Endurheimt íslenskra fornminja frá Danmörku

Þriðjudaginn 16. janúar 2001, kl. 13:33:46 (3596)

2001-01-16 13:33:46# 126. lþ. 58.1 fundur 352. mál: #A endurheimt íslenskra fornminja frá Danmörku# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 126. lþ.

[13:33]

Fyrirspyrjandi (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Herra forseti. Ástæða fyrirspurnar minnar er sú að innan tíðar munu Færeyingar fá til baka allar sínar fornminjar sem verið hafa á danskri grundu. Á 19. öld var hluti þessara fornminja fluttur á danska þjóðminjasafnið þar sem ekki var hægt að geyma þær á sínum tíma í Færeyjum vegna skorts á viðunandi rými. Nú hafa Færeyingar eignast sitt safnahús þar sem unnt er að varðveita munina. Líklegt er að endurgerð og mjög fullkomin húsakynni Þjóðminjasafnsins íslenska verði tekin í notkun innan skamms. Það verður þá á sómasamlegan hátt hægt að geyma og taka við íslenskum fornminjum og sýna þá menningar- og söguþyrstum Íslendingum en ekki síður útlendingum.

Við vitum öll að það er mikilvægt hverri þjóð að geta tengst sögu og menningu fyrri tíma á einn eða annan hátt svo hún geti stolt og keik tekist á bæði við nútíð og framtíð. Ómetanleg eru handritin okkar og Íslendingasögurnar. Minna hefur hins vegar verið um hluti sem varðveist hafa, enda aðstæðurnar oft erfiðar í þessu harðbýla landi. Þeir eru þó nokkrir en margir þeirra dýrgripa eru nú á danskri grundu og hafa verið þar nokkuð lengi.

Þegar skrifað var undir sáttmálann við Dani um afhendingu handritanna árið 1965 var eitt ákvæði, þ.e. 6. gr., sem sneri að öðrum þjóðminjum í Danaveldi. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Samningsaðiljar eru sammála um það, að með þeirri skipan, sem hér er gerð,`` --- sem tilgreind er í 1. gr. --- ,,sé viðurkennt, að fullkomlega og endanlega sé útkljáð um allar óskir af íslenzkri hálfu varðandi afhendingu hvers konar íslenzkra þjóðlegra minja sem í Danmörku eru.``

Þetta ákvæði er erfitt að sætta sig við í dag en það er að mörgu leyti skiljanlegt, enda barn síns tíma ef svo má segja. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan og viðhorf manna um rétt þjóða til eigin þjóðminja á erlendri grundu breyst mikið. Það er vel sjáanlegt í flutningi forngripa frá Danmörku bæði til Grænlands og Færeyja.

Einnig mæta t.d. fyrrum nýlenduþjóðir Englendinga, Frakka og Hollendinga nú frekari skilningi en áður við að heimta til baka fornminjar. Ég veit að hæstv. menntmrh. svaraði hv. þm. Jóni Bjarnasyni svipaðri fyrirspurn fyrir um tveimur árum og þar sagði hæstv. menntmrh., í rauninni skiljanlega líka, með leyfi forseta:

,,Þetta eru þeir samningar sem við höfum gert [þ.e. sáttmálinn] við Dani um þessi mál og ég er bundinn af þeim eins og aðrir sem starfa undir þessum samningum.``

Engu að síður, herra forseti, tel ég fullt tilefni til að taka upp viðræður að nýju við okkar ágætu vini Dani um að skila okkur fornmunum sem skipta þjóðarvitund okkar miklu. Hér er um að ræða muni eins og Grundarstólinn svokallaða, postulaklæði, biskupsmítur frá Skálholti o.fl. Fyrir okkur Íslendinga skipta þessir munir miklu máli en Dani minna sem sést best á því að þessir munir hafa sárasjaldan verið til sýnis síðustu áratugina í danska þjóðminjasafninu.

Hver sem ástæðan var, herra forseti, fyrir afsalskröfu okkar Íslendinga til íslenskra fornmuna í Danmörku tel ég ástæðu til þess í ljósi breyttra viðhorfa og aðstæðna að taka þetta mál upp að nýju og ég efa það ekki að til þess hefur hæstv. menntmrh. stuðning hins háa Alþingis.