú ekki til að hvetja mig til að setja sérstakt reykingabann á fólk sem situr í gæsluvarðhaldi. Allra síst finnst mér viðeigandi að benda því á að reykja í rúmunum. Það er nú eitt það alversta sem ég get ímyndað mér, að reka fólk inn í rúm nánast til að reykja. Þó að ég hafi yfirleitt mikla andúð á reykingum, finnst mér einna verst ef fólk er að reykja í rúmunum. Betra er að það hafi vel loftræst rými sem má reykja í.

Ég las í minningargrein rétt fyrir jól minningarorð um pilt sem hafði dvalist á geðdeild og hafði verið sviptur sjálfræði vegna eiturlyfjafíknar. Á þessari geðdeild sem hann dvaldist á mátti ekki reykja. Sjúklingarnir urðu að fara út í því mjög slæma ástandi sem þeir voru til að reykja, í fylgd eins gæslumanns. Og ég verð að segja að það er mitt álit að á slíkum stöðum þurfi og eigi að sjá fyrir sérstöku afdrepi þar sem fólk getur reykt án þess að fara út á götu.

Eitt enn langar mig að taka undir sem hefur komið fram hérna á fundinum og það er varðandi nikótínlyfin. Mér er hreinlega ekki ljóst hvað veldur því að þessi lyf þurfa að vera svona dýr. Ég þekki til fólks sem af efnahagsástæðum ætlaði að hætta að reykja og ætlaði að gera það með því að nota nikótíntyggjó og nikótínplástra. Þetta fólk gafst upp að því það tjáði mér vegna þess að lyfin voru svo dýr að það gat ekki keypt þau. Það var dýrara að því er þau sögðu að vera á lyfjum en að reykja. Ég verð að segja að ég veit ekki hvað veldur því að þessi lyf þurfa að vera svona dýr, hvort það er álagning lyfjabúða eða hvort þetta eru innflutningstollar, vegna þess að í rauninni finnst mér þetta vera afskaplega einföld lyf að allri gerð. Hugsanlega væri hægt að framleiða þau ódýrari hér á Íslandi, a.m.k. finnst mér að leita þurfi allra leiða til að gera þessi lyf ódýrari og enn þá aðgengilegri en þau eru nú.