Einbreiðar brýr

Þriðjudaginn 16. janúar 2001, kl. 14:06:11 (3609)

2001-01-16 14:06:11# 126. lþ. 58.3 fundur 374. mál: #A einbreiðar brýr# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 126. lþ.

[14:06]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Við þekkjum það öll og það hefur oft verið rætt á hv. Alþingi að svokallaðar einbreiðar brýr skapa margvísleg vandamál og þar hafa orðið mörg og oft alvarleg umferðarslys. Því er það ekki að ófyrirsynju að hugmyndum sé velt upp hvernig megi bæta úr og fyrirspyrjandi nefnir þá til hvort heppilegt geti verið að koma biðskyldu- eða stöðvunarskyldumerkjum þar fyrir til að draga úr slysahættu.

Samkvæmt umferðarlögum setur dómsmrh. reglur um gerð og búnað umferðarmerkja, umferðarljósa og hljóðmerkja og annarra merkja á eða við veg til stjórnunar á eða leiðbeiningar fyrir umferð svo og hvað þau tákna. Þessar reglur koma fram í reglugerð um umferðarmerki og notkun þeirra. Það er síðan hlutverk viðkomandi lögreglustjóra, en vegamálastjóra hins vegar þegar um er að ræða þjóðveg utan þéttbýlis, að sjá um að merki verði sett á eða við veg þar sem sérreglur eiga að gilda um umferð eða þörf er á til stjórnunar eða leiðbeiningar.

Fyrirbærið einbreiðar brýr er einkum á þjóðvegum utan þéttbýlis þar sem Vegagerðin er veghaldari. Dómsmrn. óskaði eftir því að Vegagerðin léti ráðuneytinu í té umsögn af þessu tilefni og hv. fyrirspyrjandi getur nálgast þá umsögn hjá mér þar sem lýst er nánar þeim reglum sem í gildi eru. Allar einbreiðar brýr á stofn-, tengi- og safnvegum eru merktar með gátskjöldum á hvorum enda auk stærri gátskjalda fyrir umferðarþyngri vegi og/eða þar sem ástæða er til að vara sérstaklega við.

Að auki eru sitt hvorum megin brúar, 250 metra frá brúarenda, tvö samhliða viðvörunarmerki ,,önnur hætta`` með undirmerkjunum ,,einbreið brú`` og fjarlægðarmerkinu 250 metrar. Fyrir umferðarþyngri vegi og/eða þar sem ástæða er til að vara sérstaklega við er bætt við í 500 metra fjarlægð frá brúarenda viðvörunarmerkinu ,,önnur hætta`` með undirmerkinu ,,einbreið brú`` og fjarlægðarmerki 500 metrar.

Það er alveg ljóst að ítarlegar reglur gilda í þessu efni og það er allt of langt mál að fara með það hér en þessar upplýsingar koma fram í fyrrgreindri umsögn frá Vegagerð ríkisins. Ég hef líka undir höndum myndir af þeim merkjum sem um er að ræða ef fyrirspyrjandi hefur áhuga á að kynna sér þau.

Ég tel þó rétt að vitna sérstaklega, með leyfi virðulegs forseta, í umsögn frá Vegagerðinni af því að hv. fyrirspyrjandi spyr sérstaklega um þau mál og þar segir:

,,Rætt hefur verið um forgangsrétt í akstri yfir þessar brýr með merkjum DO511, umferð á vegi veitir forgang, og merki B2511, skylt að veita umferð sem kemur á móti forgang, en ekki verið gerðar um það beinar tillögur. Með því að gefa annarri akstursstefnunni forgang í akstri yfir einbreiðar brýr mætti e.t.v. til lengri tíma auka umferðaröryggi eitthvað en þó ber að hafa í huga að slík merking geti í byrjun haft öfug áhrif ef ökumenn eru ekki nógu vel vakandi eða átta sig ekki nógu vel á breyttum merkingum. Ekki er hefð fyrir þessum merkjum í þjóðvegakerfinu hér á landi.

Biðskylda eða stöðvunarskylda kemur vart til greina þar sem þau á samkvæmt reglugerð að nota við vegamót þar sem ökumönnum ber að veita umferð á vegi sem ekið er inn á eða yfir forgang. Þau eru því notuð við allt aðrar aðstæður og ekki ætluð til nota við brýr.``

Þetta er allt nokkuð tæknilegt. Það er alveg ljóst en ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hafa vakið máls á þessu atriði. Það er staðreynd að umferðarslys við einbreiðar brýr eru áhyggjuefni og því er brýnt að að því sé hugað hvernig úr þessu megi bæta.

Stjórnvöld umferðarmála og vegamála eru vakandi fyrir öllum góðum hugmyndum í þessu sambandi og hafa t.d. í tilraunaskyni verið sett upp blikkandi viðvörunarljós við nokkrar brýr sem reynst hafa hættulegar en tölulegar upplýsingar liggja ekki fyrir um árangur. En ég vil taka undir með hv. fyrirspyrjanda um að mikilvægt er að einbreiðar brýr séu tryggilega merktar. Ég tel fyllstu ástæðu til þess að taka málið til skoðunar og þakka fyrir þessa fyrirspurn.